Gott útlit í kornræktinni
Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri Landbúnaðarháskóla Íslands á Korpu, segir gott útlit í kornræktinni þetta sumarið.
„Af því sem ég hef heyrt þá lítur þetta vel út. En það sér svo sem ekkert fyrir endann á þessu ennþá. Útlitið er því gott alls staðar þar sem ég hef heyrt, miðað við tíma sumars. Það er nú eitthvað lengra komið fyrir norðan, en útlitið fyrir sunnan er þó alls ekki slæmt. Kornið á Suðurlandi hefur sprottið vel en lokahnykkurinn er eftir – og þá snýst þetta um hvort kornið nái þroska. Nú snýst þetta um næstu þrjár vikur. Ef það viðrar vel á þeim tíma þá getur þetta orðið afbragðs gott kornár.“
Að sögn Jónatans hefur vætutíðin á Suður- og Suðvesturlandi ekki haft sérstök áhrif á kornið á meðan það er að spretta. „Það væri hins vegar ekki gott ef áframhald yrði á þessari vætutíð því þá myndi skorta hita til að kornið næði þroska. Það vill svo til að korn sprettur ágætlega þó það sé 12 stiga hiti og rigning – því gengur ágætlega í slíku tíðarfari að safna grænmassa. En þegar breyta eigi honum í korn þá þarf meiri hita og sá hiti fæst ekki nema í sólskini.“
Jónatan telur að ekki hafi meiru verið sáð í vor en í fyrra – líklega um 4.500 hektarar. „Það er ákveðin stöðnun, menn halda að sér höndum. Í fyrra gekk þetta frekar illa; frekar seint var sáð fyrir norðan en hér fyrir sunnan var endalaus rigningartíð, þannig að korn þroskaðist illa. Það er þó tvímælalaust mikill hagur af því þegar vel gengur í kornræktinni. Bæði fá menn ódýrar sáðkorn en það sem keypt er og svo er hálmurinn dýrmæt aukaafurð. Það gæti orðið raunin núna.“