Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Fríverslunarsamningar og viðskipti með búvörur
Fréttir 19. júní 2014

Fríverslunarsamningar og viðskipti með búvörur

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Ísland hefur í gegnum tíðina gert 26 fríverslunarsamninga við 34 ríki, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, um afnám og/eða lækkun tolla á iðnaðarvörum, fiski og unnum og óunnum landbúnaðarvörum. Þessir samningar taka mið af samningum sem Ísland hefur gert við Evrópusambandið og yfirleitt er ekki samið um meiri tilslakanir á tollum en þar er gert. Þetta kom fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um tollfríðindi í kjötútflutningi rétt fyrir þinglok.

Fjölbreyttir samningar í gildi

Í svari ráðherra rifjaði hann upp hvaða samningar eru í gildi og hvers eðlis þeir eru. Árið 2005 gerðu Ísland og Færeyjar tvíhliða samning, svokallaðan „Hoyvíkursamning“, sem felur m.a. í sér gagnkvæma fríverslun með landbúnaðarvörur, en hann er mun víðtækari en hefðbundnir fríverslunarsamningar. Í júlí 2013 tók nýr samningur gildi um innflutning á 600 tonnum af kindakjöti til Noregs, en hann leysir af hólmi eldri samning frá árinu 1969. Meginbreytingin er að nýi samningurinn gildir um allt kindakjöt, en eldri samningur var bundinn við kjöt í heilum og hálfum skrokkum og saltað kjöt. Árið 2013 var gerður fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína, en Alþingi hefur nýlega heimilað ríkisstjórninni að fullgilda þennan samning fyrir Íslands hönd. Gert er ráð fyrir að hann taki gildi 1. júlí 2014.

Samningi við ESB ætlað að glæða viðskipti með búvörur

Í mars 2007 tók gildi samningur Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli 19. gr. EES-samningsins sem leysti af hólmi gamlan viðskiptasamning frá árinu 1972. Samningurinn fól í sér að tollar á ýmsar landbúnaðarvörur voru felldir niður í viðskiptum milli Íslands og Evrópusambandsins. Samningnum var ætlað að leiða til lægra verðs á innfluttum landbúnaðarafurðum á Íslandi og um leið skapa ný sóknarfæri til útflutnings íslenskra landbúnaðarafurða. Samningurinn er gerður á grundvelli 19. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en þar er kveðið á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EFTA-ríkjanna innan EES og ESB. Þetta var í fyrsta sinn sem Ísland og Evrópusambandið gerðu samning á grundvelli fyrrnefndar greinar. Í samkomulaginu felast m.a. gagnkvæmar niðurfellingar á ýmsum landbúnaðarvörum. Í samningnum felst einnig að tollfrjáls lambakjötskvóti Íslands er hækkaður úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn. Þá fær Evrópusambandið tollfrjálsan kvóta til Íslands fyrir 100 tonn af nautakjöti, 200 tonn af svínakjöti, 200 tonn af kjúklingakjöti, 100 tonn af ostum, 100 tonn af kartöflum og 20 tonn af rjúpum. Þá voru samþykktir gagnkvæmir 100 tonna tollfrjálsir kvótar fyrir pylsur. Ísland fékk aftur á móti 350 tonna tollkvóta fyrir smjör og 380 tonna innflutningskvóta fyrir skyr til ESB-landanna. Þá var um það samið að tollar á kjötvörum úr 2. kafla tollskrár yrðu lækkaðir, að meginreglu til, um 40% frá almennum verð- og magntolli.

Íslensk stjórnvöld hafa um alllangt skeið átt í tvíhliða viðræðum við Evrópusambandið um aukin gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur og standa vonir til þess að þeim viðræðum ljúki á næstu mánuðum.

Er þörf fyrir auknar tollaívilnanir vegna útflutnings?

Ráðherra var einnig spurður að því hvort samningar um tollfríðindi svöruðu þeim þörfum sem aukin fullvinnsla og hugsanlegur útflutningur á ferskum afurðum hefði í för með sér. Svaraði hann spurningunni á þá leið að eftir því sem best væri vitað lægi engin slík áætlun fyrir. Sala á kjötafurðum hefði verið svipuð og undanfarin ár en væri þó nokkuð sveiflukennd eftir einstökum kjöttegundum. Innlend framleiðsla hefði ekki náð að fullnægja eftirspurn hér á landi í nautakjöti og einstökum hlutum svínakjöts. Kjúklingaframleiðsla hefði hins vegar náð að svara eftirspurn að mestu leyti. Framleiðsla lambakjöts hefði verið meiri en innanlandsmarkaði næmi til fjölda ára. Á síðustu árum hefði útflutningur kindakjöts verið á bilinu 2.500–3.000 tonn.

Í maí 2011 fóru Landssamtök sláturleyfishafa þess á leit við stjórnvöld að þau beittu sér fyrir samningum við Evrópusambandið um stærri tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir lambakjöt á markaði sambandsins. Núverandi innflutningskvóti er 1.850 tonn en óskað var eftir að kvótinn yrði aukinn í 4.000 tonn. Áhugi hefur einnig komið fram frá fulltrúum annarra kjöttegunda um útflutningskvóta fyrir svína- og kjúklingakjöt, sagði í svari Sigurðar Inga.

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...