Mynd/Einkasafn. Gísli Matthías Auðunsson.
Fréttir 06. apríl 2020

Nýtt hlaðvarp: Gísli Matt sækir í rætur íslenskrar matarmenningar

Ritstjórn

Gísli Matthías Auðunsson er viðmælandi Hafliða Halldórssonar í hlaðvarpsþættinum Máltíð. Gísli Matt, eins og hann er alltaf kallaður, hefur sett verulegt mark á veitingageirann þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur náð góðum árangri í rekstri og er þekktur fyrir frumleika og að sækja í rætur íslenskrar matarmenningar. Gísli er oftast kenndur við veitingahús sín Slippinn í Eyjum og Skál á Hlemmi Mathöll. Í þættinum er m.a. rætt um viðbrögð veitingageirans við COVID-19-ástandinu sem nú varir. 

Lítum okkur nær í hráefnavali

Gísli er ötull talsmaður þess að við gætum vel að okkar íslenska hráefni, lítum okkur nær í hráefnavali og pössum upp á virðiskeðju íslenskra matvæla. Hann segist ekki geta sagt gestum sínum sömu sögu og gert sömu hluti á veitingahúsum eins og t.d. Slippnum ef við nýttum að stærstum hluta innflutt hráefni. „Margt það sem okkur þykir hversdagslegt í okkar matarkörfu er í raun mikils virði,“ segir Gísli og bætir við að viðskiptavinir veitingahúsanna treysti á að hráefnið sé gott og unnið að fullum heilindum.

Máltíð er aðgengileg á öllum helstu hlaðvarpsveitum og í spilaranum hér undir.