Fréttir 06. mars 2020

Fimm ný verndarsvæði í byggð

Magnús Hlynur Hreiðarsson
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menn­ingarmála­ráðherra hefur staðfest tillögur að fimm nýjum verndar­svæðum í byggð. Til­gangur slíkra svæða er að stuðla að verndun byggðar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis þeirra. 
 
Tillögur um verndarsvæði koma frá viðkomandi sveitarfélagi en Minjastofnun Íslands veitir sveitarfélögum ráðgjöf við undirbúning til­lagna og skilar einnig um­sögn sinni til ráðherra. Svæðin sem um ræðir nú eru framdalur­inn í Skorradal, gamli bæjarhlutinn á Sauðár­króki, vestur­hluti Víkur í Mýrdal, Þórkötlustaða­hverfi í Grindavík og bæjar­hlutarnir Plássið og Sandur­inn á Hofsósi í Skagafirði. 
 
Byggð svæði hluti af menningararfi
 
„Menningararfur okkar Íslendinga er fjölbreyttur og byggð svæði eru hluti hans. Verndarsvæði í byggð geta meðal annars haft sögulegt, félagslegt eða fagurfræðilegt gildi fyrir fyrri, núlifandi og komandi kynslóðir. Fyrstu verndarsvæðin voru staðfest árið 2017 og nú eru þau orðin tíu talsins. Ég hvet landsmenn til þess að heimsækja þessi svæði og kynna sér merkilega sögu þeirra og þýðingu – bæði þá og nú,“ segir ráðherra í frétt á vefsíðu ráðuneytisins. 
 
Eitt svæðanna er vesturhluti Víkur í Mýrdal, svæði sem  nær frá Víkurbraut 16 í austri og tekur til húsa norðan Víkurbrautar til og með bátaskýlisins við Víkurbraut 40a, auk húsa númer 21 (Halldórsbúð), 21a, 17 (Skaftfellingabúð), 19, 11 og 11a, sem eru sunnan Víkurbrautar. Innan þessarar afmörkunar eru verslunar- og íbúðarhús frá upphafi fjölbýlismyndunar í Vík og fram til ársins 1918, auk nokkurra yngri bygginga.
 
Tvö verndarsvæði í Skagafirði 
 
Gamli bærinn á Sauðár­króki: er á svæði sem afmarkast að norðan af nyrsta íbúðar­húsi Sauðár­króks, að austan af Strandvegi, að sunnan af Kirkju­torgi og Kirkjuklauf (Hlíðarstíg) og að vestan af Nöfum. Pláss­ið og Sandurinn á Hofsósi er á svæði sem er um 3 hektarar að stærð og afmarkast af Brekkunni að norðan, af brekkubrún Bakkans að austan og sjó og hafnargarði að sunnan og vestan.
 
Framdalur Skorradals afmarkast við heimatún bæjanna Háafells, Fitja, Sarps, Efstabæjar, Bakkakots og Vatnshorns. Einnig nær verndin til gömlu þjóðleiðanna sem liggja um lönd fyrrgreindra bæja. Um er að ræða fornar þingleiðir, biskupa- og prestaleiðir m.a. tengdar Fitjakirkju og Þingvöllum, gamlar verleiðir milli landshluta og leiðir til aðdrátta sem lengst af lágu til Hvalfjarðar. 
 
Þórkötlustaðahverfi í Grindavík er svæði sem afmarkast af Austur­vegi til norðurs og af túnmörkum og hlöðnum túngörðum við Sloka­hraun til austurs. Strandlengja Þórkötlu­staða­bótar afmarkar svæðið til suðurs og vesturmörkin eru við Kóngahraun við Þórkötlustaðanes.