Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ekki fengið greitt í marga mánuði
Mynd / Vogafjós.
Fréttir 30. júlí 2020

Ekki fengið greitt í marga mánuði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Korta hefur haldið til baka kredit­­korta­greiðslum til ferða­þjónustu­fyrirtækja innan vébanda Ferða­þjónustu bænda og fleiri aðila í ferða­þjónustu. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi ekki fengið greiddar kreditkortafærslur í marga mánuði.

Ólöf Hallgrímsdóttir hjá Voga­fjósi ehf. segir að Korta hafi ekki borgað þeim út greiðslur sem greiddar hafa verið með kreditkortum. „Korta borgar okkur allar debet­­greiðslur samkvæmt samningi en kreditgreiðslur virðast koma eftir geð­þóttaákvörðunum fyrirtækisins. Þeir hafa aðeins verið að borga okkur út undanfarið en af og frá að þeir hafi gert það samkvæmt gildandi samningi.“

Jóhannes Már Sigurðsson, lögfræðingur Vogafjóss ehf., segist hafa verið í sambandi við Korta og lagt fram beiðni um hvort þeir séu tilbúnir að færa samninginn við Vogafjós um dagleg uppgjör til fyrra horfs en það voru þeir sem breyttu honum einhliða. „Að þeirra sögn er verið að fara yfir það og þeir segja að næsta greiðsla eigi að koma fljótlega. Lögmæti þess að breyta samningnum er enn í skoðun og ólíklegt að niðurstaða eða álit um það verði komin fyrr en eftir nokkra daga. Við bíðum einnig eftir svari þeirra um kröfu Vogafjóss um að upprunalegur samningur standi og verði virtur. Korta ber því við að sökum COVID-19 hafi aðstæður breyst og að því sé þeim heimilt að breyta samningnum. Ég er því enn að meta réttarstöðu Vogafjóss og vonandi skýrist hún á næstu dögum.“

Fleiri að lenda í þessu

Sölvi Arnarsson, bóndi að Efstadal II og formaður Félags ferða­þjón­ustu­bænda, segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi sé það rétt að greiðslumiðlunarfyrirtækið Korta hafi ekki gert upp greiðslukortagreiðslur við marga af félagsmönnum í Félagi ferðaþjónustubænda samkvæmt samningi. „Ég hef upplýsingar um sjö af okkar bæjum sem hafa lent í þessu, en ég hef líka heyrt um að það séu fleiri en okkar fólk sem ekki fær greitt. Upphæðirnar sem um ræðir eru misjafnar eftir fyrirtækjum. Sú hæsta sem ég hef heyrt er um 15 milljónir.“

Að sögn Sölva er Félag ferðaþjónustubænda með lögfræðing sem er búinn að skoða málið í nokkra mánuði. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur Korta ekki greitt út neinar fyrirframgreiðslur sem fyrirtækið gæti hugsanlega orðið skaðabótaskylt fyrir nema að undangenginni skoðun á bókhaldi fyrirtækisins sem á að fá greiðsluna. Slík krafa er að öllu leyti mjög óeðlileg.“­

Búið að veita þjónustu en ekkert greitt

Bryndís Óskarsdóttir hjá Ferða­þjónust­unni Skjaldarvík segir að Korta hafi haldið til baka öllum kredit­korta­greiðslum til þeirra frá því um mánaða­mótin mars og apríl. „Ég er ekki bara að tala um fyrirframgreiðslur heldur öllum kreditkortagreiðslum sem við höfum tekið á móti síðan þá og í dag eigum við inni hjá þeim heilmiklar fjárhæðir sem virkilega skipta máli fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar. Umræddar fjárhæðir sem Korta heldur eftir bera litla eða enga vexti á meðan okkar fyrirtæki þarf að fjármagna sig með dýrum lánum í gegnum banka.

Samkvæmt svörunum sem við höfum fengið segist Korta vera að vernda rétt korthafa sem hafa greitt fyrir­fram með kreditkorti en það sem þeir halda eftir frá okkur eru bæði greiðslur fyrir veitta þjónustu sem og fyrirframsölu, sem er nánast einvörðungu svokallaðar óendurkræfar bókanir, en við höfum í ljósi aðstæðna boðið þeim gestum sem áttu hjá okkur slíkar bókanir að fá inneignarnót.“
Að sögn Bryndísar er hún búin að skipta um kortafyrirtæki.

Bryndís hafði samband við blaðið skömmu áður en það fór í prentun og sagðist hafa verið að fá tilkynningu  frá Kortu um að hún fengi hluta greiðslnanna, sem þeir hafa haldið eftir, fljótlega.

Fleiri gististaðir í sömu sporum

Guðjón Árnason, sem rekur Downtown Reykja­vík Apartments, segir að Korta skuldi sér rúmar 5 milljónir króna frá því í mars. „Hluti skuldarinnar er vegna fyrirframgreiddrar þjónustu en það sem stendur eftir frá því í mars er löngu frágengið við ferðamenn frá þeim tíma, annaðhvort sem inneign eða sem endurgreiðsla, en Korta heldur pening­unum enn þá. Upphaflega var skuldin 17 milljónir króna en af henni standa 5 milljónir eftir hjá Korta og án allra forsenda. Það sem meira er að ég veit um mörg önnur fyrirtæki í ferða­þjónustu sem eru í sömu stöðu. Félag hótel- og gistihúsaeigenda er farið að vinna í málinu með okkur.“ 

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...