Plastagnir eiga greiða leið inn í fæðukeðju manna vegna ótrúlegs sóðaskapar við meðhöndlun úrgangs.
Fréttir 04. júlí 2020

DynaCQ-búnaður greinir plast í matvælum af mikilli nákvæmni

HKr.
Eins dauði er annars brauð segir máltækið og nú hefur subbuskapur jarðarbúa varðandi plastúrgang skapað markað fyrir vélbúnað til að leita að plastögnum í matvælum. 
 
Um þetta má lesa á vefsíðu Tæknistofnunar Dana (Teknologisk Institute). Þar er greint frá vélbúnaði frá DynaCQ sem greinir plast í matvælum með mikilli nákvæmni og með miklum hraða.
 
Plast veldur vandræðum í matvælavinnslu
 
Matvælaiðnaðurinn einbeitir sér mjög að því að koma í veg fyrir að mengunarefni nái til neytenda. Aðskotaefni eru skilgreind sem málmbrot, beinbrot og hörð eða mjúk rifrildi úr plasti sem óvart hafa endað í framleiðslu, innihaldsefni og vörum. Ef vart verður við slík aðskotaefni í vörum sem fara frá verksmiðjunni getur það valdið kvörtunum, innköllun á vörum og jafnvel skaðabótakröfum, en allt þetta getur verið mjög skaðlegt fyrir orðspor framleiðanda. Hægt er að greina málmbrot í vörum sem nota málmskynjara eða röntgenbúnað. Bein í kjöti er aðeins hægt að finna vélrænt með röntgengeisla.
Það er mun erfiðara verkefni að greina litlar plastagnir í matvælum. Ekki er hægt að greina plast í matvælum með röntgenbúnaði, þar sem brotin eru oft örsmá og þunnar örður t.d. úr plastfilmu sem notuð er til að pakka vörunum áður en þær eru unnar. Nú eða agnir af svuntu eða hönskum. Lítil, hörð plastbrot úr færiböndum, kössum og ýmsu öðru eru einnig vandamál. Á röntgenmynd geta slíkar agnir runnið saman við kjötið í kring.  
 
Ljóst er að hvorki málm-, raf- né segulskynjarar geta greint plast í matvælum. Með málmdufti er hægt að gera plast greinanlegt með málmskynjara, en í reynd virkar sú leið aðeins ef um er að ræða tiltölulega stór plastbrot sem líka væru þá greinanleg með berum augum. 
 
Hingað til hefur eina vernd matvæla­iðnaðarins gagnvart plast­mengun verið að setja starfsmenn á framleiðslulínuna til að reyna að finna plastbrot í matvælum sem þar renna í gegn og fjarlægja þau úr vörunni með höndunum. Þetta er kostnaðarfrekt og seinlegt ferli og ekki sérlega árangursríkt. Enda er  sjónræn skoðun þreytandi og erfitt verkefni fyrir starfsmenn línunnar, sérstaklega við færiband sem er á miklum hraða. 
 
DynaCQ – plastskynjari
 
Tækjabúnaður sem byggður er á tölvusjón er nefndur DynaCQ, sem stendur fyrir „Dynamic Check of Quality“. Búnaðurinn  hefur verið þróaður hjá dönsku Tæknistofnuninni. Hann greinir sjálfkrafa brot úr plasti í matvælum meðan á framleiðslu stendur. Búnaðurinn hefur verið settur upp á fjölda framleiðslustöðva sem kemur í stað einhæfrar, þreytandi handavinnu. 
 
DynaCQ er fær um að skoða yfirborð matvæla sem hreyfast á færibandi á allt að 70 metra/mínútu. Á 70 cm breiðu færibandi getur búnaðurinn fundið plasthluti sem eru ekki nema 2x2 millimetrar að stærð og jafnvel minni. Þegar búnaðurinn skynjar aðskotahlut, sendir hann merki til stjórnkerfis færibandsins. Þetta gerir ­mönn­um kleift að hægja á eða stöðva færibandið og fjarlægja aðskotahlutinn handvirkt eða fjarlægja hann sjálfkrafa með róbóta eða öðrum vélbúnaði.
 
Sjónræni búnaðurinn er framleiddur í tveimur útgáfum. Það er með einni myndavél sem er notuð ef hægt er að dreifa vörum í þunnu lagi yfir færibandið, eða tvískiptur myndavélabúnaður sem skoðar bæði efri og neðri hlið vörunnar.
 
DynaCQ forrit
 
DynaCQ hefur verið notað við innmötun og við enda framleiðslulínu fyrir pökkun  á afurðum eins og pylsum, próteindufti og hökkuðum kjötafurðum. Búnaðurinn hefur einnig verið prófaður með góðum árangri á beikonbita, sælgæti og pitsur, þar sem plastmengun getur einnig valdið vandræðum.
 
Notaður m.a. í pylsu og pitsugerð
 
Þar sem búnaðurinn skynjar liti samkvæmt þekktum litastöðlum, er einnig hægt að nota hann til að flokka framleiðslu sem notuð er í framleiðsluferlinu eða við lokaskoðun á fullunnum vörum. Að auki getur DynaCQ skoðað tilbúnar pitsur til að athuga hvort álegg dreifist jafnt yfir allt pitsuyfirborðið.
Fyrir kjötiðnaðinn hefur DynaCQ einnig verið þróað til að fela í sér forrit fyrir sjálfvirka vöruauðkenningu. Búnaðurinn hefur verið „þjálfaður“ til að þekkja mismunandi kjötskurð í kössum með skurðarlínum eða mismunandi skurði á skurðarlínu. Í slíkum tilvikum getur rafeinda­sjón búnaðarins dregið úr fjölda starfsmanna sem þarf til að sannreyna innihald kassa handvirkt. Þar  með er hægt að auka afkastagetu, minnka villuhlutfallið og tryggja að vörur komist á réttan áfangastað.
 
DynaCQ-búnaðurinn er hann­aður til að vera sveigjanlegur, öflugur og þrifalegur við allar mælingar. Einnig er gert ráð fyrir að hægt sé að aðlaga búnaðinn fyrir mörg önnur skoðunarferli matvæla, t.d. varðandi auka­afurðir í fiskiðnaði