Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Tíu stærstu í tímans rás
Fréttaskýring 5. mars 2019

Tíu stærstu í tímans rás

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Kvótahæsta fyrirtækið, HB Grandi, samanstendur af ekki færri en 13 félögum. Ætla má að á annað hundrað útgerðir standi að baki 10 kvótahæstu útgerðum landsins.

Kvótakerfið var tekið upp á árinu 1984 og síðan þá hafa orðið gríðarlegar breytingar. Sjávarútvegsfyrirtækin eru bæði færri og stærri og öflugri en áður. Enda var að því stefnt að unnt væri að færa kvóta á milli skipa og útgerða til að auka hagræði. Skipaflotinn var á þessum árum miklu stærri en afrakstursgeta fiskistofna sem leiddi til ofveiði og afar bágrar stöðu sjávarútvegsins.

Til að stemma stigu við ofveiði var ákveðið að velja þá leið að setja heildaraflamark (kvóta) á nokkrar fisktegundir. Hvert skip fékk hlutdeild í aflamarki í hverri tegund í samræmi við aflareynslu. Þetta tvennt, hagræðing og sjálfbærni veiða, átti að tryggja atvinnuöryggi. Í kerfinu voru einnig ákvæði til stemma stigu við óheftum flutningi kvóta á milli byggðarlaga en reynslan hefur sýnt að þau ákvæði hafa að mestu reynst haldlaus eftir 1991.

Í upphafi voru sjö tegundir settar undir aflamark: þorskur, ýsa, karfi, ufsi, grálúða, skarkoli og steinbítur. Tvær síðastnefndu tegundirnar voru síðan teknar úr aflamarki. Aflamarkskerfið var í fyrstu ekki einhlítt en það var fest í sessi 1991. Í dag eru flest allar nytjategundir okkar háðar aflamarki og eru hluti af kvótakerfinu. Sérstakt stjórnkerfi er að vísu fyrir makríl.

 

 

Ein útgerð tekin sem dæmi

Hér er ekki ætlunin að fjalla um þróun kvótakerfisins og þau mörgu álitamál sem hafa verið og eru uppi um ágæti þess. Hins vegar verður litið á þá þróun sem hefur orðið hjá stærstu útgerðarfélögunum og birtir listar yfir 10 kvótahæstu útgerðir á mismunandi tíma frá upphafi og fram til dagsins í dag. Fyrir valinu urðu árin 1984 og 1990 og fiskveiðiárin 2002/2003 og 2018/2019. Þessar töflur eru þó af ýmsum ástæðum ekki samanburðarhæfar að öllu leyti þótt þær sýni þróunina á heildina litið. Við fyrri hluta þessa tímabils er stuðst við skýrslu Auðlindanefndar frá árinu 2000 en eftir það við gögn á vef Fiskistofu og víðar.

Of langt mál yrði að rekja sögu allra þessara fyrirtækja. Gripið verður til þess ráðs að fara ofan í saumana á tilurð eins þeirra, HB Granda sem er kvótahæsta útgerðin, enda má segja að samrunaferlið á bak við HB Granda sé í hnotskurn saga flestra annarra útgerða sem prýða topp tíu listann.

 

Bæjarútgerðir áberandi

Þá er komið að því að skoða fyrstu töfluna sem sýnir aflamark 10 kvótahæstu útgerða árið 1984. Samanlagt eru þessar útgerðir með rúm 21% kvótans í þeim fáu tegundum sem í boði eru.

Það fyrirtæki sem hefur mesta hlutdeild er Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR) með um 4% af heildarkvótanum. Í fjórða sæti er Bæjarútgerð Hafnarfjarðar en bæði fyrirtækin voru í eigu sveitarfélaga.

Þá er Útgerðarfélag Akureyringa hf. í öðru sæti sem var í meirihlutaeigu Akureyrarbæjar. Það er því ljóst að bæjarútgerðir voru áberandi á þessum tíma. Þá er athyglisvert að fjögur fyrirtækja á listanum eru nú hluti af HB Granda sem síðar verður vikið að.

Grandi og Samherji komast á blað

Árið 1990 er orðin nokkur breyting á listanum yfir 10 stærstu útgerðirnar, eins og sjá má í næstu töflu. Heildarhlutdeild 10 kvótahæstu hefur þó lítið breyst frá 1984. Útgerðarfélag Akureyringa hf. er komið efst á listann og hefur aukið hlutdeild sína nokkuð með kaupum á kvóta. Bæjarútgerðirnar eru horfnar af listanum en í staðinn eru komin fyrirtækin Grandi hf. og Samherji hf. sem eiga eftir að láta til sín taka næstu árin.

Grandi hf. varð til við samruna BÚR og Ísbjarnarins árið 1985

Árið 1988 seldi Reykjavíkurborg svo sinn hluta í Granda til einkaaðila. Samherji hf. stækkaði mikið við kaup á skipum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Þá má sjá að Samtog hf. er horfið af listanum. Félagið hafði verið leyst upp og kvóti þess rann til útgerðarfélaga í Vestmannaeyjum.

Það er rétt að nefna að vöxtur og samþjöppun aflaheimilda á sér stað annars vegar með samruna fyrirtækja og hins vegar með kaupum á þeim aflaheimildum sem bjóðast. Samruni er í flestum tilfellum yfirtaka eins félags á öðru en þó eru nokkur dæmi um tvö félög sem hafa sameinast og eignarhaldið er í höndum beggja aðila.

Samþjöppun í kjölfar frjáls framsals

Nú verður farið fljótt yfir sögu og litið á 10 stærstu útgerðirnar 1. september 2002, þ.e. í upphafi fiskveiðiársins 2002/2003. Á því ári var úthlutað upphafskvóta í loðnu. Hafa ber í huga að á þennan lista vantar úthlutun í uppsjávartegundum eins og kolmunna og norsk-íslenskri síld. Kvóti í þeim tegundum fylgir almanaksárinu. Þegar þær tegundir eru teknar með í reikninginn færast stóru uppsjávarfélögin, eins og Síldarvinnslan og Ísfélag Vestmannaeyja, upp í topp tíu.

Hvað sem því líður þá hefur átt sér stað veruleg samþjöppun á rúmum áratug í kjölfar frjáls framsals aflahlutdeildar sem tekið var upp árið 1991. Tíu kvótahæstu eru þarna komin með um 43% af öllum úthlutuðum kvóta.

Samherji hefur nú tekið áberandi forystu eftir sameiningar/yfirtökur nokkurra félaga og trónir í efsta sæti með rúm 7% úthlutaðs kvóta.

Útgerðarfélag Akureyringa er í öðru sæti en breytingar hafa orðið á eignarhaldi. Eimskipafélagið er nú aðaleigandi þess og Eimskip er reyndar einnig aðaleigandi Haraldar Böðvarssonar hf.

Grandi siglir nokkuð lygnan sjó og er í 6. sæti næst á eftir HB hf. Grandi hafði þó bætt við sig kvóta. Árið 1990 hafði Hraðfrystistöð Reykjavíkur hf. sameinast Granda. Árið 1995 eignaðist Grandi allt hlutafé í fyrirtækinu Faxamjöli hf. og fyrirtækið var síðan sameinað Granda í árslok 2002.

Miklar hrókeringar

Fjórða og síðasta taflan sýnir kvótahæstu útgerðirnar í mars 2018 samkvæmt útreikningi Fiskistofu. Þar eru allar tegundir teknar með, bæði þær sem úthlutað er í upphafi fiskveiðiárs og þær sem fylgja almanaksárinu.

Fram að þeim tíma höfðu orðið miklar hrókeringar hjá stærstu fyrirtækjun en við skulum aðeins líta á þær sem tengjast Granda eða HB Granda eins og félagið nefnist í dag.

Hverfum til ársins 2004 en þá runnu stórútgerðirnar Grandi og Haraldar Böðvarssonar saman og úr varð HB Grandi. Það félag varð þá kvótahæsta fyrirtæki landsins. Í framhaldi af því er vert að skoða hvaða útgerðir stóðu að baki Haraldi Böðvarssyni og um leið að baki HB Granda.

Haraldur Böðvarsson hf. varð til árið 1991 við samruna fjögurra fyrirtækja á Akranesi. Þau voru Haraldur Böðvarsson & Co, Sigurður hf. (dótturfélag HB & Co.), Heimaskagi og Síldar- og fiskimjölsverksmiðja Akraness hf. Árið 1996 sameinaðist Krossvík hf. HB hf. Árið 1997 sameinast HB og Miðnes hf. í Sandgerði en Miðnes var í hópi þeirra 10 stærstu bæði árin 1984 og 1990.

Þess má svo geta að árið 2003 verður Haraldur Böðvarsson hf. hluti af sjávarútvegsstarfsemi Eimskipafélags Íslands.

Árið 2004 var viðburðarríkt hjá HB Granda því þá sameinaðist félagið einnig Tanga á Vopnafirði og útgerð uppsjávarskipsins Svans RE.

Tíu stærstu með allt að 55%

Í samantekt Fiskistofu frá því í mars í fyrra var HB Grandi, kvótahæsta fyrirtækið, með 10,9% af heildinni. Samherji Íslands var í öðru sæti með 6,3% og Síldarvinnslan í því þriðja með 6%. Síldarvinnslan er jafnframt eina fyrirtækið sem eftir er undir sama nafni og það var á topp tíu listanum 1984.

Tíu stærstu 2018 eru með tæp 52% af heildinni. En þegar ÚA, dótturfélag Samherja, er tekið með og Bergur Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar, eru 10 stærstu með allt að 55%.

Samkvæmt núgildandi lögum má ekkert útgerðarfyrirtæki eiga meira en 12% af verðmætum heildarkvótans reiknað í þorskígildum. Þorskígildistuðlar eru notaðir til að finna verðmæti annarra tegunda gagnvart þorski.

Síðastliðið haust dró enn til tíðinda en þá festi HB Grandi kaup á Ögurvík sem var með töluverðar aflaheimildir. Nú í mars næstkomandi birtir Fiskistofa nýjar tölur um kvótahæstu útgerðirnar og þá er spurning hvort HB Grandi sé ekki farinn að nálgast 12% kvótaþakið.

Á annað hundrað félaga á bak við 10 stærstu

Í samantektinni hér að framan eru nefnd um það bil 13 fyrirtæki sem standa á bak við HB Granda. Sömu sögu er að segja af flestum öðrum fyrirtækjum á listanum þótt það hafi ekki verið rakið hér. Ekki er ólíklegt að 10 kvótahæstu útgerðirnar sem eru á listanum 2018 séu samansettar af eitthvað á annað hundrað fyrirtækjum stórum og smáum.

Þótt HB Grandi hafi hérna verið nefndur sem dæmigert fyrirtæki um samþjöppun hefur félagið þó þá sérstöðu að það hefur verið á hlutabréfamarkaði síðan 1992. Eignarhald aðaleigenda var nokkuð stöðugt lengst af en á síðasta ári urðu stór viðskipti með hlutabréf í félaginu og nýr aðaleigandi kom inn.

Stærstur hluti gengið kaupum og sölum

Hér hefur verið vikið að vexti og samþjöppun aflaheimilda hjá 10 kvótahæstu fyrirtækjunum með áherslu á HB Granda. Ljóst er að stór hluti kvótans hefur skipt um eigendur. Árið 2008 kom til dæmis fram samkvæmt könnun Landssambands íslenskra útvegsmanna að 87% af upphaflega kvótanum sem úthlutað var árið 1984 hefðu skipt um eigendur og verið keypt af þáverandi útgerðum.

Þá má nefna í lokin sem dæmi um þróunina að í upphafi fiskveiðiársins 2002/2003 voru 50 kvótahæstu útgerðir handhafar um 74% kvótans, fiskveiðiárið 2009/2010 voru 50 stærstu með 84,91% kvótans og fiskveiðiárið 2018/2019 voru 50 stærstu með um 90% kvótans. Allt ber því að sama brunni. Hér er ótalið ýmis eignatengsl því stóru útgerðirnar eiga sumar hverjar umtalsverðan hlut í öðrum félögum sem reiknast ekki með í samantekt Fiskistofu á hlutdeild útgerða í heildarkvótanum.

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...