Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fred Magdoff er prófessor emeritus í plöntu- og jarðvegsvísindum við Háskólann
í Vermont. Mynd / HKr.
Fred Magdoff er prófessor emeritus í plöntu- og jarðvegsvísindum við Háskólann í Vermont. Mynd / HKr.
Fréttaskýring 9. desember 2019

Skynsamlegur landbúnaður og kapítalismi fara ekki saman

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fyrr á þessu ári kom út í íslenskri þýðingu Þorvalds Þorvaldssonar bókin What Every Enviromentalist Needs to Know About Capitalism eftir þá Fred Magdoff og John Bellamy Foster. Bókin, sem kallast Það sem allir umhverfissinnar þurfa að vita um kapítalisma á íslensku, fjallar um tengslin milli umhverfisvanda samtímans og eðli kapítalisma.

Fred Magdoff var staddur á Íslandi fyrir skömmu þar sem hann hélt meðal annars fyrirlestur um efni bókarinnar. Magdoff er prófessor emeritus í plöntu- og jarðvegsvísindum við Háskólann í Vermont í Bandaríkjunum og hefur á ferli sínum lagt áherslu á að rannsaka heilbrigði jarðvegs og vistvænan landbúnað.

Vandi landbúnaðarins er kerfið

Magdoff segir að á ferli sínum hafi hann lagt megináherslu á að rannsaka jarðveg og heilbrigði jarðvegs í tengslum við landbúnað og að hann hafi verið yfirmaður plöntu- og jarðvísindadeildar háskólans sem hann starfaði við í átta ár.

Auk þess sem hann starfaði fyrir landbúnaðarráðuneyti og var verkefnastjóri rannsókna í tólf ríkjum í norðausturhluta Bandaríkjanna. Rannsóknirnar beindust aðallega að frjósemi jarðvegs.

Jarðvegseyðing og útskolun næringarefna er fylgifiskur einhæfðrar ræktunar.
Mynd / Fred Magdoff.

„Eftir að ég fór á eftirlaun hef ég skrifað talsvert og haldið fyrirlestra víða um heim sem tengjast rannsóknasviði mínu. Ástæðan fyrir komu minni til Íslands er að bók sem ég skrifaði ásamt John Bellamy Foster og heitir á frummálinu What Every Enviromentalist Needs to Know About Capitalism hefur verið þýdd á íslensku og ég var fenginn til að segja frá henni og hugmyndafræðinni á bak við hana.

Tilgangurinn með bókinni er meðal annars að reyna að dýpka umræðuna og hvað eigi sér stað í landbúnaði í dag og hvað valdi þeim vanda sem við eigum við að etja.

Okkar niðurstaða er sú að vandinn liggi í kerfinu sjálfu og hvernig kerfið virkar. Landbúnaðarkerfið hvetur bændur til að hugsa á ákveðinn hátt og stefna að því að græða sem mest af peningum innan þess ramma sem þeir starfa. Við slíkar aðstæður hafa hvorki bændur né aðrir sem að landbúnaði koma möguleika á að hugsa um umhverfið eða hvers konar mengun, ræktun eða dýraeldi leiðir af sér.

Hugsun af þessu tagi leiðir síðan til alls konar vandamála, hvort sem þau tengjast vistkerfinu eða eru félagsleg. Reyndar lít ég svo á að vandinn tengist ekki bara landbúnaði sem slíkum heldur að hann nái til alls hagkerfisins og í bókinni er fjallað um hagkerfið sem heild en ekki bara landbúnað,“ segir Magdoff.

Maís er ræktaður á stórum svæðum í Mið-austurríkjum Bandaríkjanna og veldur ræktunin mikilli útskolun næringarefna. Sérstaklega niturs og fosfórs. Mynd / Fred Magdoff.

Kapítalismi og landbúnaður fara ekki saman

„Niðurstaða okkar eftir að hafa skrifað bókina er að það sé kapítalismi og kapítalísk hugsun sem er rót umhverfisvandans í dag. Kapítalísk hugmyndakerfi eins og við búum við í dag beinir fólki í þá átt að græða sem mest af peningum án tillits til annarra þátta.“

Í grein Magdoff, A Rational Agriculture is Incompatible with Capitalism, bendir hann á að skynsamlegur landbúnaður og kapítalismi fari ekki saman. Þar segir hann meðal annars að bændur í miðríkjum Bandaríkjanna rækti aðallega maís og soja. Allt þjónustukerfið og menningin á svæðinu er byggt í kringum þá ræktun og 98% stunda hana og aðeins lítill hluti bænda er í annars konar framleiðslu.

„Þegar bændur eru á annað borð orðnir hluti af þessu kerfi leiðir ein ákvörðun til þeirrar næstu og niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er að segja að ef menn ætla að hagnast á ræktuninni verða þeir að stækka við sig til að ná aukinni hagkvæmni á hvern hektara. Slíkt leiðir til aukinnar fjárfestingar í landi og tækjum og síðar í erfðabreyttum fræjum og auknum áburði til að auka uppskeruna enn meira.

Í raun er hver og ein af þessum ákvörðunum skynsamleg út af fyrir sig og í ákveðnu samhengi. Á sama tíma valda þær því að á stórum landsvæðum er einungis verið að rækta tvær tegundir og mengunin frá þeirri ræktun er gríðarleg. Einhæfri ræktun eins og þessari fylgir jarðvegseyðing og útlosun næringarefna í gegnum framræslukerfi í ár og vötn. Að lokum skolast næringarefnin út í Mississippi-fljót og þaðan niður í Mexíkóflóa þar sem er að finna stórt svæði sem kallast „The Dead Zone“ eða Dauða svæðið, vegna súrefnisskorts af völdum útlosunar næringarefna, aðalleg niturs og fosfórs, frá landbúnaði.

Súrefnisskorturinn veldur því að flestar æðri lífverur á svæðinu eru dauðar en bakteríur og þörungar lifa góðu lífi og vistkerfið raskast.“

Gervihnattamynd sem sýnir útskolun næringarefna í Mexíkóflóa.
Mynd / https://serc.carleton.edu

Magdoff segir að fyrir nokkrum árum hafa hann tekið saman magnið af næringarefnum sem skolast í Mississippi-fljótið og áfram í Mexíkóflóa frá Iowa-ríki. Í borginni Des Moines, sem er fjölmennasta borg ríkisins, er stór vatnshreinsistöð þar sem efnainnihald vatnsins er mælt á fimmtán mínútna fresti. Ef nítrat (NO-3) innihald vatnsins sem aðallega kemur úr nituráburði fer yfir ákveðin mark (9 hlutar af milljón) er farið í sérstakar aðgerðir til að hreinsa vatnið enn frekar af heilsufarsaðgerðum.

„Út frá þessum mælingum og vatnsmagni í fljótinu er hægt að áætla hversu mikið magn af nitri er í því fyrir ofan vatnshreinsistöðina. Samkvæmt mínum útreikningum fara um það bil 453 þúsund tonn af nitri um ána við vatnshreinsistöðina á hverju ári og niður í Mexíkóflóa. Það má því ætla að magnið aukist eftir því sem neðar dregur í fljótinu og aðrir mengunarvaldar eins og nautgripaeldi og útlosun úr rotþróm bætist við. Fyrir utan það hversu mengandi nitrið er þá er um að ræða gríðarlega sóun á áburði og fjármunum sem hæglega mætti draga úr ef landbúnaðurinn á vatnasvæði Missisippifljótsins væri fjölbreyttara.“

Ræktun þekjuplantna myndi breyta miklu

Magdoff hlær þegar hann er spurður hvað sé til ráða og hvernig breyta megi þessari þróun. „Auðvitað eru til leiðir en það eru ekki allir til í að láta á þær reyna. Meðal þess sem er verið er að gera er að hvetja bændur til að rækta þekjuplöntur á ökrunum eftir að búið er að uppskera maísinn og sojað. Með því er hægt að draga veruleg úr magni niturs sem skolast úr jarðveginum. Slík ræktun er einföld og passar vel inn í núverandi ræktunarmynstur
maís og soja.

Að mínu mati er ræktun þekjuplantna líklega besta aðferðin til að draga úr niturlosuninni ef ekkert annað breytist. Ef það verða aftur á móti breytingar á ræktunarmynstrinu aukast möguleikarnir til muna, eins og til dæmis með lífrænni ræktun.“

Opin rotþró við fóðrunarstöð.

Aðskilnaður eldisdýra og lands

„Annað sem á sér stað í Bandaríkjunum er aðskilnaður eldisgripa frá landinu. Með auknum verksmiðjubúskap færist sífellt í aukana að kjúklingar, svín og nautgripir hafa ekki aðgang að landi og dýrin alin upp í lokuðum húsum eða við fóðurstöðvar (feedlots). Eldið á sér því stað í takmörkuðu rými og ræktun fóðurjurta er á öðrum stað. Fóðrinu er oft ekið langar leiðir til dýranna og oftar en ekki úrgangurinn frá dýrunum ekki nýttur sem áburður og hann settur í opnar rotþrær og svo skolað út í ár og vötn. Á sama tíma kaupa bændur sem rækta fóðurjurtir tilbúinn áburð þar sem það er ódýrara en að nýta húsdýraáburðinn og það hefur myndast vítahringur sem erfitt er að vinna sig úr.“

Bændur í fjárkröggum þrátt fyrir styrki

Magdoff segir að fjölskyldubú séu á hröðu undanhaldi í Bandaríkjunum og sama þróun eigi sér stað víðar um heim.

„Stór hluti bænda í Bandaríkjunum á við talsverð fjárhagsleg vandræði að stríða þrátt fyrir að yfirvöld veiti þeim ýmiss konar stuðning og fjárhagslega fyrirgreiðslu. Við þessar aðstæður er aðeins tvennt í boði, hætta búskap eða að stækka við sig til að auka hagkvæmni og afleiðingin er að minni býlum fækkar og stóru búin verða ennþá stærri. Stór fyrirtæki sjá einnig hag sinn í að kaupa upp víðáttumikil landsvæði og í dag eru um einn þriðji bænda í Mið-vesturríkjunum leiguliðar eða verktakar í fæðuframleiðslu fyrir matvælafyrirtæki eða annars konar fjárfesta.

Með auknum verksmiðjubúskap færist sífellt í aukana að kjúklingar, svín og nautgripir hafi ekki aðgang að landi og dýrin alin upp í lokuðum húsum eða við fóðurstöðvar. Mynd / Fred Magdoff

Auk þess sem þessi þróun er þess valdandi að býlin eru að verða stærri gerir hún líka ungu fólki sem vill hefja búskap það erfiðara. Þessi þróun veikir sveitirnar sem samfélagslega heild og í Bandaríkjunum eru fjölmörg dæmi um að heilu borgirnar hafi hreinlega dáið vegna þessa þrátt fyrir að þar búi enn fólk. Þar er aftur á móti engin þjónusta og allar stofnanir eru horfnar þar sem ekki er hægt að reiða sig á vinnu sem tengist landbúnaði og þjónustu við hann,“ segir Magdoff.

Baráttan um brauð

„Árið 2008 hækkaði verð á maís, korni, hrísgrjónum og soja mikið í kjölfar þess að framleiðsla á etanóli sem orkugjafa úr korni og soja jókst. Verð á hrísgrjónum margfaldaðist og í framhaldinu brutust út átök víða í Asíu, Norður-Afríku og á eyjum í Karíbahafinu vegna verðhækkananna og uppskerubrests í Ástralíu og í Rússlandi. Það sem gerðist í raun var að spákaupmenn sáu sér hag í því að kaupa upp birgðir af korni og halda að sér höndum með að selja það aftur þar til að verðið fór upp. Útkoman var sú að fólk í fátækari löndum heims hafði ekki efni á að kaupa kornið þrátt fyrir að birgðir væru nógar.

Í framhaldi af þessu fóru bæði rík lönd og ríkir einstaklingar að kaup upp stór landsvæði í Afríku og víða um heim til að tryggja eigið fæðuöryggi og er það stundum kallað landhremming eða jarðasöfnun. Reyndar skilst mér að þetta sé að gerast á Íslandi í einhverjum mæli og að auðmenn kaupi jafnvel jarðir í stórum stíl.“

 

Landbúnaður á Íslandi þarf að standa styrkum fótum

Magdoff segist ekki vita nógu mikið um Ísland og landbúnaðarmál til að geta tjáð sig um hann að einhverju ráði.

„Að mínu viti er þróunin í landbúnaði sú sama víða um heim og ég geri ráð fyrir að Ísland sé þar engin undantekning. Til þess að landbúnaður, matvælaframleiðsla og matvælaöryggi í heiminum sé rekin á skynsamlegum og umhverfisvænum grunni þarf einhvers konar kerfi sem verndar hann frá óheftum
markaðslögmálum kapítalismans. Með þessu á ég ekki við að það þurfi að framleiða allan mat sem þjóðin þarf hér á landi en aftur á móti er nauðsynlegt að matvælaframleiðslugrunnurinn sé góður og til að svo sé þarf landbúnaður í landinu að vera öflugur og standa styrkum fótum,“ segir Fred Magdoff að lokum.
 

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun
Fréttaskýring 26. maí 2023

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun

Hugmyndir um vindmyllur á Íslandi og að nýta vindorku í auknum mæli eru mjög umd...

Vandrataður vegur tollverndar
Fréttaskýring 15. maí 2023

Vandrataður vegur tollverndar

Tollvernd er mikilvægt stjórntæki, liður í opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart...

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“
Fréttaskýring 28. apríl 2023

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“

Opinn upplýsingafundur var haldinn á Hótel Laugarbakka þriðjudaginn 18. apríl ve...

Ákall er um breytingar á riðuvörnum
Fréttaskýring 28. apríl 2023

Ákall er um breytingar á riðuvörnum

Riðuveiki í sauðfé hefur í fyrsta sinn greinst í Miðfjarðarhólfi, sauðfjárveikiv...

Matvæli undir fölsku flaggi
Fréttaskýring 10. mars 2023

Matvæli undir fölsku flaggi

Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda um merkingar...

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda
Fréttaskýring 2. mars 2023

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa falið Landgræ...

Kostur skemmtiferðaskipa
Fréttaskýring 20. febrúar 2023

Kostur skemmtiferðaskipa

Von er á tæplega 300 farþegaskipum til Íslands á þessu ári. Ætla má að farþegar ...

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi
Fréttaskýring 17. febrúar 2023

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi

Í dag eru tveir stórir metanframleiðendur á Íslandi – annars vegar Sorpa í Reykj...