Sparaðu olíuna t.d. með því að nota lágan snúningshraða, réttan dekkjaþrýsting, rétta þyngdardreifingu á dekkin, s.s. með því að nota réttar þyngingar ef þarf o.s.frv.
Sparaðu olíuna t.d. með því að nota lágan snúningshraða, réttan dekkjaþrýsting, rétta þyngdardreifingu á dekkin, s.s. með því að nota réttar þyngingar ef þarf o.s.frv.
Mynd / Elínborg Bessadóttir
Fræðsluhornið 3. maí 2022

Leiðir til að draga úr olíunotkun

Höfundur: Snorri Sigurðsson snorri.sigurdsson@outlook.com

Nú þegar vorverk hjá flestum bændum landsins eru í fullum gangi er ekki úr vegi að beina spjótum sínum að olíunotkuninni, sérstaklega í ljósi þess að verð á olíu er í hæstu hæðum. Þessi staða er ekki einstök fyrir Ísland heldur er hún svona um allan heim og danskir ráðunautar hafa verið afar duglegir að deila til bænda hentugum ráðum til þess að draga úr olíunotkuninni eins og unnt er. Hér fer stutt samantekt á þeim ráðum sem þar er mælt með að bændur hugi að.

Flestir þekkja hið sterka samhengi á milli loftþrýstings í dekkjum og olíunotkunar en Danir benda á að það séu ýmis önnur ráð sem einnig draga úr olíunotkun við hefðbundin vorverk. Þar virðast venjur leika stórt hlutverk og oft virðast þarlendir velja dráttarvélar meira vegna þæginda og vana en vegna raunverulegra þarfa þeirra fyrir viðkomandi vél. Allir bændur ættu t.d. að spyrja sig hver sé raunveruleg þörf búsins fyrir afl dráttarvélanna sem á að nota.

Nota réttan loftþrýsting og snúningshraða

Danskar mælingar sýna að mjög oft er notaður rangur dekkjaþrýstingur á dráttarvélum en tilfellið er að olíunotkunin getur minnkað um allt að 18% með því að lækka loftþrýstinginn og ná þannig betra gripi við vinnslu. Þetta er í raun öfugt við það sem talað er um þegar bifreiðar eru annars vegar en þar eykst orkuþörfin með
minni loftþrýstingi.

Þetta veldur oft misskilningi, en skýringin felst í því að gott grip dekkja, í samræmi við þá vinnslu sem unnið er við, skiptir gríðarlegu máli. Þannig sýna danskar tölur t.d. að við það að lækka þrýstinginn úr 1,6 börum niður í 0,8-1,0 bör má spara um 10% af hráolíunni.

Enn fremur sýna erlendar tölur að ná má þónokkurri afkastaaukningu við það að aðlaga loftþrýsting dekkjanna að því verkefni sem er verið að vinna við. Enn fremur skiptir snúningshraðinn mjög miklu máli og við það að fara úr 1.800 snúningum/mínútu í t.d. 1.600 snúninga/mínútu má minnka olíunotkunina um 8-12%.

Miða við 40-45 kg/hestöfl

Annað atriði sem benda má á er áhrif hjólskriks á olíunotkunina. Þegar vélarnar draga tæki þá skripla dekkin oft aðeins og þetta hefur veruleg áhrif á olíunotkunina. Hér skiptir máli eins og að framan greinir að velja réttan loftþrýsting fyrir það verk sem er verið að vinna við en einnig að vera með rétta þungadreifingu á fram- og afturdekkin.
Með réttri þungadreifingu fæst hámarks nýting á gripi dekkjanna og er ágæt þumalfingursregla að miða við að hafa 40-45 kg vélaþunga á hvert hestafl. Sé vélin hins vegar mjög létt miðað við þann hestaflafjölda sem hún er með þá nýtist aflið ekki nógu vel út í dekkin.

Para saman rétt tæki

Það eru auðvitað ótal leiðir færar til þess að draga úr olíunotkun en ein sú einfaldasta er að fullnýta afl þeirra dráttarvéla sem er verið að nota og/eða þeirra tækja sem notuð eru. Í Danmörku gerist það oft að bændur nota of stórar vélar fyrir létt verk eða öfugt, reyna að nýta of litlar vélar fyrir stærri vinnslutæki en bæði tilfellin kalla beint á aukna olíunotkun. Þá benda danskar mælingar til þess að oft megi draga verulega úr olíunotkun með því að stilla vinnslutækin betur, t.d. við plægingu með því að leggja meiri þunga á afturhjól dráttarvélarinnar og með því minnka líkur á hjólskriki.

Nota rétta vélastærð

Annað atriði sem Danir benda á er sú staðreynd að oft er notuð of aflmikil dráttarvél miðað við það verkefni sem unnið er við. Þannig hafa mælingar á notkun á 300 hestafla vél, sem vel að merkja er vissulega hraustleg stærð, þá er oft ekki í raun verið að nota nema 50-60% getunnar í langflestum tilfellum. Þessi vannýtta umframgeta kostar bæði aukna olíunotkun og setur vissulega einnig spurningarmerki við fjárfestinguna sem slíka.

Þeir benda þó á að skoða þurfi vélaútgerðina í heild og í samræmi við þær þarfir sem viðkomandi bú er með, en tilfellið er að oft hafa danskir bændur fjárfest í of mikilli vinnslugetu miðað við raunkostnað. Raunverulegur tímasparnaður, við t.d. aukna vinnslugetu, borgi sig því ekki endilega upp vegna annars kostnaðar sem fellur til.

Sex leiðir til þess að draga úr olíunotkuninni

Dekkjaþrýstingur:
Gættu þess að samræma loftþrýstinginn í dekkjunum til samræmis við þá þörf sem á við um það verk sem verið er að vinna. Rangur loftþrýstingur getur kostað þig allt upp í 10% meiri olíunotkun!

Snúningshraði:
Dragðu úr snúningshraða vélarinnar. Nýir mótorar eru í dag þannig búnir að þeir skila frá sér því sama við nokkuð ólíkan snúningshraða. Í langflestum tilfellum er hægt að keyra á mun lægri snúningshraða en oft er valinn við ákveðin verk.

Þyngd:
Gakktu úr skugga um að þú hafir rétta þyngd miðað við afl dráttarvélarinnar. Dekkjaframleiðandinn Michelin mælir t.d. með því að til að fá bestu nýtinguna á gripi dekkjanna þá eigi að miða við 40-45 kg á hvert hestafl. Sé þetta þyngdardreifingin færist afl vélarinnar með mestri virkni niður í undirlagið sem ekið er á.

Stærð:
Íhugaðu stærð dráttarvélarinnar. Ef þörfin fyrir margra hestafla dráttarvél í aðeins örfáar klukkustundir af heildarþörf búsins, getur verið kostur að velja minni dráttarvél og aðlaga tækjakostinn að þeirri stöðu. Þetta myndi auka tímanotkunina dálítið en snarminnka olíuþörfina.

Eiginleikar:
Mundu eftir algengum aðgerðum eins og fjórhjóladrifi, mismunadrifslæsingu og þyngdarflutningi með lyftubúnaðinum. Þessi atriði hafa öll bein áhrif á olíunotkunina. Enn fremur er um að gera að hafa alltaf hugfast að keyra alltaf mögulegu stystu leiðir.

Stillingar:
Sjáðu til þess að stilla vinnslutækin kórrétt s.s. vinnsludýpt. Enn fremur er afar mikilvægt að stilla vökvakerfi dráttarvélarinnar þannig að það samræmist þörfum þess tækis sem unnið er með.

Tófú er bæði klístrað og hart
Fræðsluhornið 17. maí 2022

Tófú er bæði klístrað og hart

Tófú er unnið úr hleyptum safa í sojabaunum eða sojamjólk eins og sumir vilja ka...

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands
Fræðsluhornið 16. maí 2022

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands

Eins og allir hafa orðið varir við þá hefur áburðarverð hækkað verulega á síðast...

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016

Sú hefð hefur skapast að sýna niðurstöður afkvæmarannsókna á nautum með því að d...

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið

Opnað verður á skráningar á kynbótasýningar nú í byrjun maí og verður það kynnt ...

Nýr sparneytinn Honda HR-V
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Nýr sparneytinn Honda HR-V

Fyrir nokkru síðan frumsýndi Askja nýjan Honda HR-V Hybrid-bíl, sjálfskiptan, fr...

Jarðrækt – Sprotinn
Fræðsluhornið 6. maí 2022

Jarðrækt – Sprotinn

Lífið fer hring eftir hring og þannig er aftur komið vor með tilheyrandi viðfang...

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í mars að loknu uppgjöri skýrslna fyrir febrúar. ...

Mikið af næringarefnum enn ónýtt
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Mikið af næringarefnum enn ónýtt

Heildarmagn þeirra næringarefna sem er að finna í lífrænum úrgangi sem fellur ti...