Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Feðgarnir frá Látrum í fjósinu á Mið-Görðum. Talið frá vinstri, Jón og Sigmundur Sigmundssynir og Sigmundur Hagalín Sigmundsson.
Feðgarnir frá Látrum í fjósinu á Mið-Görðum. Talið frá vinstri, Jón og Sigmundur Sigmundssynir og Sigmundur Hagalín Sigmundsson.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 9. nóvember 2015

Fluttu með allt sitt hafurtask suður á Snæfellsnes

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það hlýtur að teljast til tíðinda að bændur taki sig upp á fullorðinsárum og flytji með allan bústofn sinn í annan landshluta. Þannig var það samt með fjölskylduna á Látrum við Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi sem flutti kýrnar sínar á nýjar slóðir laugardaginn 10. október.  
 
Þar með lauk 41 árs búsetu hjónanna Sigmundar Hagalín Sigmundssonar, eða Simba eins og vinirnir kalla hann, og Jóhönnu Karlsdóttur á Látrum, en hún er Reykvíkingur að uppruna. Um leið hverfur síðasta kúabúið úr rekstri í Inn-Djúpinu. 
 
Nýja heimilið þeirra er að Mið-Görðum skammt ofan við Eldborg í Kolbeinsstaðahreppi. Þetta svæði er á Snæfellsnesi en tilheyrir Borgarbyggð, en sýslumörkin við Mýrasýslu markast af Hítará þar skammt fyrir sunnan. Útsýnið frá bænum er ekki amalegt, með Tröllakirkjuna gnæfandi yfir sveitinni fyrir ofan bæjarhúsin. Nokkru norðan við bæina er Hnappadalur með öllum sínum hraunmyndunum, Hlíðarvatni, Oddastaðavatni og mikilli náttúrufegurð. Suðvestan við bæina blasir svo Eldborgin við augum. 
 
Ætlaði að hætta eftir 41 árs búskap
 
„Já, það eru 41 ár síðan ég hóf eiginlegan búskap með foreldrum mínum á Látrum, þá 16 ára gamall, eða árið 1974. Þá varð ég innleggjandi á nokkrum rolluskjátum og varð svo eingöngu með féð sjálfur um 1977–78. Svo keypti ég kýrnar og allan bústofninn af pabba og leigði af honum jörðina í mars árið 1997. Jörðin var áfram í eigu fjölskyldunnar og nú eigum við hana sjö systkinin.“
 
Búskapur Sigmundar og Jóhönnu Karlsdóttur hefur ekki staðið mikið skemur. „Þann 1. nóvember næstkomandi eru 40 ár síðan við kynnt­umst,“ segir Sigmundur.   
 
„Annars var heilsufar mitt orðið þannig að ég var búinn að ákveða að hætta búskap nú í haust. Þá vildu krakkarnir endilega koma inn í þetta og hvað er þá skemmtilegra en að vera með börnunum sínum í þessu?“
 
Samhent fjölskylda 
 
Með þeim á nýja staðnum mun einnig búa dóttir þeirra, Jóhanna María, sem er búfræðingur og alþingismaður og yngri sonurinn, Sigmundur. Að Syðstu-Görðum, sem er næsti bær við hliðina, hefur búfræðingurinn Jón, eldri sonur þeirra, flutt ásamt fjölskyldu. Hann er nú starfsmaður Vegagerðarinnar í Borgarnesi auk þess að taka þátt í bústörfunum.
 
Þeim til aðstoðar við flutningana var Djúpmaðurinn Hákon Ingimundarson, sem er eiginlega einn af heimilisfólkinu enda hafa þeir Jón verið félagar frá unga aldri. „Þetta er einn af þrælum okkar,“ sagði Sigmundur og glotti. „Hann hefur verið svona heimalningur hjá okkur, en afi hans og amma bjuggu í Reykjafirði.“ 
 
Taka við samtals 92 hekturum
 
Báðar þessar jarðir, Mið- og Syðstu- Garða, hefur fjölskyldan samið um að taka á leigu af Arion banka. Þar er ræktarland samtals 92 hektarar og talsverðir möguleikar til aukinnar ræktunar allt til fjalls. Þá eru líka möguleikar til kornræktar og er korn m.a. ræktað á Ystu-Görðum vestan við Mið-Garða á melunum við Hraunsmúla. Sigmundur sér einnig fyrir sér að taka spildu til að rækta kál til að beita kúnum á fram á haust.  
 
Ákveðið að stökkva með stuttum fyrirvara
 
„Þetta var upphaflega auglýst til sölu og ég skoðaði þetta talsvert haustið 2009 ásamt vinnumanni sem hjá mér var og hafði mikinn áhuga á búskap. Verðhugmyndirnar voru þá stjarnfræðilegar miðað við ástand eignarinnar. Bankinn eignaðist þetta síðan og auglýsti þetta aftur til sölu, en áfram á of háu verði. Við gerðum samt tilboð í fyrravetur á þeim forsendum sem ég taldi jörðina geta borið, en því var hafnað. Síðan hringdu þeir í mig en ég var ekki til viðræðu um það sem upp var sett.
 
Bæði býlin voru svo auglýst til leigu í Bændablaðinu, enda ljóst að eignirnar myndu eyðileggjast án notkunar. Við vorum svo kölluð suður í viðtal, ég og Hanna, dóttir mín, upp úr 20. júlí í sumar. Fjórir umsóknaraðilar voru þá valdir úr stærra hópi og þóttum við álitlegust af því að við áttum bústofn og vélar. Við fórum svo að kasta tölum á milli okkar þangað til það gekk saman. Síðan var gengið frá leigusamningi síðasta dag fyrir verslunarmannahelgi,“ segir Sigmundur.
 
Í samningnum er gert ráð fyrir að stórfjölskyldan geti keypt báðar jarðirnar hvenær sem er samkvæmt fyrirfram ákveðnu kaupverði. Er síðan ætlunin að fjölskyldan stofni hlutafélag um reksturinn fyrir áramótin. 
 
Kristín, eldri dóttir þeirra Sigmundar og Jóhönnu, býr á Hólmavík, en hún var að sjálfsögðu mætt til að aðstoða foreldra sína við flutninga eins og fleiri sem fjölskyldunni tengjast. 
 
Það er sannarlega mikil breyting að flytja búskapinn á stað þar sem landrými er mikið og landið marflatt ólíkt landháttum við Djúp. Enda er ætlunin að fjölga mjólkurkúm og efla eldi á nautkálfum.
 
Voru með 32 kýr en stefna á að verða með 48
 
Jóhanna María segir að á Látrum hafi fjósið borið 32 mjólkurkýr og geldneyti hafi verið í samræmi við það. Þau voru bæði höfð á Látrum og á Eyri, næstu jörð sem þau höfðu til umráða. 
 
„Fyrir flutninga var slátrað nokkrum gömlum gripum vegna þess að við ætluðum að hætta áður en við duttum niður á þetta. Einnig  vorum við búin að selja nokkra gripi til viðbótar. Þegar við fluttum voru  27 kýr sem voru fluttar frá Látrum. Þá keyptum við fjórar kvígur hér í sveitinni og þá er einn bás enn auður.  Þegar allt er komið í nýtingu eins og fjósið er núna verða kýrnar 48. Svo skoðum við frekari breytingar og stækkun ef kaup á jörðunum ganga eftir,“ segir Jóhanna María.
 
Allt aðrar aðstæður
 
Jón segir þetta allt annað varðandi vinnu á túnunum. Á Látrum og þeim túnum sem þau höfðu til umráða var því víða þannig háttað að oft var þröngt um til að snúa dráttarvél með sláttuþyrluna hvað þá með vögnum eða öðrum tækjum. Auk þess sem túnin voru mishæðótt og oft í töluverðum halla. Á nýja staðnum eru túnin rennislétt og fyrir neðan þjóðveginn og niður undir Eldborg eru t.d. þrjár spildur frá einum til eins og hálfs kílómetra að lengd. 
 
Mikil vinna að flytja búskapinn
 
Það hefur verið mikil vinna hjá heimilisfólkinu að undanförnu að flytja búslóð og skepnur, en mjólkað var í síðasta sinn á Látrum snemma morguns þann 10. október. Strax eftir að mjöltum lauk var farið í að að koma gripum á flutningabíl og nokkrar kýr voru einnig settar í lokaðar kerrur. 
 
Tíðindamaður Bændablaðsins heimsótti fjölskylduna daginn eftir flutningana  og voru þau þá enn í önnum við að koma sér fyrir. Dóttirin og þingmaðurinn Jóhanna María, þurfti þó að bregða sér frá á kjördæmaþing framsóknarmanna, en var búin að panta að fá að mjólka síðdegismjaltirnar á laugardeginum. Þurfti reyndar að ýta henni af stað á fundinn að sögn Jóns bróður hennar, því hún var hrædd um að missa af mjöltunum. 
 
Í heimsókn blaðamanns og förunautar á bæinn deginum áður var þingmaðurinn á fullu í vinnugallanum í fjósinu að vinna við að koma fyrir undirlagsmottum undir kýrnar í mjaltabásnum. Sagði faðir hennar að þetta væri ekkert nýtt, hún væri alltaf sívinnandi og hafi verið svo allt frá því hún fór að standa í fæturna. 
 
Alltaf að puða
 
„Frá því hún var smástelpa var hún alltaf að böðlast með manni í öllum verkum. Með koppafeitisprautuna í annarri hendi og skiptilykilinn í hinni. Svo hefur hún unnið á vélunum til jafns við karlmennina alveg frá 12 ára aldri. Ef það voru órólegar kýr í fjósinu, þá voru þær ekki órólegar lengur þegar hún mætti á svæðið. Hanna hefur sannarlega einstakt lag á skepnum og áhuginn fyrir búskapnum er mjög mikill. Þá er hún líka sérdeilis lagin við að laða að sér fólk og alltaf með fullt af vinum í kringum sig,“ sagði Sigmundur. 
 
Mátti sjá það á Sigmundi að eitthvað hafi gengið á síðustu vikurnar og skrokkurinn farinn að láta hann vita vel af því að álagið væri orðið aðeins of mikið. Verkjatöfluglasið var því ekki langt undan. Að slaka eitthvað á var þó greinilega hugsun sem var honum víðs fjarri. Hann sagði að þetta lagaðist fljótt þegar hann þyrfti ekki lengur að bogra við mjaltirnar. Honum var þó augljóslega fyrir mestu að kýrnar hefðu það sem best.
 
Byggt á hugmyndafræði fjölskyldubúsins
 
Allar eru kýrnar  nefndar með nafni og segja þeir feðgar að mikið sé lagt upp úr hugmyndafræði fjölskyldubúsins. Þau ætli ekki að vera með stærra bú en svo að yfirsýnin verði góð og að fjölskyldan ráði vel við dæmið án mikillar utanaðkomandi aðstoðar. Einnig að ábúendur þekki vel skepnurnar sínar og allar þeirra þarfir. 
 
Hönnuðu nýja legubása en mörg handtökin eftir
 
Sigmundur sagði að vissulega væru kýrnar órólegar fyrst eftir svona flutninga. Því mætti búast við að nytin dytti eitthvað niður fyrst í stað. Það hafi því verið mikilvægt að ná þeim í ró. Þá skipti miklu máli að ekki væru aðrir í kringum kýrnar en þeir sem höfðu annast þær á Látrum. 
 
Hann sagði að þótt þau væru flutt, væri samt mikið verk eftir til að koma öllu í það stand sem hann vildi hafa það. Lagfæra hafi þurft húsin talsvert og enn ætti eftir að lagfæra klæðningar í loftum í fjósinu, en milli bita er allt einangrað með steinull.
 
Gömlu stálbásana hreinsuðu þau út úr fjósinu enda farnir að láta mjög á sjá. Leitað hafi verið að nýju innfluttu kerfi, en afgreiðslutími hafi verið of langur auk þess sem þeim þótti kostnaður ekki innan þeirrar kostnaðaráætlunar sem þau höfðu reiknað út að ætti að duga. Hannaði Sigmundur því sjálfur nýja bása eftir að hafa skoðað víða hvað best hentaði. Hann sagðist þó ekki sérlega laginn við tölvur svo yngri sonurinn Sigmundur fékk það hlutverk að gera teikningar af öllu nýja stálverkinu. Nýju básarnir eru úr beygðum stálrörum sem soðin eru saman og veita þeir kúnum talsvert meira rými en gömlu básarnir á Látrum. Þá eru þeir hannaðir þannig að kýrnar eiga ekki að geta meitt sig á þeim og með þeim skapast líka aukið vinnuhagræði. Kýrnar eru t.d. ekki bundnar á básunum og er aðeins bandspotti fyrir aftan þær sem hindra að þær fari ekki á flakk. Það eitt að hafa þær ekki bundnar spara töluverða vinnu við hverjar mjaltir að sögn Sigmundar, auk þæginda fyrir kýrnar sjálfar. 
 
Sigmundur segir að haft hafi verð samband við Límtré Vírnet í Borgarnesi um að útvega stálið og beygja það. Viðskiptin við það fyrirtæki hafi verið alveg einstaklega góð og allt innan kostnaðarmarka. Hrósaði hann starfsmönnum þar í hástert. Efnið niðursneitt og tilbúið var svo flutt í fjósið á Mið-Görðum þar sem Sigmundur og synir og dóttirin Jóhanna sáu um að sjóða allt saman og festa niður og nutu þar einnig aðstoðar Jakobs Jónssonar sem er mágur Sigmundar. 
„Svo var allt málað í grænum lit, - annað kom ekki til greina,“ sagði Sigmundur. 
 
Með kálfa á annarri hæð
 
Einn einkennilegan hlut bentu þeir blaðamanni á í fjósinu á Mið – Görðum. Í hliðarbyggingunni er að finna kálfastíur uppi á annarri hæð sem hlýtur að útheimta talsverða aukavinnu við umhirðu. Þessu hyggjast þau breyta og eru reyndar þegar byrjaðir á að koma upp stíum á jarðhæðinni. – „Það er þó einn stór plús við þetta,“ segir Jón og hlær við. „Það er svakalega fallegt útsýni af hæðinni í átt að Eldborg.“ 
Til viðbótar endurbótum á fjósinu á Mið - Görðum er ætlunin að taka í gegn kálfafjós á Syðstu – Görðum. Þar á að sögn Sigmundar verða aðstaða og pláss fyrir eldi á 50 nautum á öðru ári.
 
„Við munum því fara út í kjötframleiðslu og alla alla kálfa sem við getum. Þarna hafa verið vistaðir hesta á skaflajárnum og þeir hafa valdið skemmdum sem þarf að laga.“ 
 
Rúlluverkunin hentar feðgunum vel
 
Búið á Látrum var vel búið dráttavélum og öðrum tækjum svo ekki þarf að leggja í mikinn aukakostnað vegna þess á nýja staðnum. Sigmundur segir að þau hafi verið með þeim fyrstu sem fór út í heyrúlluverkun á Látrum á sínum tíma, en það hafi ekki komið til af góðu. 
 
„Ég er með svo mikið heyofnæmi að ég þoli ekki þurrhey.“  Jón sonur hans bætir við: „Ég er með svo mikið frjóofnæmi að þegar ég var í votheysgryfjunni á Látrum gat ég aðeins jafnað í gryfjuna í einn dag og þá passaði að ég lá rúmfastur daginn eftir með 40 stiga hita.“ Á meðan seig í gryfjunni og það dugði til að ég kæmist á fætur aftur til að vinna við að setja meira í hana,“ Sagði Jón.
 
Fyrst skrefið í pökkunarvæðingunni var að setja heybagga í plastpoka en síðan kom Claas rúllupökkunarvélin í kringum 1987. Hún gekk áfallalaust í 20 ár þegar keypt var ný Claas pökkunarsamstæða. Þá var Sigmundur með Claas dráttarvél sem unnið var á í verktöku fyrir Vegagerðina við snjómokstur. Hann er því greinilega hrifinn af þessari tegund vinnuvéla, enda eru þær grænar að lit.
Á nýja staðnum sleppa þeir alveg við snjómokstur í líkingu við það sem tíðkaðist í Djúpinu. Í fjölda ára sáu feðgarnir um að halda opinni Hestkleifinni á milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, eða þar til sú leið var lögð af. Veggerðin vildi reyndar frekar kalla þennan fjallveg Eyrarfjall. Segist Sigmundur oft hafa verið að vinna þarna á fjallinu í 18 tíma í einu en oftast hafi hann þó verið  með mann fyrir sig á vélinni. Með þeirri verktakavinnu tókst honum að greiða upp dráttarvélina á þrem árum. Á sama tíma var Jón þar við mokstur á veghefli Vegagerðarinnar á Ísafirði. Jón hafði neyðst til að flytja frá Látrum á Ísafjörð með fjölskyldu sína fyrir 12 árum vegna skólagöngu barnanna. Hann segist alla tíð síðan hafa þráð það heitast að komast aftur í sveitina.  
-Var þá ekki söknuður að yfirgefa allt þetta vafstur í Djúpinu?
„Það er vissulega ákveðinn tregi, en hér hefur maður margt sem maður hafði ekki þar og öfugt. Það getur verið mikil veðursæld í Djúpinu, en hér skilst mér að sé annað hvort logn eða rok,“  segir Sigmundur.  
 
Kýrnar mótmæltu klæðaburði Sigmundar yngri
 
Ekki var annað að sjá um miðjan daga á sunnadeginum, en flutningar á gripunum hafi gengið eins og í sögu. Kýrnar voru orðnar mjög rólegar á nýju básunum sínum á meðan Sigmundur og Jón voru að bjástra í fjósinu. Kúnum var þó greinilega ekki sama þegar Sigmundur yngri kom í fjósið og ekki í fjósagallanum, heldur skærlituðum vinnugalla. Mótmæltu þær hástöfum þessu háttarlagi piltsins og bauluðu bæði hátt og mikið svo undir tók í húsunum. Eftir að hafa mænt á hann nokkra stund, þar sem hann stóð við hlið bróður síns og föður, virtust þær þó tilbúnar að samþykkja múnderinguna á stráknum, en með semingi þó. 
 
Fjósið var eðlilega tandurhreint og svo var einnig í kálafstíu þar sem 7 kálfar lágu í mestu makindum á heyi á gólfi í rúmgóðri stíu. Sigmundur eldri sagði að hún væri ætluð 10 kálfum samkvæmt reglugerð.
Jón sagði að það væri svolítill munur að sjá gripina þeirra miðað við orð konu frá Tékklandi sem til þeirra kom og sagði dásamlegt að sjá svona hreina og fallega gripi. Því ætti hún alls ekki að venjast af stóru búunum erlendis.  Sigmundur telur undir þetta og nefnir að í Heydal við Djúp í næsta nágrenni við Látra væru oft margir útlendingar við störf á sumrin sem segðu sömu sögu. Þetta fólk hafi oft verið heimagangar á Látrum. Þar væri um að ræða fólk frá fjölmörgum löndum, Spáni, Frakklandi, Þýskalandi og víðar. Sjálfur hefur Sigmundur oft farið fyrir ferðaþjónustubændur þar sem leiðsögumaður í hestaferðir á fjöll með ferðamenn, enda þaulkunnugur hverri þúfu á svæðinu.  
 
Ekki allt gull sem glóir
 
„Auðvitað spjallar maður við þetta fólk og þar fær maður samanburðinn. Það er greinilega ekki allt gull sem glóir í útlöndum. Svo eigum við að keppa við framleiðsluna frá þessum löndum. Sama má segja um svínakjötsinnflutninginn. Svo hef ég oft verið að benda fólki á hvort það viti hvaðan fallegu dönsku kjúklingabringurnar komin raunverulega. Þeim er vissulega pakkað í Danmörku og merktar sem slíkar en oftar en ekki framleiddar í Lettlandi og Litháen.“
 
Gæfir gripir mikils virði
 
Jón segir að fjölskyldan hafi alla tíð lagt mikið upp úr því að hæna nautgripina að sér strax sem kálfa. Við það yrðu þeir gæfari og betra að eiga við þá þegar þeir stækkuðu. Sem dæmi um þetta segir Sigmundur að þeir hafi átt sjö fengnar kvígur úti á túni á Eyri í Mjóafirði nú í haust.
„Þegar leið að brottfarardegi vorum við að gefa nautum sem voru þar inni í girðingu og skildum eftir opið og kvígurnar eltu okkur inn í girðinguna. Því voru hæg heimatökin að loka á eftir kúnum svo við þurftum ekkert að eltast við þær. Það er svo þægilegt að vera með gripina svona gæfa og kostar miklu minna umstang.“
 
 Þetta leggst þá bara vel í ykkur að flytja um set?
„Já, allavega enn sem komið er. Við vorum auðvitað ekki í góðri aðstöðu á Látrum. Þannig vorum við með kálfana í fjárhúsum í 8 kílómetra fjarlægð frá bænum, vegna þess að við höfðum ekki pláss heima. Þegar nýja reglugerðin tók gildi þá var ungkálfaplássið í okkar 40 ára gamla fjósi orðið of lítið. Þá hafa íslensku kýrnar smám saman verið að stækka, þannig að básarnir sem ég smíðaði á sínum tíma voru orðnir of stuttir og kýrnar hættar að passa undir slár.“ 
 
Fengu ekki að byggja mjaltabás á Látrum 1975
 
„Fjósið heima var byggt 1975 en er orðið úrelt. Húsið hér í Mið-Görðum er tíu árum yngra og með talsvert öðrum hætti. Hér fengu þeir t.d. að byggja mjaltabás sem við fengum ekki að gera á Látrum. Við vildum byggja mjaltabás þegar við reistum fjósið, en þá var okkur sagt á teiknistofu landbúnaðarins að ef við ætluðum að reisa fjós, þá yrðum við að byggja básafjós. Annars fengjum við hvorki lán né styrk. Þetta voru þær skorður sem okkur voru settar af yfirstjórn landbúnaðarmála í þá daga, þó ekki sé lengra síðan,“ segir Sigmundur. 
 
Hönnun haughúskjallarans virkaði ekki
 
Jón segir að það sé ekki öll sagan, því skilyrt hafi verið að haughúskjallarinn væri stallaður með bríkum fremst. Þetta hafi átt að vera einskonar fleytikjallari en teikningarnar komu frá Byggingarstofnun landbúnaðarins. 
 
„Þetta fyrirkomulag hefur aldrei virkað og það hefur verið þrefalt meiri vinna að tæma skítinn úr haughúsinu en þyrfti að vera. Við höfum meira að segja þurft að fara þarna niður og smúla fram af pöllunum þegar við erum að tæma,“ segir Jón.  
 
Oft bölvað hönnuðunum í gegnum tíðina
 
„Já, þetta hefur alltaf verið rosaleg vinna og maður hefur oft bölvað þeim í gegnum tíðina,“ segir Sigmundur. 
 
„Af þessu óþarfa puði við mjaltir og annað alla daga er maður auðvitað orðinn ansi slæmur í skrokknum. Hér í Mið-Görðum er maður kominn í miklu betri vinnuaðstæður, allavega upp á skrokkinn að gera.“ 
 
Engar rollur á nýja staðnum
 
Á Látrum hefur lengst af verið sauðfjárbúskapur við hliðina á kúabúskapnum. Þeir feðgar sögðust hafa hætt því síðastliðið haustog ætluðu ekki að taka upp á þeirri vitleysu aftur. Sigmundur sagðist einu sinni hafa ætlað að draga verulega úr fjárbúskapnum á Látrum og hafi fækkað niður í 30 kindur sem hann ætlaði aðallega að halda sér til gamans og fyrir heimilið. 
 
„Svo fjölguðu þær sér óvart aftur og voru komnar í 120. Í fyrrahaust vorum við að spá í að hafa svona tíu sérvaldar kindur sem maður vissi nákvæmlega hvar héldu sig á sumrin og þyrfti því ekkert að hafa fyrir að sækja á haustin. Þetta var fé sem var bara í skóginum og þegar maður var búin að heyja síðsumars skildi maður bara eftir opið hliðið á túninu og þær komu þá sjálfviljugar. Ég vildi halda nokkrum svona kindum, en var þá tjáði að þennan pakka væri búið að prófa á mér. Þá hafi mér ekki tekist að halda fjöldanum í skefjum,“ segir Sigmundur.
 
Jón tekur undir það og segir að það hafi verið erfitt að setja kindurnar á sláturhúsbílinn. Það væri alltaf gaman að sauðkindinni.
 
Sigmundur segir að það hafi verið meiningin að slátra öllum kindunum á Látrum, en það hafi endað með því að það hafi aðeins farið fjórar í sláturhúsið. Hinar voru allar keyptar á fæti af öðrum bændum.
Féð er það sem það étur
 
Segir Sigmundur að féð hjá þeim á Látrum hafi alltaf verið mjög vænt. Aðrir bændur hafi því sóst eftir að ná upp þessum eiginleika fjárins í Inn - Djúpinu. Sem dæmi þá hafi mjög margir keypt líffé af Indriða Aðalsteinssyni í Skjaldfannardal og flutt í aðra landshluta. Sigmundur segist þó ekki sannfærður um að það skili sér endilega í betra fé í þeim landshlutum, því vænleiki fjárins ráðist miklu frekar af landsgæðunum og kjarngóðri beitinni þar sem féð er hverju sinni. Eins og við Djúp. Eðlilega skili kjarngóð beit sér í meiri vænleika fjárins.
Indælir nágrannar
 
Eins og á sönnum bóndabæ var ekki annað við komandi en aðkomufólki væri boðið í kaffisopa áður en kvatt væri. Þar var húsfreyjan Jóhanna Karlsdóttir í önnum við að koma skikk á íbúðina ásamt Kristínu  dóttur sinni. Hún segir að indælt hafi verið að koma í þessa sveit þar sem allir tækju þeim afskaplega vel og væru boðin og búin til að hjálpa þeim.

6 myndir:

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...