Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fáir kaupendur en uppboðshaldarar bjartsýnir og líkur á hækkandi verði
Fréttir 1. febrúar 2019

Fáir kaupendur en uppboðshaldarar bjartsýnir og líkur á hækkandi verði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fyrsta skinnauppboð Kopenhagen Fur á þessu ári lauk um síðustu helgi. Sala á skinnum á uppboðinu var lítil, að sögn formanns Sambands íslenskra loðdýrabænda. Kaupendur á uppboðinu voru fáir og verð undir kostnaðarverði. Þrátt fyrir það eru uppboðshaldarar bjartsýnir og segja líklegt að verð hækki á árinu.

Einar E. Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda og bóndi að Syðra-Skörðugili, segir að kaupendur á uppboðinu hafi verið innan við 200 og að verðið sem þeir buðu lágt og undir framleiðsluverði skinnanna.

„Söluprósentan á uppboðinu var mjög lítil, eða um 30% þegar á heildina er litið, og mest af því sem seldist voru lakari skinn. Það var hins vegar fremur lítið af íslenskum skinnum á uppboðinu núna enda alltaf snúið fyrir okkur að ná skinnum inn fyrir skilafrest á fyrsta uppboði ársins ásamt því að engin sérstök bjartsýni var í gangi  fyrir uppboðið og því voru bændur heldur ekki að strekkja við að ná skinnum inn á þetta uppboð.“

Birgðir að klárast

Einar segir að það hafi komið sér á óvart á fundum með uppboðshöldurum hvað þeir eru bjartsýnir á að verðið muni hækka á þessu ári og verði orðið ásættanlegt í lok árs. „Að þeirra sögn er notkun á skinnum vaxandi víða um heim og nefndu þeir Asíulönd, eins og Kína, Japan og Kóreu, en einnig að það væri vaxandi notkun í Evrópu og vestan hafs sem verður að teljast jákvætt.

Birgðir af skinnum og unnum skinnavörum, sem söfnuðust upp á árunum 2011 til 2014 þegar heimsframleiðslan fór úr 50 milljónum skinna í rúmlega 80 milljónir, eru að þurrkast upp. Samhliða er að draga mikið úr framleiðslunni en árið 2020 er ekki gert ráð fyrir nema 25 til 30 milljónum skinna í uppboðshúsin en það voru tæplega 50 milljónir sem fóru þar í gegn þegar mest var. 

Framleiðslan í öllum löndum hefur dregist hratt saman. Í Danmörku er talað um allt að 30 til 35% fækkun á ásettum læðum og fækkunin annars staðar er svipuð eða meiri. Talið er að framleiðslan í Kína sé komin vel niður fyrir 10 milljónir skinna, sem er yfir 60% samdráttur frá því framleiðslan þar var mest.“ 

Kína stærsti markaðurinn

Að sögn Einars er Kína, sem er stærsti markaðurinn, að taka við sér. „Notkun á skinnum er mikil og svo er gríðarlega mikil framleiðsla á vörum sem búin eru til úr skinni unnin þar og seld sem unnin vara um allan heim. Okkur var einnig sagt að eitt af því sem nú hefði áhrif á söluna væri að framleiðendur á skinnavörum hefðu seinkað gangsetningu framleiðslunnar lengra inn á árið 2019 og ætla þeir ekki að byrja að sauma fyrr en um mitt árið sem svo þýðir að þeir þurfa ekki skinn fyrr en sá tími nálgast og það hefur áhrif á kaupáhugann núna. 

Áramótin í Kína eru núna í byrjun febrúar og sala á skinnavörum í tilefni þeirra alltaf mikil eins og á ýmsum öðrum dýrum hlutum og því mun salan þar einnig hafa áhrif á hversu hratt markaðurinn réttir úr sér.“

Staðan á Íslandi

Einar segir að þrátt fyrir að ástandið sé ekki gott vilji hann vera bjartsýnn á framtíðina. „Það hættu því miður nokkrir minkabændur hér á landi framleiðslu á síðasta ári og framleiðsla á skinnum hefur dregist saman. Á síðasta ári voru paraðar 29 þúsund læður á landinu en í dag eru 17.500 læður í eldi. Þetta er umtalsverð fækkun sem er slæmt fyrir fámennið hér en við verðum að trúa því að það muni snúast við þegar viðspyrna fæst við botninn og ég vona svo sannarlega að það sé að gerast núna,“ segir Einar.
Að sögn Einars hefur verið opnað á möguleika á láni til loðdýrabænda frá Byggðastofnun til að koma þeim yfir erfiðasta hjallann á meðan beðið er eftir að markaðurinn jafni sig og að verð hækki. „Og vonandi kemur það einnig til með að hjálpa einhverjum en reksturinn er rosalega þungur.“

Skilaverð langt undir kostnaðarverði

„Verð á skinnum á markaði undanfarið hefur verið langt undir kostnaðarverði og skilaverð til bænda á Íslandi um 60% af því sem kostar að framleiða skinnið. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að reka bú lengi á slíku tapi og flestir gera það á þrjóskunni og með því að greiða með rekstrinum.“ Einar segir að hér á landi sé ekki neinn teljandi lager af skinnum og örfáir bændur hafi látið geyma fyrir sig skinn í frysti milli uppboða í Danmörku.

Minna framboð á næsta ári

„Það sem er jákvætt í mínum huga eftir uppboðið er að forsvarsmenn uppboðshússins vilja virkilega meina að notkun á skinnum sé vaxandi og jafnframt hafa þeir mikla trú á að markaðurinn muni jafna sig á árinu og sannfærðir um að skinnaverð muni hækka í ár og síðan enn þá meira á því næsta,“ sagði Einar að lokum.

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...