Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ræktendur Bamba, Geir Árdal og Margrét Bjarnadóttir frá Dæli í Fnjóskadal, taka við viðurkenningu LK úr hendi Sigurðar Loftssonar formanns og Guðnýjar Helgu Björnsdóttur, stjórnarmanns LK.
Ræktendur Bamba, Geir Árdal og Margrét Bjarnadóttir frá Dæli í Fnjóskadal, taka við viðurkenningu LK úr hendi Sigurðar Loftssonar formanns og Guðnýjar Helgu Björnsdóttur, stjórnarmanns LK.
Mynd / smh
Á faglegum nótum 4. maí 2016

Fagþing nautgriparæktarinnar 2016

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Í tengslum við aðalfund Landssambands kúabænda 2016 var haldið veglegt Fagþing nautgriparæktarinnar. Fagþingið hófst með því að veitt var viðurkenning fyrir besta naut Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands fætt 2008 en þá viðurkenningu hlaut nautið Bambi (08049) eins og greint var frá í síðasta Bændablaði. Í kjölfarið voru svo flutt sex einkar fróðleg erindi sem hér verður stuttlega gerð grein fyrir. Hægt er að sjá og hlusta á öll erindin á vef Landssambands kúabænda: www.naut.is.
 
Nautgriparækt í Hollandi
 
Fyrsta erindið var flutt af Kees de Koning, forstöðumanni Dairy Campus, Leeuwarden í Hollandi, en Dairy Campus er rannsókna- og þróunarmiðstöð nautgriparæktar og hluti af hinum þekkta landbúnaðarháskóla Wageningen en í honum eru rúmlega 10 þúsund nemendur, þar af 4 þúsund í meistaranámi og 2 þúsund í doktorsnámi. Hann fjallaði í erindi sínu um stöðu nautgriparæktar í Hollandi en í landinu, sem er ekki nema um 42 þúsund ferkílómetrar að stærð, eru 4 milljónir mjólkurkúa og er meðalbúið með um 85 árskýr. Auk umsvifamikillar mjólkurframleiðslu er Holland einnig framarlega bæði í alifugla- og svínarækt en helstu vandamál landbúnaðarins í Hollandi er mikil þéttni framleiðslunnar sem hefur skapað ákveðin umhverfisvandamál. Hefur því verið lögð þung áhersla á umhverfisrannsóknir til þess að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum landbúnaðarframleiðslunnar. Þá ræddi hann um framtíðarsýnina fyrir hollenska mjólkurframleiðslu en hann spáði því að meðalbúið muni halda áfram að stækka og nefndi 100–150 árskýr að jafnaði í því sambandi. Þá muni meðalafurðirnar fara yfir 10 þúsund kíló mjólkur auk þess sem mikil áhersla verði lögð á aukna endingu kúa.
 
Úrval á grunni erfðamarka
 
Næsta erindi Fagþingsins var flutt af Emmu Eyþórsdóttur, Landbúnaðarháskóla Íslands, og Jóni Viðari Jónmundssyni, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, en þau fjölluðu um þá möguleika sem felast í því að byggja úrval í kynbótarækt á grunni erfðamarka. Einkar áhugavert efni en undanfarin ár hefur þróun þessarar tækni verið ör og er í dag hægt að gera mun ódýrari greiningar en hingað til og því orðið áhugavert fyrir íslenska kynbótafræðinga að taka aðferðina í notkun í nautgriparækt. Í sinni einföldustu mynd þá byggir aðferð þessi á því að greina uppröðun svokallaðra nitursbasa í erfðaefninu en niturbasar þessir tengja saman kjarnsýrurnar í erfðaefninu. Erfðabreytileiki byggist á mismunandi basaröðum og í dag er hægt að greina þessa basa með sérstökum tækjum. Þegar niðurstöðurnar eru svo keyrðar saman við gagnagrunna með upplýsingum um eiginleika gripa má finna þar samhengi sem hægt er að byggja mat á gripnum út frá. Þessi aðferð er að heita má notuð um allan vestrænan heim í dag og hefur hreinlega orsakað byltingu í kynbótastarfinu á örfáum árum enda má sjá meiri framfarir einstakra kynbótaeiginleika hjá kúm nú en nokkru sinni fyrr. Í erindi þeirra kom m.a. fram að þau telja þessa aðferð afar áhugaverða og að mögulegur kostnaður sem fælist í því að taka þessa aðferð í notkun hér á landi gæti numið 30–40 milljónum í greiningarkostnað og við það bætist svo annar úrvinnslukostnaður.
 
Eldi og sláturgæði
 
Þriðja erindi Fagþingsins flutti Þóroddur Sveinsson, Landbúnaðarháskóla Íslands, en hann fór í því yfir helstu niðurstöður tilraunar með þauleldi nautkálfa til kjötframleiðslu og ræddi hér um eldi og sláturgæði íslenskra ungnauta. Framkvæmd var tilraun með mismunandi eldi ungnauta þar sem hluti þeirra var alinn mjög sterkt en á sama tíma var samanburðarhópur sem fékk hefðbundið eldi. Um einkar áhugavert rannsóknaverkefni var að ræða en í tilrauninni tókst að draga fram verulega mikinn mun á áti og vexti. Þannig var t.d. 20% munur á meðal vaxtarhraða 250 kg falla og um 17% munur á meðal vaxtarhraða 300 kg falla í þessari tilraun, í báðum tilvikum uxu að sjálfsögðu þau naut hraðast sem voru á sterkara eldi. Afar ólíkt er á milli búa hver kostnaðurinn er sem fellur til við framleiðsluna en bæði er raunkostnaður við hey- eða byggframleiðslu afar misjafn en einnig þegar litið er til fasts kostnaðar við framleiðsluna. Í erindinu fór Þóroddur yfir þessar ólíku forsendur  og hvað þær þýða fyrir framleiðsluna. Afar áhugavert efni sem vænta má að sé gagnlegt fyrir alla þá sem eru í nautaeldi.
 
EUROP-matskerfið
 
Að fjórða erindinu stóðu þeir félagar Stefán Vilhjálmsson, MAST, og Óli Þór Hilmarsson, Matís, en þeir tóku fyrir EUROP-matskerfið í nautgripakjöti og hvernig það stendur í samanburði við hið íslenska matskerfi á nautgripaföllum, en gert er ráð fyrir að hið nýja matskerfi verði innleitt 1. janúar næstkomandi. Við innleiðinguna mun eðlilega verða nokkur breyting á matskerfinu en allir helstu flokkar núverandi kerfis verða áfram notaðir, þ.e. UK, AK, UN og B. Ákveðin breyting verður hins vegar á skilgreiningu á ungum kúm en flokkurinn KU mun taka til allra kúa 30–48 mánaða og svo mun K flokkurinn taka við kúm eldri en 48 mánaða. Mesta breytingin felst í því að með nýja kerfinu verða tekin upp annars konar holdfyllingar og fituflokkar. Í raun eru í dag einungis notaðir 3 holdfyllingarflokkar en í EUROP-kerfinu geta verið allt að 15 ólíkar skilgreiningar svo afar mikill munur er á þessum matskerfum. Í fyrstu er stefnt að því að vera með 11 holdfyllingarflokka og fimm fituflokka en hinu nýja kerfi verður vafalítið gerð góð skil síðar á árinu þegar styttra er í að kerfið taki við.
 
Fóðrunartækni
 
Næstsíðasta erindi Fagþingsins að þessu sinni flutti Unnsteinn Snorri Snorrason og tók hann fyrir fóðrunartækni fyrir nautgripi. Þegar fóðrunartækni er valin þarf að horfa til margra ólíkra kostnaðarþátta og fór hann yfir þá helstu: vinnuliðinn, hvaða vélbúnað þarf til, hvaða tæknibúnað eigi að nota og hvaða kröfur eru gerðar til bygginganna. Allauðvelt sé að reikna út hvaða kostnaður fylgi ólíkum lausnum en alltaf þurfi að taka tillit til bæði grunnþátta og afleiddra eins og bættra afurða. Í erindinu fór hann svo yfir margar ólíkar lausnir við fóðrun nautgripa s.s. við mjóa fóðurganga, við heilfóðrun gripa og fleira mætti nefna. Áhugavert erindi eins og önnur á þessu Fagþingi.
 
Geymsla á búfjáráburði
 
Síðasta erindi Fagþings nautgriparæktar 2016 var svo flutt af Bjarna Árnasyni, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, en hann tók fyrir tæknilausnir við geymslu búfjár­áburðar en frá miðju síðasta sumri áttu að vera til staðar geymslur fyrir að minnsta kosti 6 mánaða uppsöfnun á búfjáráburði við öll fjós landsins. Kynnti hann hvernig RML getur aðstoðað bændur við að reikna út rýmisþarfir búfjáráburðar viðkomandi bús. Þá fór hann yfir ólíkar lausnir við geymslu á búfjáráburði en líklega er langalgengasta aðferðin hér á landi að vera með haughúskjallara, lausn sem sést afar sjaldan utan Íslands. Æ fleiri horfa í dag til notkunar á haugtönkum en síðar á árinu er þess vænst að hægt verði að kaupa haugtanka úr forsteyptum einingum hér á landi.
 
Eins og áður segir er hér einungis um stuttlega lýsingu að ræða en hafi umfjöllunin vakið spurningar eða frekari áhuga skal enn bent á að hægt er að sjá og heyra öll erindin á vef Landssambands kúabænda: www.naut.is.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

Aðstaða við kúaskoðun

Einn af hornsteinum afkvæma­prófana á nautum er kúaskoðun þar sem reynt er að dæma sem flestar dætur þeirra nauta sem eru í afkvæmaprófun hverju sinni. Með þessum dómum fást mikilsverðar upplýsingar um kosti og galla dætra nautanna, einkum varðandi júgur- og spenagerð, mjaltir og skap. 
 
Umfang kúaskoðana er mest í lok vetrar eða byrjun sumars en þannig nást flestar kvígur til dóms og því eru kúadómarar einkum að störfum um þessar mundir að dæma kvígur um allt land. Til þess að kúaskoðun gangi sem best fyrir sig er mikilvægt að samstarf þeirra og bænda sé sem allra best eins og það hefur ávallt verið.
 
Á síðustu árum hefur fjöldi legubásafjósa aukist til mikilla muna og dómstörf því að mörgu leyti erfiðari en áður. Við viljum því fara þess á leit við bændur að ef þess er nokkur kostur að búið sé að taka þær kýr frá sem dæma á áður en dómarinn mætir á svæðið. Það flýtir fyrir dómstörfum og sparar tíma, bæði dómara og bænda. Til þess að þetta sé framkvæmanlegt þurfum við að eiga gott samstarf.
 
Ein af ástæðum þess að þetta er nefnt nú er að aðeins hefur borið á því að dómarar hafi orðið fyrir miður skemmtilegum upplifunum í fjósum þar sem kýr, sem er illa við ókunnuga, gera sig líklegar til að ráðast á dómarana eða hafa hreinlega ráðist á þá. Nú er kannski sjaldnast hægt að sjá slík viðbrögð gripa fyrir en viti menn af gripum sem líklegir eru til slíks, hafa t.d. sýnt slíkt hátterni áður, óskum við eftir því að slíkir gripir séu lokaðir af til þess að tryggja öryggi dómaranna.
 
Sem betur fer hafa ekki orðið nein slys við kúaskoðun hingað til en rétt að hafa hið fornkveðna í huga, þ.e. að byrgja brunninn. Einnig er rétt að minna á að ókunnugir eiga ekki að vera einir innan um kýr eða gripi í lausagöngufjósum. 
 
/Guðmundur Jóhannsson

 

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...