Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ekkert flutt inn án heilbrigðisvottorðs
Fréttir 18. júlí 2014

Ekkert flutt inn án heilbrigðisvottorðs

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hagstofu Íslands voru flutt inn rúm 185 tonn af mómosamold og annarri mold árið 2013 og rúm 70 tonn á fimm fyrstu mánuðum 2014. Sem dæmi um innflutning á lifandi plöntum voru flutt inn rúm 32 tonn af ávaxtatrjám, berjarunnum, rósum og lyngrósum 2013 og rúm 11 tonn fyrstu fimm mánuði 2014.

Matvælastofnun annast eftirlit og vottun vegna plöntuheilbrigði við innflutning plantna og plöntuafurða til landsins auk þess sem stofnunin hefur eftirlit með innflutningi á gróðurmold. Einn starfsmaður sinnir eftirliti með innflutningi á lifandi plöntum og mold.

Jón Guðmundsson, plöntu­eftirlits­maður hjá Matvælastofnun, segir að engar lifandi plöntur eða mold flutta inn til landsins án þess að sendingunni fylgi heilbrigðisvottorð frá framleiðslulandinu. „Reglurnar gera ráð fyrir að vottorðin votti að varan standist þær kröfur sem við gerum og séu gefin út af opinberum og viðurkenndum eftirlitsaðila í framleiðslulandinu.“

Eftirlit og sýnataka

Annað slagið eru tekin sýni úr innfluttri mold og þau rannsökuð með tilliti til sýkingahættu og sendingar með lifandi plöntum skoðaðar og athugað hvort einhverjar óæskilegar lífverur fylgi með sendingunni.

Að sögn Jóns kemur oft fyrir að sendingar séu stöðvaðar vegna þess að þær standast ekki heilbrigðiskröfur og þá yfirleitt sendar aftur til uppruna landsins eða eytt hér á landi. Hann segir algengara að mold í pokum standist ekki heilbrigðiskröfur en lifandi plöntur.


„Heilbrigðisvottorð frá útflutnings­landinu má ekki vera eldra en fjórtán daga gamalt þegar varan er send og eftirlit er haft með sumum tegundum í allt að átta vikur fyrir það,“ segir Jón.

Reglur um innflutning á mold

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að almenna reglan sé sú að óheimilt sé að flytja inn jarðveg, safnhaugamold, óunninn eða kurlaðan trjábörk og húsdýraáburð. Tvenns konar mold er undanskilin.

Annars vegar er undanskilin mómosamold til ræktunar sem að meginhluta samanstendur af mómosa. Sú mold þarf að vera tekin úr mógröfum þar sem aldrei hefur verið stundaður landbúnaður, ekki innihalda safnhaugamold, óunnin eða kurlaðan trjábörk né húsdýraáburð.

Hins vegar er undanskilin sú mold sem fylgir rótum plantna. Í þeim tilfellum á heilbrigðisvottorðið sem fylgir plöntunum einnig að ná yfir þá mold sem fylgir með. Vakin athygli á því að ef plönturnar koma frá löndum þar sem nýsjálenski flatormurinn er útbreiddur þurfa plönturnar að vera alveg lausar við mold, nema að sérstök yfirlýsing sé á heilbrigðisvottorði um að plönturnar komi frá svæði þar sem flatormurinn finnst ekki.

Reglur um innflutning á lifandi plöntum

Samkvæmt reglum verður opinbert plöntuheilbrigðisvottorð að fylja eftirfarandi plöntum og plöntuafurðum við innflutning og varan að vera laus við skilgreinda skaðvalda.


Plöntur með rót eða plöntuhlutar, græðlingar, blómlaukar, stöngul- og rótarhnýði og kartöflur. Afskornum blómum og greinum. Rótarlausum barrtrjám og barrgreinum frá Evrópu og er innflutningsbann á nokkrum ættkvíslum. Innflutningsbann er er á trjávið með berki. Fræ og vatnaplöntur ætlaðar í fiskabúr eru undanskilin heilbrigðisvottorði.

Óheimilt er að flytja inn eftirfarandi plöntutegundir: álm, birki, furu, greni, lerki, víði, ösp og barrtré frá löndum utan Evrópu og vatnaplöntur af ættkvíslinni Elodea.