Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jane Goodall
Jane Goodall
Fréttir 1. júlí 2016

Auka þarf hlut smábýla í framleiðslu matvæla í heiminum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Umhverfis- og dýraverndarsinninn Jane Goodall var í heimsókn á Ísland fyrr í þessum mánuði. Goodall er heimþekkt fyrir rannsóknir sínar á simpönsum og hefur með rannsóknum sínum sýnt fram á að dýr upplifa sterkar tilfinningar eins og söknuð, sorg og afbrýðisemi.

Jane Goodall var 22 ára gömul og án háskólagráðu þegar hún fór til Kenía til að rannsaka simpansa, síðar rannsakaði hún einnig hegðun hýena og kolkrabba. Rannsóknirnar áttu síðar eftir að gerbreyta hugmyndum manna um dýr og tilfinningar þeirra. Goodall varð heimsfræg 28 ára gömul þegar National Geographic birti myndir af henni og fjallaði um rannsóknir hennar á simpösunum árið 1962.

„Ég var átta ára þegar ég sagði móður minni að ég ætlaði að flytja til Afríku og vinna með dýrum þegar ég yrði stór. Sem barn átti ég mér tvær fyrirmyndir í lífinu og þær eru án efa ástæðan fyrir því að ég flutti til Kenía og fór að rannsaka og lifa með simpönsum. Önnur var Tarsan og hin Dagfinnur dýralæknir, eins kjánalega og það kann að hljóma í dag.“

Baráttukona og rithöfundur

Á seinni árum hefur Goodall sinnt umhverfismálum í auknum mæli og er í dag, meðal annars, friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir að vera 82 ára ferðast Goodall heimshorna á milli til að kynna boðskap sinn um náttúruvernd auk þess sem hún er höfundur fjölda bóka fyrir börn og fullorðna. Má þar nefna Inn the Shadow of Man, My Life with the Chimpanzees, Reason For Hope, Harvest of Hope og Seeds of Hope, sem fjallar um plöntuheiminn.

Hún segir að vegna aldurs eigi hún líklega ekki mörg ár eftir til að halda fyrirlestra. „Ég er því á stanslausum þeytingi um heiminn að bera út boðskap umhverfisverndar og reyna að veita fólki von um að það sé ekki orðið of seint. Ég er bjartsýnismanneskja og reyni að nota tímann vel. Satt best að segja er líf mitt stórfurðulegt og ég hef ekki stoppað heima hjá mér í meira en þrjár vikur í mörg ár,“ segir Goodall.

Verðum að hætta að eitra matinn

Í samtali við Bændablaðið sagðist Goodall ekki hafa sérfræðiþekkingu á landbúnaði en að hún hefði mikinn áhuga á honum og hvert hann stefndi.

„Við verðum öll að borða og að sjálfsögðu viljum við borða hollan og góðan mat og besta leiðin til að gera það er að borða meira af grænmeti og mat sem er ræktaður heima fyrir. Þannig vitum við best hvað við erum að borða og drögum úr menguninni sem felst í að flytja matvæli langar leiðir.

Notkun á sýklalyfjum í landbúnaði til að auka vaxtarhraða dýra er líka skelfileg þróun og vegna hennar eru að verða til ofurbakteríur sem geta smitast í fólk úr matvælum og engin sýklalyf ráða við. Ég var að lesa grein fyrir stuttu þar sem því er haldið fram að tími sýklalyfja sé liðinn og að í kjölfar þess geti sýkingar sem auðvelt hefur verið að ráða við orðið ólæknandi og banvænar. Í mínum huga er þetta ógnvekjandi staðreynd sem á eftir að valda gríðarlegum sársauka og hörmungum.

Annað sem er verulegt áhyggjuefni í landbúnaði er gríðarleg notkun á skordýra- og illgresiseitri til að auka uppskeruna og aukin notkun á erfðabreyttum fræjum.

Við verðum að hætta að eitra jarðveginn og matinn og nota ræktunaraðferðir og beita varnarráðum sem forfeður okkar þekktu og notuðu áður en við eyðileggjum Jörðina enn meira. Reynslan sýnir að þar sem mikið er notað af illgresiseitri mynda margar plöntur sem á að drepa þol við eitrinu og því þarf sífellt að auka styrkleika eiturefnanna eða nota blöndu margra efna til að drepa þær. Síðan safnast eiturefnin upp í jarðvegi og grunnvatni.

Ég er sannfærð um að erfðabreytt eða glyfósatþolin fræ eigi ekki eftir að bjarga heiminum. Glyfósat var aðalinnihaldsefnið í Agent Oranges sem Bandaríkjaher notaði til að eyða skógum í Víetnam á sínum tíma og hafði hræðilegar hörmungar í för með sér. Auk þess er búið, að minnsta kosti í mínum huga, að sanna að glyfósat sé krabbameinsvaldandi.

Það er líka ófært að risafyrirtæki eigi einkarétt á fræi og geti bannað bændum að safna því úr eigin framleiðslu og nýta. Svo er ótrúlegt til þess að hugsa að ef erfðaefni úr einkaleyfisbundnum erfðabreyttum plöntum berst í gamlar ræktunartegundir þá geti einkaleyfishafinn kært bændur fyrir að nota fræ af plöntum sem þeir hafa sjálfir ræktað og safnað fræinu af.

Ég er algerlega á móti því sem fyrirtæki eins og Monsanto eru að gera og satt best að segja er hissa á að það fyrirtæki sé ekki fyrir löngu búið að lögsækja mig.

Ég er líka sannfærð um að orsakir margra þeirra sjúkdóma sem mannkynið berst við í dag sé að finna í þeim eiturefnum sem notuð eru við matvælaframleiðslu.

Sjálf tel ég að skynsamlegasta leiðin í landbúnaði sé að fjölga smábýlum og auka hlut þeirra í matvælaframleiðslu í heiminum. Rannsóknir sýna að til langs tíma eru erfðabreyttar plöntur og einræktun ekki að skila meiri uppskeru en gamlar ræktunarsortir og samplöntun margra tegunda,“ segir Goodall.

Plöntur ekki síður áhugaverðar en dýr

Goodall segir að þrátt fyrir að hennar rannsóknir hafi snúist um dýr sé plöntuheimurinn ekki síður fjölbreytilegur og áhugaverður og hræðilegt hvernig er verið að eyða skógum og búsvæðum sjaldgæfra plantna. „Í Indónesíu og víðar um heim er verið að fella og brenna niður frumskóga á hundruð þúsundum hektara svæði til að ryðja land undir einræktun á pálmaolíu.

Tegundafjölbreytni plantna er á sama tíma að minnka vegna ágangs á búsvæði þeirra og tegund sem er útrýmt hverfur að eilífu. Sem betur fer er til fólk í heiminum sem vinnur ötullega að því að bjarga sjaldgæfum plöntum, alveg eins og fólk sem vinnur að verndun dýra.“

Eigum bar eina Jörð

Goodall sagði meðal annars á blaðamannafundi vegna heimsóknar sinnar hingað til lands að staðan í umhverfismálum í heiminum væri grafalvarleg og alvarlegri en flestir gerðu sér grein fyrir.

Hún segir eitt mikilvægasta náttúruverndarmálið í dag vera að draga úr fjölgun mannkynsins. Máli sínu til stuðnings sagði hún að ef allir í heiminum tækju upp sama lífsmáta og Vesturlandabúar dygði ein Jörð engan veginn til að standa undir honum og við þyrftum að minnsta kosti fimm eða sex Jarðir til að fullnægja kröfum okkar. „Við sem byggjum þennan heim í dag verðum því að draga úr kröfum okkar og minnka neysluna.“

Goodall sagði merkilegt að sú dýrategund sem teldi sig þá gáfuðustu á Jörðinni væri sú tegund sem væri að skemma hana mest og myndi tortíma sjálfri sér með sama áframhaldi.

Þrátt fyrir þetta segist Goodall vera bjartsýn og eygja von um að hægt sé að snúa þessari þróun við en til þess verðum við öll að taka höndum saman og breyta um lífsstíl og setja náttúruna og Jörðina í heild í forgang.

Skylt efni: Jane Goodall

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...