Ásahreppur keppir í Útsvari
Ásahreppur verður með í Útsvari í Ríkissjónvarpinu í vetur, en hreppurinn er sá fámennasti sem keppt hefur í spurningaþættinum til þessa. Um síðustu áramót bjuggu aðeins 193 í Ásahreppi.
Útsvar er, eins og kunnugt er, spurningakeppni milli sveitarfélaganna í landinu. Upphaflega kepptu 24 stærstu sveitarfélögin sín á milli en á síðasta ári var reglunum hins vegar breytt. Þá fengu þátttökurétt tvö sveitarfélög með íbúafjölda á milli 500 og 1.500 og eitt sveitarfélag með íbúafjölda undir 500 íbúa. Stærri sveitarfélögin tvö sem dregin voru út til þáttöku í vetur eru Stykkishólmsbær og Sveitarfélagið Skagaströnd.
Í fyrra voru það Seyðisfjörður og Hvalfjarðarsveit sem fengu þátttökurétt í flokki sveitarfélaga með íbúafjölda á milli 500 og 1.500 og Tálknafjörður í flokki sveitarfélaga með íbúafjölda undir 500. Lið Tálknafjarðar stóð sig með prýði í keppninni og tapaði naumlega fyrir Sandgerði í 1. umferð, með einungis eins stigs mun. Um áramótin 2012-2013 bjuggu 293 íbúar í Tálknafjarðarhreppi.
Ásahreppur verður því sem áður segir minnsta sveitarfélagið til að taka þátt í Útsvari til þessa. Björgvin G. Sigurðsson er nýr sveitarstjóri Ásahrepps og var hann hinn kátasti þegar Bændablaðið náði af honum tali á leið inn á afrétt. „Við erum að vinna í því að manna liðið. Okkur líst vel á þetta, þátturinn er skemmtilegur og góð og skemmtileg kynning fyrir hreppinn. Það er ekki útilokað að við blásum til einhverrar skemmtunar í kringum keppnina.“