Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Síldartíð ljóss og friðar
Mynd / Hari
Matarkrókurinn 8. desember 2022

Síldartíð ljóss og friðar

Höfundur: Haraldur Jónasson

Í gamla daga voru það Delicius eplin sem komu með jólin, nú eru það mandarínur og sænsk geit sem helst minna okkur á að Jólahjól og Ef ég nenni eru að fara á fullt á öldum ljósvakans og Spottifæ. Eitt er það þó enn sem kveikir í, nei, ekki geitinni sænsku, heldur í okkur jólastuðið. Það er þegar hátíðarsíldin byrjar að fylla hillur kjörbúðanna í desember. Þá skiptir engu hvort árið er 1976 eða 2022 hún er alltaf jafn geggjuð – jólasíldin.

Maríneruð síld er jafnan best ofan á nýtt heimalagað rúgbrauð með sem minnstum látum.

Í guðanna bænum ekki drekkja henni í sýrðum rjóma og mæjónesi og gult karríkrydd! Það viljum við ekki sjá í tíu metra fjarlægð frá jólasíldinni.

Klassískt stef er síld með þunnt skornum rauðlauk, eggjaskífum og smá dúllu af helmingsblöndu af sýrðum rjóma og mæjónesi. Mylja aðeins af svörtum pipar yfir. Kannski einn snúning eða svo. Himneskt að súpa hvítöl með.

Suðræn síld

Chimichurri er argentínskt olíu- og ediksfleyti, hálfgerð salatdressing, sem þeir þarna syðra setja ofan á nánast hvað sem er. Mjög vinsælt með nautakjöti eins og þeirra Argentínumanna er siður. Fleytið, sósan eða dressingin hvað svo sem ætti að kalla svona blöndu af olíu, ediki og grænfóðri. Í heimalandinu er sósan yfirleitt einmitt alveg græn en þar sem líður senn að jólum er tilvalið að blanda rauðum út í og nota til þess rauðlauk og rauðan eldpipar á móti grænum og ferskum kryddjurtum. Svona búum við til jólachimichurri til að setja ofan á síld sem aftur situr ofan á rúgbrauði: Saxa niður einn miðlungs rauðlauk. Kremja 3-4 hvítlauksrif og saxa þau sömuleiðis. Saxa niður eldpipar (chili). Þeir sem vilja sterka sósu skera hann strax í búta. Þeir sem vilja miðlungssterka sósu skafa fræin úr og skera piparinn svo niður. Þeir sem svo vilja milda sósu fá sér bara eitthvað annað ofan á rúgbrauð. Laukurinn, ásamt teskeið af salti, fer svo ofan í hálfan desilítra af ediki. Má vera rúmlega hálfur ef edikið dugir ekki til að fleyta yfir laukinn. Það má vera venjulegt borðedik, hvítvíns-, epla- eða rauðvínsedik. Allt edik sem er í kringum 5% ediksýra virkar. Hrísgrjónaedik er alla jafna ekki nógu súrt og balsamik-edik er allt of bragðsterkt. Geyma þetta við stofuhita í klukkustund eða í kæli yfir nótt. Næsta skref, þegar búið er að léttsýra grænmetið, er að saxa búnt af ferskri steinselju í tvo desilítra af ólífuolíu. Þetta er lykilhráefni og þarf að vera ferskt. Má reyndar skipta út fyrir kóríander ef það er eitthvað. Það sem má hins vegar vera þurrkað er ein teskeið af oregano. En ef svo vel vill til að til er ferskt oregano í ísskápnum eða úti í glugga er um að gera að nota það frekar. Einn fjórði búnt eða svo.

Þegar líður að síldarveislunni er þessum tveimur blöndum blandað saman og smá svartur pipar mulinn út í. Teskeið eða svo. Þar sem beinlínis er verið að blanda saman vatni og olíu þarf að hræra hressilega og þá ætti fleytið að koma saman. Ekki setja í matvinnsluvél eða blandara. Bara hræra með gaffli eða kannski grófum písk.

Chimichurríið jólalega er þá tilbúið og tími kominn að ná í ilmandi nýtt rúgbrauð, skúbba á það nokkrum bitum af hátíðarsíld, toppa svo með ilmandi fersku chimihcurri. Þessi réttur veitir svo aftur sálrænan styrk til að fara niður í geymslu og grafa upp jólaskrautið. Gleðilega síldarhátíð!

  • 1 stk. rauðlaukur
  • 3-4 stk. hvítlauksrif
  • 1-2 stk. eldpipar (chili)
  • 1 búnt steinselja (fersk)
  • 2 dl. ólífuolía
  • 1⁄2 dl. edik
  • 1 tsk. oregano
  • 1 tsk. salt
  • 1⁄2 tsk. svartur pipar

Skylt efni: síld

Steikt lamba rib-eye
Matarkrókurinn 14. september 2023

Steikt lamba rib-eye

Haustið er komið og með því göngur og réttir í sveitum landsins og meðfylgjandi ...

Miðaldramanna-salat
Matarkrókurinn 31. ágúst 2023

Miðaldramanna-salat

Árin færast hratt yfir og miðöldrunin gengur vel. En svo byrjar að smella í öllu...

Hamborgari
Matarkrókurinn 16. ágúst 2023

Hamborgari

Góður hamborgari á allar sínar vinsældir skilið, en er samt auðvitað bara hambor...

Stórsteikur á sumargrillið
Matarkrókurinn 18. júlí 2023

Stórsteikur á sumargrillið

Stundum, kannski eins og einu sinni yfir sumartímann, reynist löngunin í vel fit...

Grilluð harissa-kjúklingalæri
Matarkrókurinn 4. júlí 2023

Grilluð harissa-kjúklingalæri

Öllum þykir grillmatur góður, eða svona næstum því, og svo sannarlega grilla Ísl...

Grill/rigningarsumarið mikla
Matarkrókurinn 20. júní 2023

Grill/rigningarsumarið mikla

Það er kominn júní og það þýðir að, hvað sem tautar og raular, grilltímabilið er...

Hægeldaður lambabógur
Matarkrókurinn 6. júní 2023

Hægeldaður lambabógur

Þegar þetta er ritað lekur slyddan niður rúðuna og fátt minnir á vor, sumar og g...

Eggið og hænan
Matarkrókurinn 23. maí 2023

Eggið og hænan

Ég er áhugamaður um margt. Ég stunda hjólreiðar, ég tálga spýtur, fer á skíði, h...