Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Björn Björgvinsson, fjögurra ára eigandi flugvélar, árið 1947. Vélin var seld til Flugfélagsins Vængja þar sem hún var notuð í leiguflug og áætlunarflug á Akranes og fleiri minni kauptún. Hún sökk í Þingvallavatni og var bjargað, en lenti síðar í bruna og endaði sem vinnuskúr.
Björn Björgvinsson, fjögurra ára eigandi flugvélar, árið 1947. Vélin var seld til Flugfélagsins Vængja þar sem hún var notuð í leiguflug og áætlunarflug á Akranes og fleiri minni kauptún. Hún sökk í Þingvallavatni og var bjargað, en lenti síðar í bruna og endaði sem vinnuskúr.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 6. apríl 2023

Ung börn eignuðust flugvél

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Árið 1947 var fyrsti vinningur í happdrætti SÍBS fjögurra manna flugbátur af gerðinni Republic Sea-Bee, sem gat lent á landi og vatni. Ung systkini úr Reykjavík áttu vinningsmiðann og gerðust eigendur flugvélar, tveggja mánaða og fjögurra ára gömul.

Upphaf þessa máls má rekja til þess er Samband íslenskra berklasjúklinga (SÍBS) efndi til mikils happdrættis til að standa undir kostnaði við byggingu Vinnuheimilisins að Reykjalundi í lok árs 1945. Í fyrstu verðlaun var áðurnefnd flugvél ásamt flugnámi, en einnig var hægt að vinna skemmtibát, jeppa, málverk eftir Kjarval, ferðalög, golfáhöld o.fl.

Í Morgunblaðinu 15. janúar 1946 birtist grein þar sem blaðamaður lýsir hinum „fljúgandi fiskibáti“ og studdist við umsagnir í bandarískum flugvélatímaritum, enda var flugvélin ekki komin til landsins:

„Vjelin lætur betur að stjórn en flestar eða allar sem nú eru fáanlegar. Skrokkurinn gerður með það fyrir augum að fara sem best í sjó. Getur því að fullu gagni gegnt hlutverki skemmtihraðbáts á vötnum og kyrrum sjó. Lyfta má þaki af stefninu fyrir framan klefann, þá vjelin er sest á veiðivatnið, þar er rúm fyrir veiðimenn.

– Þeir munu þá varpa drekanum fyrir borð og taka til við stangarveiði með áhuga miklum og gleðskap, en frúin framreiðir inni í prúðbúnum klefanum. – Þetta líka indæla nesti. (Ó, hvílík sæla að lifa á 20. öldinni miðri og eiga flugbát S.Í.B.S.)“

Björn og Guðbjörg systir hans unnu flugvélina í happdrætti SÍBS. Mynd / Úr einkasafni

Kom á óseldan miða

Útdrátturinn átti upphaflega að fara fram 1. febrúar 1946, en frestaðist til 15. þess mánaðar. Níu ára gömul stúlka, Guðný Sigurjónsdóttir, dró númerin hjá borgarfógeta með bundið fyrir augun. Flugvélin kom upp á númer 121.477, en í lok mánaðarins kom í ljós að það númer var óselt. Stjórn SÍBS sendi frá sér tilkynningu þess efnis að leitað yrði heimildar um að mega tölusetja merki sín á næsta Berklavarnardegi og nota þau sem happdrættismiða svo hægt væri að draga um flugvélina að nýju, enda var hún „aðalkeppikeflið“. 6. október 1946 hófst sala merkjanna og var sölunni haldið áfram alveg að útdrættinum.

Í auglýsingu í Þjóðviljanum 6. október segir: „S.Í.B.S.-flugvélin er fjögra manna láðs- og lagðarvél. Fullkomnasta einkaflugvél, sem smíðuð er í Ameríku. Fyrir milligöngu Thors Thors sendiherra hefur loks tekizt að fá vélina afgreidda og mun hún fara í skip í N.Y. um miðjan nóv [...]. Á Þorláksmessu næstkomandi verður dregið um vélina og eingöngu dregið úr seldum merkjum. Sam- tímis verður hún til sýnis á velli og í lofti.“

Erfitt að fá til landsins

Heimildir benda til þess að brösuglega hafi gengið að fá flugvélina til landsins. Í Þjóðviljanum 29. desember 1946 segir að:

„Vegna misskilnings og lítt skiljanlegra mistaka, varð flugvél SÍBS eftir í New York er leiguskip Eimskipafélagsins fór þaðan, áleiðis til Reykjavíkur, í byrjun þessa mánaðar [...]. Ákveðið hafði verið að draga um vélina á Þorláksmessu, en nú verður S.Í.B.S., til að fullnægja lögum, að fresta drættinum, þar til vélin er hingað komin [...]. Vonandi eru nú allir erfiðleikar S.Í.B.S. vegna þessarar flugvélar úr sögunni og að þessi ágæti gripur eigi eftir að ryðja brautina til flugferða almennings í eigin vélum, hér á landi.“

Hún kom svo loksins til landsins í byrjun árs 1947. Í Þjóðviljanum 29. janúar 1947 segir: „Flugvél þessi, sem aðeins er nýkomin hingað til lands, er hin vandaðasta og fallegasta. Fór íslenzkur flugmaður út til að kynna sér byggingu slíkra flugvéla sem þessarar og hefur hann séð um samansetningu hennar hér. Flugvél þessa fékk sambandið fyrir milligöngu h.f. Flugvirkinn, en það félag hefur umboð fyrir þessar flugvélar. Gekk mjög illa að fá hana, vegna þess að fjöldaframleiðsla á þessari tegund véla er ekki hafin vestra, en fyrir ötula framgöngu forstjóra h.f. Flugvirkinn, Björns Jónssonar, og góða aðstoð sendiráðsins í Washington, gekk það samt vonum fremur.

Má geta þess, að vél þessi er sú 146. sem verksmiðjan byggir, og sú fyrsta, sem seld er úr landi en pantanir á þessum vélum liggja fyrir í tugþúsunda tali.

Dagana fram til sunnudags verður það af merkjunum, sem enn er óselt, selt á götunum og á skrifstofu S.Í.B.S.“

Margar greinar voru um flugvélina í dagblöðunum í upphafi árs 1947 og af heimildum að dæma má ætla að SÍBS hafi náð að vekja mikinn áhuga á þátttöku í happdrættinu. Hún var höfð til sýnis, ýmist í Reykjavíkurhöfn eða á flugi yfir bæinn. Einnig mun henni hafa verið flogið til Vestmannaeyja.

„Bæjarbúum verður gefinn kostur á að sjá vélina fram að helgi, ef veður leyfir, því hún mun öðru hvoru fljúga yfir bæinn til að sýna sig og varpa niður flugmiðum,“ segir í Tímanum 29. janúar, en flugmiðarnir giltu sem farmiði í hringflug yfir bæinn.

4 ára drengur tók við flugvél

Dregið var um flugvélina að kvöldi 1. febrúar 1947 og voru vinningshafarnir Björn Björgvins- son, 4 ára gamall, og óskírð systir hans á fyrsta ári, sem síðar fékk nafnið Guðbjörg. Í Morgunblaðinu 4. febrúar 1947 segir:

„Í gærmorgun var Birni afhent flugvjelin. Sú athöfn fór fram suður á Reykjavíkurflugvelli [...]. Miðstjórn SÍBS var viðstödd athöfnina. Björn litli kom suður eftir með föður sínum. Drengurinn gekk fyrir forseta SÍBS, Maríus Helgason og afhenti honum happdrættismerkið, nr. 21900, en Maríus sagði drengnum að flugvjelin væri hjer með hans eign og systur hans.

Síðan gekk Björn fyrir alla meðlimi miðstjórnarinnar og þakkaði þeim með handabandi. Síðan var þeim feðgum flogið hjer yfir bæinn og nágrenni hans og þótti drengnum það hin besta skemtun.“

Í samtali við Þjóðviljann af þessu tilefni sagði Björn: „Ég var hræddur. Vélin renndi sér niður bratta brekku, niður í sand.“

Lítill flugmaður klár í flugferð yfir Reykjavík í febrúar 1947. Mynd / Úr einkasafni

Seld til nýs flugfélags

Tveimur vikum eftir að systkinin eignuðust flugvélina var hún seld, en kaupandinn var hið nýstofnaða Flugfélag Vængir hf. í Reykjavík, sem var þá eitt af þremur flugfélögum sem störfuðu á landinu.

Á bak við það stóðu Níels Níelsson formaður, Karl Sæmundsson og Sigurgeir Sigurdórsson. Í Vísi 12. apríl segir að hún muni verða notuð í hringflug í nágrenni Reykjavíkur og í leiguflug til lengri og skemmri ferða. Þar segir líka að hún sé hentug í veiðiferðir til veiðivatna, ferðalög um óbyggðir landsins og sumarleyfisferðir.

„Að undanförnu hefir vélinni verið flogið í allmargar ferðir til Heklu með farþega og hefir gefizt ágætlega,“ segir í greininni, en skömmu áður hafði eldfjallið byrjað að gjósa.

Á sama stað er skrifað: „Er þess að vænta, að félagið eigi langa og gifturíka framtíð fyrir höndum, því að samgöngur í lofti aukast nú hröðum skrefum [...].“ Raunin var sú að eftir skamman feril fataðist Vængjum hf. flugið.

Sumarið 1948 hóf flugfélagið áætlunarflug milli Akraness og Reykjavíkur, en hún þótti henta vel til þess þar sem enginn flugvöllur var á Akranesi. Flugvélin lenti þá á Krossvíkinni og var síðan ekið upp á Langasand. Flugfélagið fékk jarðýtu til að hreinsa lendingarsvæðið og var samið við bæjarstjórn Akraness að gætt yrði þess að svæðið yrði ekki fyrir ágangi fólks. Langisandur fékk viðurkenningu flugmálastjórnar sem flugvöllur.

Ferðirnar voru venjulega tvisvar til þrisvar á hverjum degi yfir sumartímann og voru brottfarar- tímarnir breytilegir þar sem þeir réðust af flóði og fjöru. Flugið frá Reykjavík til Akraness tók tíu til fimmtán mínútur og var fargjaldið 35 krónur hvora leið sumarið 1948, sem samsvarar 3.335 krónum á verðlagi dagsins í dag, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands.

Flugfélagið fjölgaði áfangastöðum og fékk aðra litla flugvél til umráða, sem gat þó einungis lent á landi. Í Vísi 18. febrúar 1949 er þess getið að Flugfélagið Vængir hafi flutt 380 farþega árið 1947 og 3.206 farþega árið 1948.

Á sama stað kemur fram að starfsemin hafi legið niðri það sem liðið var af ári vegna illviðra.

Republic See Bee flugvél frá árinu 1947, sambærileg þeirri sem systkinin áttu, sem var einnig silfurgrá að lit Mynd / Daderot – Wikimedia Commons

Sökk á hestamannamóti

Sunnudaginn 9. júlí 1950 var mikill mannfjöldi á Þingvöllum í tengslum við fyrsta Landsmót hestamanna og bauð Flugfélagið Vængir upp á hringflug um Þingvallavatn og nágrenni. Að kvöldi þess dags hlekktist Sea Bee flugvélinni á í vatninu og sökk.

„Slysið bar að með þeim hætti að flugvélin [...] var nýlent á víkinni utanvert við Valhöll, en rakst á blindsker eða hraunnibbu í vatninu þegar hún var að keyra eftir því áleiðis í land. Við áreksturinn, sem var allharður kom gat á botn flugvélarinnar og tók hún þá að hallast á vinstri vænginn og seig síðan niður í vatnið á örfáum mínútum. Í flugvélinni voru þrír farþegar auk flugmanns [...]. Tveir farþeganna og flugmaðurinn komust skjótlega út og voru björgunarhringar handa þeim í vélinni. Þriðji farþeginn sökk með vélinni en fyrir harðfylgi og dugnað flugmanns tókst að ná farþeganum út og koma honum á vænginn, sem þá var enn fyrir ofan vatnsborðið,“ segir í Vísi 10. júlí árið 1950.

Farþegar vélarinnar voru ungir piltar og var þeim, ásamt flugmanninum, bjargað eftir að hafa verið í tuttugu mínútur í vatninu og hlutu þeir aðhlynningu í Valhöll.

Umhverfis blindskerið var nokkuð dýpi og snérist flugvélin á hvolf í vatninu. Daginn eftir hófust björgunartilraunir, sem stóðu yfir í nokkra daga. Með vinnu kafara tókst að koma flugvélinni á réttan kjöl og var hjólum komið fyrir svo unnt væri að draga hana á land eftir botninum. Þann 14. júlí var flugvélin komin á þurrt og reyndist lítið skemmd.

Lítið er um heimildir um starfsemi Flugfélagsins Vængja eftir þetta, en þann 14. desember 1950 var haldið nauðungaruppboð á báðum flugvélum flugfélagsins og keypti Björn Pálsson þær og hugðist gera Sea Bee vélina upp. Í ágúst 1955 var stofnað nýtt flugfélag undir sama nafni, en á bak við það stóð annað fólk en hjá forveranum.

okkrum mánuðum eftir að flugvélin sökk var uppboð á eignum Vængja hf. Mynd/timarit.is

Brann og endaði sem vinnuskúr

Þann 18. apríl 1951 kom upp bruni á flugvélaverkstæði við flugskýli félags einkaflugmanna
á Reykjavíkurflugvelli.

Verkstæðið var skúr áfastur flugskýlinu, byggður úr timbri og klæddur að innan með trétexi, og varð alelda á svipstundu þar sem loftið var mengað bensíngufu. Þarna inni voru vængir Sea Bee flugvélarinnar. Í sjálfu flugskýlinu voru fimmtán flugvélar, ásamt skrokkum flugvélanna hans Björns, sem tókst að bjarga. Sea Bee flugvélin var í kjölfarið talin ónýt, því þó tekist hafi að bjarga skrokknum, þá eyðilagðist svo mikið henni tilheyrandi að tjónið var talið óbætanlegt.

Flugvélin var afskráð árið 1952 og endaði flugvélaskrokkurinn sem vinnuskúr við húsbyggingu í Kópavogi.

Guðbjörg Björgvinsdóttir

Ballettkennari og fyrrum eigandi flugvélar

Guðbjörg Björgvinsdóttir er annað þeirra systkina sem unnu flugvélina í febrúar árið 1947. Þá var hún rúmlega tveggja mánaða gömul og bróðir hennar fjögurra ára. „Það eru ekki margir sem hafa unnið flugvél í happdrætti,“ segir Guðbjörg og bætir við að fólk taki gjarnan andköf þegar hún segist vera fyrrum eigandi flugvélar. „Það er gaman fyrir mig að rifja þetta upp og leita eftir því sem ég vissi ekki,“ segir Guðbjörg, en það var lítið rætt um happdrættisvinninginn í hennar ungdómi.

Sjálf man hún ekki eftir flugvélinni, en hún var heima á meðan pabbi hennar og Björn bróðir tóku við henni á Reykjavíkurflugvelli. Björn mundi ágætlega eftir athöfninni og flugferðinni sem fylgdi í kjölfarið, en hann lést árið 2017. Hann vann sem bankamaður og var síðustu árin starfsmaður hjá Seðlabankanum.

„Vinningurinn kom á miða sem pabbi og mamma höfðu keypt og gefið okkur systkinunum. Ég man vel eftir þessum merkjum, þau voru kringlótt og það var járn á þeim þannig að maður gat smellt þeim á jakkaboðunginn.

Það er svo greypt í hugann á mér, því þetta var selt í mörg ár á eftir. Ég hef verið að sýna barnabörnunum þetta – þau vissu náttúrlega ekkert að amma hafi átt flugvél. Þetta er skemmtileg saga og ótrúlegt að maður skuli hafa lent í því að eignast þetta,“ segir hin 76 ára Guðbjörg.

Hún rak ballettskóla á Seltjarnarnesi í 37 ár. „Ég byrjaði að kenna innan við tvítugt og það var lifibrauðið mitt alla tíð. Það eru fleiri þúsund börn sem maður er búinn að kenna í gegnum árin,“ en Guðbjörg lét af störfum fyrir þremur árum.

Skylt efni: saga vélar

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...