Koparrista af drukknun Eggerts Ólafssonar. Myndskreyting úr í riti Ólafs Ólafssonar (Olavius) Draumadiktur um søknud og sorglegan missir þess Havitra, Gøfuga og Goda Manns Herra Eggerts Olafssonar, Vice-Løgmanns sunnan og austan a Islande a samt Hans dygdum pryddar Konu Frur Ingibjargar Gudmunds Dottur (Kaupmannahöfn: Paul Herman Höecke, 1769).
Koparrista af drukknun Eggerts Ólafssonar. Myndskreyting úr í riti Ólafs Ólafssonar (Olavius) Draumadiktur um søknud og sorglegan missir þess Havitra, Gøfuga og Goda Manns Herra Eggerts Olafssonar, Vice-Løgmanns sunnan og austan a Islande a samt Hans dygdum pryddar Konu Frur Ingibjargar Gudmunds Dottur (Kaupmannahöfn: Paul Herman Höecke, 1769).
Líf og starf 11. desember 2025

Okkar besti maður

Höfundur: Kristján B. Jónasson

Á næsta ári verða 300 ár liðin frá fæðingu Eggerts Ólafssonar. Þegar við sviplegan dauða sinn varð Eggert að táknmynd þjóðlegrar upprisu Íslendinga. Rannsóknarstörf hans, skáldskapur og verklegar hugsjónir voru hafin upp í ríki goðsögunnar af Jónasi Hallgrímssyni í Hulduljóðum. „Ísland hefir ei eignast son, / öflgari stoð né betri en hann,“ segir þar. Eggert var að mati 19. aldarinnar glæstasti Íslendingur síðari tíma.

Þann 1. desember 2026 verða þrjár aldir liðnar frá fæðingu Eggerts Ólafssonar vicelögmanns, skálds og ferðabókarhöfundar. Þrátt fyrir sídofnandi söguvitund er Eggert enn í hópi þeirra fortíðarmanna og -kvenna sem fólk kannast almennt við. Þó er hann líklegast ekki lengur sú reginhetja og hann var fyrir 100 árum þegar fullveldisdagur Íslendinga og afmæli Eggerts nánast runnu saman og þess var minnst á fjölskrúðugan hátt að Eggert hafði fæðst 200 árum fyrr.

Ögrum skorið

Það var til að mynda í tilefni af þessu tveggja alda afmæli Eggerts sem Sigvaldi Kaldalóns samdi hið alkunna lag sitt við kvæði Eggerts, Ísland ögrum skorið. Þá var Sigvaldi nýstiginn upp úr langvinnum eftirköstum taugaveiki sem hremmdi hann meðan hann gegndi embætti héraðslæknis Nauteyrarhéraðs í innri hluta Ísafjarðardjúps og nálægum sveitum. Hann hafði verið lítt vinnufær árum saman, leitaði meðal annars lækninga í Danmörku, en hafði tekið við læknispóstinum í Flatey á Breiðafirði árið 1926 og hófst þegar handa við að auðga menningarlíf Breiðfirðinga.

Ísland ögrum skorið var frumflutt um hátíðirnar 1926 þegar ný kirkja Flateyinga, sú kirkja sem nú stendur, var vígð. Sigvaldi var stoltur af laginu og taldi sjálfur að mögulega gæti það orðið að nýjum þjóðsöng, enda hefur þeirri hugmynd oft verið hreyft að það gæti orðið forystulag þjóðarinnar í staðinn fyrir þúsund ára ríki smáblómsins sem Matthías og Sveinbjörn létu okkur í té. Mikið var við haft og kom stórsöngvarinn Eggert Stefánsson, bróðir Sigvalda, út í Flatey til að syngja nýju hátíðarlögin. Já, lögin, því hann söng því ekki aðeins Ísland ögrum skorið í fyrsta sinn, heldur einnig í fyrsta sinn lag Sigvalda við kvæði Stefáns frá Hvítadal, Kirkjan ómar öll, einn hátíðlegasta og fallegasta sálm íslenskrar söngsögu. Menningarlegir hátindar risu því hver um annan þveran í Flatey í árslok 1926.

Svefneyingurinn knái

Ástæðan fyrir því að Sigvaldi hafði beint sjónum sínum að kvæði Eggerts var að sjálfsögðu breiðfirskur uppruni höfundarins. Eggert fæddist í Svefneyjum 1726 og ólst þar upp, en var sendur til uppfræðslu í Flatey tíu ára gamall hjá Sigurði Sigurðssyni, sóknarpresti eyjarskeggja, sem var móðurbróðir Eggerts. Næst fór Eggert í læri hjá öðrum móðurbróður sínum, Guðmundi Sigurðssyni, sýslumanni Snæfellinga, sem bjó á Ingjaldshóli. Fimmtán ára gamall taldist Eggert nægilega vel undirbúinn fyrir Skálholtsskóla og þaðan útskrifaðist hann tvítugur að aldri, fór þegar utan til Hafnar í nám og lagði stund á ýmsar greinar, svo sem náttúrufræði og lögfræði en 26 ára hlaut hann styrk til rannsókna á náttúru og landgæðum Íslands og í félagi við Bjarna Pálsson ferðaðist hann um allt land að heita má og safnaði upplýsingum um náttúru, búskaparhætti, lyndiseinkunn íbúanna auk ótalmargs annars. Þeir félagar urðu í ferðinni fyrstir manna til að ganga á merkileg fjöll, svo sem Snæfellsjökul og Heklu, og unnu þar bug á rótgrónum beyg samtíðarfólks síns við að komast nær himinhnöttunum. Raunar höfðu þeir búnað með sér á Snæfellsjökul til að hjálpa sér að anda í þeim ógnarhæðum sem menn ímynduðu sér að tindarnir tveir uppi á gígbarminum væru í. Kannski óþarft að nefna að lítil þörf var fyrir hann þegar á toppinn var komið.

Að rannsóknarferðum loknum 1757 settist Eggert svo við úrvinnslu og voru þeir Bjarni saman í því verki til að byrja með uns Bjarna var veitt nýstofnað embætti landlæknis og settist að í Nesi við Seltjörn. Sat Eggert við ritun ferðabókarinnar fram til ársins 1766 og kom hún síðan út í Danmörku árið 1772. Varð þegar ljóst að hér var grundvallarrit á ferð og bókin fljótlega þýdd á evrópskar höfuðtungur sem helsta uppspretta áreiðanlegra upplýsinga um Ísland og Íslendinga.

Hamingjan brosir

Árið 1767 var Eggert því búinn að skila af sér afrakstri vísindastarfs síns. Þóttist hann nú tilbúinn að ganga hina hefðbundnu embættisog búskaparleið íslenskrar höfðingjastéttar. Hann nældi sér fyrst í embætti, var veitt staða varalögmanns sunnan og austan, en svo heppilega vildi til að bróðir hans, Magnús Ólafsson, gegndi einmitt lögmannsstöðu í sama landshluta. Næst var komið að því finna sér jörð til búskapar og urðu Hofstaðir í Eyja- og Miklaholtshreppi, rétt við Vegamótasjoppuna gömlu, fyrir valinu. Hugsunin var að hann tæki þar við búsforráðum á fardögum vorið 1768 en á meðan hann beið dvaldi hann vetrarlangt í Sauðlauksdal hjá Rannveigu systur sinni og eiginmanni hennar, Birni Halldórssyni, þeim mikla ræktunarforkólfi og sérlegum sendiherra kartöflunnar hér á landi. Þeim sælureit lýsti Eggert í Lysthúskvæði þar sem greint er frá byggingu garðskála í Sauðlauksdal í hverjum ræktuð var mustarðsjurt svo útbúa mætti vestfirskt sinnep.

Síðan fastnaði Eggert sér konu og leitaði ekki langt. Frænka hans frá Ingjaldshóli, Ingibjörg Guðmundsdóttir, varð brúður hans og giftist þau í Sauðlauksdal vorið 1768. Þau ætluðu síðan að sigla yfir Breiðafjörð að Ingjaldshóli með farangur sinn og eigur og halda þaðan til Hofstaða.

Þrútið var loft

Þann 30. maí 1768 lögðu þau Ingibjörg og Eggert frá Rauðasandi ásamt hásetum og fylgdarfólki á tveimur bátum. Þau höfðu farið frá Sauðlauksdal að Saurbæ á Rauðasandi og verið þar við messu og að henni lokinni riðu þau til Keflavíkur þangað sem eigur þeirra höfðu verið fluttar. Allt var borið um borð í áttæringana tvo og var annar þeirra sá stærsti sem til var undir Jökli. Segja heimildir að þar hafi verið mikil verðmæti saman komin, til dæmis voru þar sjaldgæfar og torfengnar bækur, handrit og svo gripir aftan úr fornöld þar sem meintur atgeir Gunnars á Hlíðarenda var áreiðanlega efstur í tignarröð.

Svo mikill var farmurinn að leggja þurfti þverborð yfir borðstokkana aftast á stærri áttæringnum til að hlaða þar upp ullarsekkjum. Veðurútlitið var ekki gott og eitthvað var að búnaði minni bátsins því eftir að siglt var frá Keflavík sneru bátarnir við og lentu að nýju, hjá Skor. Einmitt þar lætur Matthías Jochumsson „gamlan þul“ sitja í kvæði sínu um sorgleg endalok Eggerts og vara við að „ýta úr kaldri skor“. Þaðan sigldu bátarnir svo aftur út á fjörðinn en þá var hann farinn að draga upp á sig í vestrinu og allur að rjúka upp. Leist formanni minni bátsins ekki á þá bliku, sneri við og sigldi aftur til Skorar. Eggert var hins vegar við stjórn á stóra bátnum en með honum Ingibjörg eiginkona hans. Hvað Eggert vildi eða hugsaði veit auðvitað enginn, en í það minnsta þótti honum ekki ástæða til að snúa við. Hann var náttúrlega uppalinn á Breiðafirði og hefur örugglega talið sig þekkja sín heimamið.

Báturinn hvarf svo inn í veðrið og sást aldrei meir. Þar fórst „ættarblóminn mesti“, 42 ára, Ingibjörg Guðmundsdóttir, nýbökuð eiginkona hans, 34 ára, námsmaðurinn Ófeigur Vernharðsson, 24 ára, stúlka sem fylgdi þeim, Valgerður Jónsdóttir, 18 ára auk fjögurra háseta.

Ólafur Ólafsson, Olavius sem sig svo nefndi, gaf árið eftir út minningarljóð um hjónin sem hann kallaði Draumadiktur. Þar er prentuð koparstunga sem Ólafur hafði látið gera í Kaupmannahöfn og sýnir atburðinn á táknrænan hátt. Fjórar konur í íslenskum búningi gráta dauða Ingibjargar en lærdómsgyðjan Mínerva stendur með alvæpni, þess albúin að hjálpa „vin sínum og unnusta“ en fær ekkert að gert því örlög hans eru ráðin en táknmyndir árvekni og spakleiks, hani og ugla, standa að baki lærdómsgyðjunni og merkja eðliskosti Eggerts. En handan lífsins tekur eilífðin við. Á bátsfjalirnar, inn á milli tveggja handa sem standa upp úr sjónum og tákna eiga hendur Eggerts og Ingibjargar, stendur: Mors vita nobis – Í dauðanum lifum við. 

Okkar besti maður
Líf og starf 11. desember 2025

Okkar besti maður

Á næsta ári verða 300 ár liðin frá fæðingu Eggerts Ólafssonar. Þegar við svipleg...

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum
Líf og starf 8. desember 2025

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum

Íslensk blóm gleðja augað. Bæði afskorin blóm og pottaplöntur geta á einn eða an...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 8. desember 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn mun fljótlega upplifa einhvers konar deyfð og myndi helst kjósa að u...

Jólin eru að koma
Líf og starf 5. desember 2025

Jólin eru að koma

Nú fer að líða að hátíð ljóssins og jólasveinanna og því ekki seinna vænna að sk...

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...