Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Dreifing mykju. Máli skiptir hvernig staðið er að dreifingu búfjáráburðar.
Dreifing mykju. Máli skiptir hvernig staðið er að dreifingu búfjáráburðar.
Mynd / Bbl
Líf og starf 7. desember 2021

Mikilvægt að nýta búfjáráburðinn sem best

Höfundur: smh

Blikur eru á lofti varðandi framboð og verð á tilbúnum áburði á næsta ári. Bændur gætu í mörgum tilvikum þurft að sýna útsjónarsemi til að komast hjá sligandi fjárútlátum. Að ýmsu er að hyggja; til dæmis eru áburðaráætlanir taldar nauðsynlegar og svo er mikilvægt að vanda til verka við dreifingu á búfjáráburði.

Næringarefni sem geta nýst til áburðar liggja víða. Samkvæmt nýlegum niðurstöðum Matís úr kortlagningu á magni lífræns hráefnis, sem nota má sem hráefni í áburð, er búfjáráburður langstærsta uppspretta nýtanlegra áburðarefna á Íslandi. Þar kemur fram að hann sé almennt nýttur, en þar séu þó undantekningar. Eiríkur Loftsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, segir að miklu máli skipti einnig hvernig hann sé nýttur.

Eiríkur Loftsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Mynd / Aðsend


Skráning búfjáráburðar nú hluti skýrsluhalds

Eiríkur segir að fram til þessa árs hafi miðlæg skráning á áburðarnotkun ekki verið skylda. „Á þessu ári varð þó slík skráning hluti af jarðræktarskýrsluhaldi. Gögn um notkun á búfjáráburði munu því batna á næstu árum,“ segir hann þegar hann er spurður um hvort einhver gögn séu til um nýtingu búfjáráburðar á Íslandi.

„Einhverjir sauðfjárbændur hafa notað skráningarkerfið í Jörð til að halda utan um áburðarnotkun í tengslum við gæðastýringu í sauðfjárrækt. En ég myndi halda að langstærsti hluti þess búfjáráburðar sem fellur til á húsi á nautgripa- og sauðfjárbúum sé nýttur með einhverjum hætti heima á búinu; á tún, í flög við ræktun og í uppgræðslu. Ég þekki ekki til þess hvernig og hvert svína- og alifuglabú losa sig við skítinn, en í einhverjum mæli er hann nýttur á ræktunarland á búum í nágrenni þeirra,“ segir Eiríkur.

Ýmsir möguleikar í bættri nýtingu

Eiríkur játar því hins vegar að það séu möguleikar í bættri nýtingu á búfjáráburði í mörgum tilvikum en misjafnt sé milli búa í hversu miklum mæli það sé hægt. Eins sé misjafnt hversu miklu þarf að kosta til. „Dreifingartími hefur mikil áhrif á nýtingu næringarefna, þó mestan á nýtingu niturs. Eins hafa aðstæður við dreifingu og aðferðir við hana áhrif á nýtinguna. Þar sem geymslupláss fyrir búfjáráburðinn er takmarkað getur þurft að dreifa hluta búfjáráburðar á óheppilegum tíma. Þar sem gripir liggja við opið eða er gefið úti safnast skíturinn ekki í haugkjallara nema stundum, að litlu leyti, en dreifist í kringum gjafasvæði og á það svæði sem gripirnir hafa aðgang að. Hann nýtist vissulega sem áburður þar og eykur beitaruppskeru en nýtist sennilega sjaldnar sem áburður á tún.

Það getur verið kostnaðarsamt að ná þessum áburði, ef byggja þarf ný hús sem uppfylla eðlilegar kröfur um vinnuaðstöðu.“

Nauðsynlegar áburðaráætlanir

„Það er nauðsynlegt fyrir alla að gera áburðaráætlun með einhverjum hætti, en misjafnt eftir umfangi og gerð búrekstrar hversu nákvæm hún þarf að vera. Nákvæmni áætlana ræðst af þeim upplýsingum sem fyrir liggja, svo sem um gerð jarðvegs, ræktunarsögu, fyrri áburðargjöf og fleira,“ segir Eiríkur og mælir með því að sýni af búfjáráburði sé send í efnagreiningu þar sem það hafi sýnt sig að innihald sé ólíkt milli búa. „Það er mikilvægt að sýni úr mykju séu tekin við dreifingu eftir að hrært hefur verið upp í hauggeymslunni svo það fáist rétt mæling á þurrefnisinnihaldi við dreifingu,“ segir hann.

Eiríkur mælir með því við bændur að allir skoði vel sína möguleika og sínar aðstæður, því þær séu breytilegar milli búa. „Allir ættu hins vegar að reyna að nýta búfjáráburðinn sem best. Þó tilbúinn áburður hækki mega menn ekki spara sér til skaða.

Huga þarf að þáttum sem gera nýtingu áburðar sem besta. Dreifa áburði á góðum tíma, vanda dreifingu og að nota búnað fyrir jaðardreifingu ef hann er í boði. Það ætti að forðast jarðvegsþjöppun með umferð um tún á viðkvæmum tíma og loks má benda á að sýrustig jarðvegs hefur áhrif á nýtingu næringarefna úr áburði og því þarf kalk þar sem sýrustig er of lágt.“

Nýnemar hittust í Grasagarðinum
Líf og starf 16. ágúst 2022

Nýnemar hittust í Grasagarðinum

Þann 28. júní síðastliðinn gafst nýnemum og kennurum Garðyrkjuskólans á Re...

Fjórir áratugir og á nóg eftir
Líf og starf 16. ágúst 2022

Fjórir áratugir og á nóg eftir

Nýlega komst blaðamaður Bændablaðsins á snoðir um Taarup sláttutætara sem var...

Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ
Líf og starf 15. ágúst 2022

Nýjar og gamlar sýningar í Glaumbæ

Félag íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS) og Bændablaðið munu í samstarfi birt...

Einstakt safn á einstökum stað
Líf og starf 12. ágúst 2022

Einstakt safn á einstökum stað

Smámunasafnið er ekki minjasafn, ekki landbúnaðarsafn eða verkfærasafn, búsá...

Stiklað á stóru um sögu SAK
Líf og starf 10. ágúst 2022

Stiklað á stóru um sögu SAK

Í tilefni af 95 ára afmæli Sambands austfirskra kvenna (SAK) er hér stiklað a...

„Við vissum að þetta var draumurinn og létum vaða!“
Líf og starf 29. júlí 2022

„Við vissum að þetta var draumurinn og létum vaða!“

Eftir að hafa alið með sér þann draum að gerast bændur í allmörg ár ákváðu...

Heilbrigð og jákvæð sýn á líkamann
Líf og starf 29. júlí 2022

Heilbrigð og jákvæð sýn á líkamann

Í tískuheiminum þetta sumarið má vart snúa sér í hálfhring án þess að ve...

Hafurinn Þorri í Finnafirði
Líf og starf 20. júlí 2022

Hafurinn Þorri í Finnafirði

Þessi glæsilegi hafur, sem heitir Þorri, á heima á bænum Felli í Finnafirði. ...