Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Verkefni rúningsmanns er afar tæknilegt og Marie Pepple segir að til þess að öðlast góða færni þurfi maður að vera þolinmóður. „Þú þarft líka að búa að seiglu og geta haldið áfram þegar á reynir en um leið að vera alltaf rólegur kringum skepurnar,“ segir Marie, sem lét alíslenska flensu hafa lítil áhrif á sig við vinnu á Gróustöðum.
Verkefni rúningsmanns er afar tæknilegt og Marie Pepple segir að til þess að öðlast góða færni þurfi maður að vera þolinmóður. „Þú þarft líka að búa að seiglu og geta haldið áfram þegar á reynir en um leið að vera alltaf rólegur kringum skepurnar,“ segir Marie, sem lét alíslenska flensu hafa lítil áhrif á sig við vinnu á Gróustöðum.
Mynd / ghp
Líf og starf 21. nóvember 2022

Lifa í ástríðunni

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Heimsmethafarnir Marie Pepple frá Bretlandi og Pauline Bolay frá Kanada eru hér á landi til að lenda í rúningsævintýrum. Tilgangurinn hér er ekki að slá met, heldur að hafa gaman og takast á við íslensku sauðkindina – sem er alls ekkert lamb að leika sér við.

Svo bar við í lok ágústmánaðar síðastliðinn að breskur sauðfjár­bóndi, Marie Pepple, setti heimsmet kvenna í átta tíma löngum rúningi á fullorðnu fé. Hún rúði þá 370 ær sem gerir 1,3 kindur á mínútu. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að Marie hefur vanið komur sínar hingað til lands síðastliðin ár til að rýja fé íslenskra bænda ásamt vinkonu sinni, Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, bónda á Ljótarstöðum í Skaftártungu. Þær voru staddar hér á landi í síðustu viku og með í för var enn annar kvenskörungur, Pauline nokkur Bolay frá Kanada, sem á heimsmet í rúningi á lömbum. Það met sló hún árið 2019 og rúði þá 510 lömb á 8 klukkustundum.

„Okkur fannst tilvalið að hittast einhvers staðar á meðan við gætum enn báðar kallað okkur ríkjandi heimsmethafa,“ segir Marie og ekki seinna vænna því atlögur munu verðar gerðar að heimsmetum þeirra í janúar nk.

Þegar Bændablaðið bar að garði á Gróustöðum í Reykhólasveit voru Marie og Pauline eljusamar í rúningi undir fjörugri tónlist meðan heimamenn aðstoðuðu við rekstur og frágang á ullinni. Þeim taldist til að þær væru að rýja rúmlega 40 kindur á mann á 1,5 klukkustund. Áður höfðu þær verið, í félagi við Heiðu Guðnýju, á suðausturhorni landsins. Þær létu ekki örlitla alíslenska flensu á sig fá, en voru glaðar að fá kaffisopa og heimabakað bananabrauð milli anna.

Þær fara lofsamlegum orðum um íslenska bændur sem þær starfa fyrir. „Þeir færa okkur kaffi og mat og eru svo rausnarlegir. Svo kunna þeir að meta handbrögðin og verkin og eru svo þakklátir.“

Lurkum lamdar eftir íslenskar kindur

Íslenska sauðkindin er ekkert sérstaklega auðveldur skjólstæðingur, samanborið við önnur sauðfjárkyn sem þær stöllur meðhöndla alla jafna. Þær sýna merki þess að vera lurkum lamdar eftir störf sín síðustu daga.

„Íslenskar kindur eru rosalega harðar af sér. Þær hafa auðvitað verið ræktaðar til þess svo þær þrífist við íslenskar aðstæður. Þetta eru ótrúlegar skepnur og ég ber mikla virðingu fyrir þeim. Þær eru krefjandi í meðhöndlun, því þær eru í svo góðu formi, sterkar og þéttar og snarpar. Þær kunna líka virkilega að sparka. Ef kind í Bretlandi myndi sparka á þennan hátt myndi hún bókstaflega fá hjartaáfall og deyja vegna álags,“ segir Marie og hlær.

Í Bretlandi eru yfir 60 búfjárkyn og ber Marie þeim allt aðra sögu. „Sumar kindur sitja bara kyrrar – þú færð ekki á þig eitt högg þótt þú rýir allan daginn. Það væri því eflaust gagnlegt fyrir íslenska rúningsmenn að koma til Bretlands, læra handtök, tækni og fá þjálfun á slíkum kindum áður en þeir beita þeim á þær íslensku.“

Keppnir sem kynna landbúnaðarstörf

Löng hefð er fyrir keppnum í rúningi á sauðfé og nær sú saga aftur í aldir. Menn öttu gjarnan kappi sín á milli á landbúnaðarsýningum og vakti, og vekur enn, ávallt mikla lukku meðal áhorfenda að verða vitni að handbrögðunum.

Í dag eru slíkar keppnir efni í stórviðburði, sér í lagi í Nýja­ Sjálandi og Ástralíu, hvar sauðfé er reglulega rúið allt árið um kring. Því eru þarlendir rúningsmenn oftar en ekki fremstir meðal jafningja þó breskir rúningsmenn hafi verið að vekja nokkra athygli að undanförnu, sbr. árangur Marie. Keppnisflokkar rúnings eru margir; rúið er í átta eða níu klukkutíma í senn, hægt er að keppa í rúningi á kindum með mismunandi ullargerðum, bæði lömb og fullorðið fé og einnig er hægt að keppa sem einstaklingur eða sem keppnislið.

Marie nefnir að keppnir sem þessar séu jákvæð kynning á þessu sérhæfða starfi innan sauðfjárbúskapar. Flestir viti lítið sem ekkert um rúning og með keppnum gefist almenningi tækifæri á að sjá hvernig hann fer fram.

Hér á landi hefur verið keppt í rúningi á sýningum og sértækum landbúnaðarviðburðum gegnum árin. Heiða Guðný segir keppnismenninguna hér í mýflugumynd enda lítil tækifæri fyrir uppbyggingu og þjálfun afreksrúningsmanna, þar sem aðeins er rúið hér í tveimur stuttum skorpum á ári. Fé var ekki rúið að hausti hér á landi fyrr en farið var að einangra fjárhús á níunda áratug síðustu aldar.

Síðastliðin ár hafa íslenskir rúningsmenn þó látið að sér kveða á mótum erlendis og hefur Heiða Guðný til að mynda tekið þátt í tveimur mótum erlendis. Íslandsmeistaramót í rúningi hefur ekki farið hér fram síðan fyrir kóf.

„Við þurfum á því að halda að íslenskir rúningsmenn fari erlendis, læri að rýja og þjálfist í réttum vinnubrögðum, rúningur er ekki eitthvað sem hægt er að læra yfir helgi. Eitt af því skemmtilega við rúning er að það er endalaust hægt að læra, bæta sig og slípa af sér vitleysur. Rúningsmenn sem afla sér góðrar þekkingar úti í hinum stóra rúningsheimi myndu svo verða afar gagnlegir þegar heim væri komið við að miðla þekkingu sinni og reynslu og bæta þannig rúningsmenninguna á Íslandi. Aðstoða og fræða t.d. við val og notkun á kömbum og hnífum. Aukin þekking og bætt vinnubrögð við rúning væru plús bæði fyrir kindina, bóndann, afurðina og rúningsmanninn,“ segir Heiða Guðný.

Mikið álag er á bak rúningsmanna. Pauline notast hér við rúningsrólu til að létta þunganum af bakinu við verkið.

Gæðin skapa orðsporið

Þótt takmarkið í keppnum sé að afgreiða sem flestar kindur skipta gæði handverksins einnig, og ekki síður, máli. Dýravelferð er í forgrunni starfsins. Marie bendir á að rúningur sé nauðsynlegur kindum, ekki eingöngu fyrir vellíðan þeirra heldur einnig til að fyrirbyggja sjúkdóma sem getur herjað á þær ef ullin er ekki fjarlægð.

Vinnulag við rúning er einnig miðað að því að draga úr sskaða skepnuna. Þær Marie og Pauline leggja áherslu á að gæði rúningsins skapi orðspor þeirra og þar með starfsgrundvöll. Slæm vinnubrögð verða fljótt til þess að viðkomandi rúningsmaður fær ekki áframhaldandi verkefni.

En vinna við rúning er í eðli sínu keppni segir Pauline. „Við rýjum vanalega í hópi, erum þrjú til tíu saman í verkum. Þegar við rýjum hlið við hlið allan daginn verður maður ósjálfrátt kappsamur, reynir að afgreiða fleiri kindur en sá næsti.“treitu gripanna eins og kostur er. Tilgangurinn sé að reyna að ná allri ull af fumlaust án þess að Afköstin hafa einnig áhrif á kjörin. Því verðskráin miðar við fjölda, ekki tíma. Kaupið er, að sögn kvennanna, alls ekki slæmt fyrir færa einstaklinga. Því ásamt því að geta ferðast víða, kynnst áhugaverðu fólki um allan heim þá hefur starfsvettvangurinn þann kost að geta gefið vel í aðra hönd.

„Ef þú ert að rýja þetta yfir 200 kindur á dag, þá eru ansi fá störf sem gefa jafngott tímakaup. En fyrir kaupið þarftu hins vegar að leggja mjög mikið á þig,“ segir Marie.

Stund milli stríða hjá vinkonunum á Gróustöðum. Takið eftir fótabúnaðinum sem eru sértækar mokkasíur fyrir rúningsmenn.

Starfið er skiljanlega krefjandi á líkamann. Marie nefnir að það sé nokkuð eðlilegt að vera að rýja í 8 tíma á dag, alla daga, meira og minna í 3–4 mánuði í senn. Enda eru konurnar allar grjótharðar af sér og huga auk þess vel að heilsunni, bæði mataræði og þjálfun líkamans. En fyrst og síðast er mikilvægt að kunna til verks, læra að beita sér rétt og hafa tæknilega þekkingu.

„Eftir því sem þú verður færari í faginu þá lærir þú einnig að takast á við álagið og beita þér þannig að þú farir ekki að þolmörkum líkamans. Þetta verður í reynd auðveldara með tímanum.“

Gott hugarfar er þó sá eigin­ leiki sem þær nefna sem þann mikilvægasta sem góður rúnings­ maður þarf að hafa til brunns að bera. „Verkefnið er afar tæknilegt og þú þarft vera þolinmóð til að þróa færnina. Þú þarft líka að búa að seiglu og geta haldið áfram þegar á reynir en um leið að vera alltaf rólegur kringum skepnurnar,“ segir Marie.

Jafnræði í faginu

Þótt konur séu í hrópandi minnihluta rúningsmanna í heiminum hafa þær lengi sinnt störfunum samhliða körlum.

„Það ríkir jafnræði í faginu, við rýjum við hlið karla bæði í vinnu og keppum gegn þeim. Við njótum sömu virðingar og mætum sama viðhorfi og fáum alveg sömu laun og karlarnir. En það er vegna forvera okkar, kvenna í Nýja­Sjálandi og Ástralíu, sem mættu miklu meira mótlæti en við gerum. Þær ruddu brautina og gerðu það að verkum að við stöndum hér í dag,“ segir Marie.

Pauline býr og starfar í Manitoba­ fylki Kanada. Hún segir sem dæmi að þar starfi tólf rúningsmenn og helmingur þeirra séu konur.

„Þetta er spurning um að hafa úthald og seiglu og ég held að konur geti oft verið harðari af sér hugarfarslega – við erum jafnvel með hærri sársaukaþröskuld,“ segir Marie.

Heima í Kent ferðast Marie um sveitirnar í kring með vinnuaðstöðu sína á kerru sem gerir verkið nokkuð kerfisbundið.

Ólíkir búskaparhættir

Heima í Kent á Bretlandi er Marie sauðfjárbóndi með um 350 ær. Hún hefur fækkað talsvert í hjörðinni undanfarin tvö ár vegna anna við rúning. Hún rekur verktakafyrirtæki kringum starfsemina, ferðast um sveitirnar í kring með vinnuaðstöðuna á kerru. Ekki er óalgengt að hún komi við á 2–3 býlum á dag.

Pauline er alin upp á sauðfjárbúi en stundar engan búskap í dag. Megininnkoma hennar kemur til vegna rúnings í Manitoba í Kanada og hefur hún þar nóg að gera. Hún segist aðallega ferðast út fyrir Kanada í nafni ævintýra.

Íslenskur sauðfjárbúskapur horfir við þeim stöllum sem afar hefðbundinn eða gamalgróinn. Í meginatriðum er búskaparárið öfugt við það sem Marie þekkir. „Hér ganga kindurnar úti yfir sumartímann þannig að bóndinn varla sér þær. Á meðan er búskapurinn afar mannaflsfrekur á veturna, þegar skepnurnar eru inni. Því er eiginlega öfugt farið heima þar sem sumrin og haustin eru álagstímar en veturnir rólegri enda kindurnar úti allt árið um kring.“

Pauline segir að upplag sauðfjárbúskapar í Kanada sé jafn fjölbreytt og bændurnir eru margir. Sauðburðurinn geti átt sér stað á mismunandi tímum árs, um þrír burðir á tveimur árum. Þá fari slátrun fram allan ársins hring. Hægt er að halda tugi ólíkra búfjárkynja eftir áherslum í búskapi og afurðum.

Marie, Heiða og Pauline eftir rúning á Fornustekkum í Hornafirði. Þar rúðu þær 530 kindur og systkinin Bjarni, Skúli og Ásthildur Magnúsarbörn voru til þjónustu reiðubúin og tóku frá þeim ullina allan tímann. Mynd / Jo Dyson

Stoltar að skrifa sig inn í arfleifðina

„Við vorum að ræða innblásturinn í morgun,“ segir Pauline. „Við gerðum örugglega báðar atlögu að heimsmeti því við urðum fyrir áhrifum af forverum okkar. Við vildum láta að okkur kveða, setja okkur stór markmið og höfðum trú á okkur, unnum að þeim af atorku og náðum svo markmiðum okkar.“

Marie segir að þessi afrek veki athygli á faginu sem almennt er ekki á allra vitorði. „Það er frekar svalt að hafa skrifað sig inn í arfleifðina að vissu leyti. Ef við höfum veitt öðrum innblástur þá er það út af fyrir sig ákveðið afrek. Vonandi hefur það góð áhrif á fagið.“

Þær segjast fastlega gera ráð fyrir að heimsmet þeirra verði slegin í janúar á næsta ári og telja það spennandi og jákvætt. Þær eru þó alls ekki af baki dottnar og segjast munu halda áfram að taka þátt í keppnum og áskorunum svo lengi sem þær starfi sem rúningskonur.

„Þetta er ástríða mín. Hún fór með mig í þetta furðulega ferðalag. Ég gæti ekki verið glaðari með að fá að lifa í ástríðunni minni,“ segir Pauline.

Marie segist vonast til að geta haldið áfram að heimsækja Ísland, enda sé hún farin að gera sig afskaplega heimakomna hér ár hvert.

„Ég einfaldlega dýrka Ísland; fólkið, landslagið, gestrisnina, heitu pottana, norðurljósin og rúninginn – enda kann ég að meta áskoranir.“

Skylt efni: rúningur

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...

Viðburðaríkt ár framundan
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp saf...

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný
Líf og starf 3. apríl 2024

Vilja sveitir landsins að iðandi spilamennsku á ný

Sveitir landsmanna iðuðu á árum áður af spilamennsku. Nú er unnið að því að glæð...