Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kraftaskáld, sjómaður, flökkukona og goðsögn
Líf og starf 30. nóvember 2020

Kraftaskáld, sjómaður, flökkukona og goðsögn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bókaútgáfan Hólar hefur endurútgefið bókina Látra-Björg eftir Helga Jónsson frá Þverá í Dalsmynni (1890–1969), en hún kom í fyrra skiptið út árið 1949.

Í formála bókarinnar er haft eftir Birni Ingólfssyni, fyrrum skólastjóra á Grenivík, að þær hafi ekki verið margar konurnar sem stóðu upp úr í fjöldanum ef litið er til fyrri alda. „Þær voru þó til og minningu þeirra þarf að halda á lofti. Sú sem hér er til umfjöllunar var ekki venjuleg kona. Hún storkaði valdinu og lét hvorki háa né lága eiga nokkuð hjá sér, lét aldrei í minni pokann fyrir neinum.“

Dularfyllsti rithöfundur Íslandssögunnar

Í bókinni eru saman komin öll helstu kvæði Látra-Bjargar og um leið skýringar Helga Jónssonar frá Þverá í Dalsmynni og samantekt hans á æviferli hennar, en Helgi var einhver dularfyllsti rithöfundur Íslandssögunnar.
Í sérstökum viðauka er svo að finna Látrabréfið sem líkur eru á að sé eini varðveitti prósatextinn eftir Látra-Björgu, einhver kynngimagnaðasti orðagaldur sem um getur, sagður hafa fundist á skemmuvegg á Látrum árið 1740.

Látur, ysti bær á Látraströnd

Sögusviðið bókarinnar er að stærstum hluta Látur, ysti bær á Látraströnd. Á Látraströnd og í Fjörðum, ystu byggðum Gjögraskaga, sem nú eru löngu farnar í eyði, voru á þessum tíma oft um 200 manns á 20 bæjum. Bærinn á Látrum var samt afskekktur, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða. Þaðan voru 7 km í Grímsnes og 9 km í Keflavík og gat orðið ófært í báðar áttir vikum saman yfir veturinn.

„Lífið byrjaði snemma að sýna Björgu í tvo heimana. Barn að aldri stóð hún uppi ein meðal vandalausra á þessum afskekkta bæ á Látraströnd, skilin eftir og faðir hennar farinn. Hún hafði þá dvalið á þessu heimili með honum í þrjú ár og þekkti heimilisfólkið. Það þekkti hana ekki síður. Einhverjar töggur hefur það séð í þessu níu ára stúlkubarni, annars hefði hún verið send umsvifalaust yfir um fjörð á sína heimasveit. Á Látrum átti hún heima alla tíð síðan þótt hún færi víða á flakki sínu seinni hluta ævinnar enda festist nafn bæjarins við hennar. Látra-Björg.

Björg var ekki af kotungum komin, báðir afar hennar voru prestar og í ættum hennar er að finna stórbændur, presta og sýslumenn. Menntastétt þjóðarinnar. Faðir hennar, Einar Sæmundsson stúdent, var skáld gott en með óeirð í blóðinu og er að sjá að Björg hafi erft hvort tveggja.“

Samtíðarmenn hennar óttuðust hana

Látra-Björg (1716-1784), var kraftaskáld, sjómaður, flökkukona og goðsögn í lifanda lífi og ráðgáta eftir að hún lést á vergangi í móðuharðindunum. Samtíðarmenn hennar óttuðust hana. Með kvæðum sínum var hún sögð geta flutt til fjöll, laðað að sér fisk og deytt menn eða fært þeim gæfu.

Í bókinni segir að Látra-Björg þjóðtrúarinnar hefur verið álitin flökkukona frá upphafi vega. Þessu fer þó mjög fjarri.
„Öll sín þroskaár og, að líkindum, alllangt fram eftir ævi er hún húskona á Látrum og býr þar á sinn hátt. Alla þá tíð stundar hún sjóróðra og letur lítt til stórræða. Hún er svo veiðisæl að varla þykir einleikið. Stundum dregur hún fisk þótt enginn annar á báti hennar verði var. Þessi atvik eru fyrsti vísirinn til þeirrar trúar á fjölkynngi Bjargar, sem verður seinna landfræg í sambandi við vísur hennar.

Fólkið hræðist hana og dáir. Ber margt til þess: Svipur hennar og vöxtur, áræði og aflraunir, orðsnilli hennar og bragkynngi, sem eru hröð með afbrigðum og hitta markið í flughasti. Og síðast en ekki sízt dulargáfa, sem menn ekki skilja, en grunar að eigi sér engin takmörk.

Ráða má af vísum Bjargar, frá búskaparárum hennar, að hún unir hag sínum dável og hefur gnótt matar, sem líklegt er um fjölkunnuga konu. Þegar ekki fæst bein úr sjó, seiðir hún á öngul sinn lúðu, sem er alin fyrir sporð.

Það var einhverju sinni, að róið var með haukalóð á báti Bjargar. Þá var fiskleysi og var róðurinn gerður að áeggjan hennar. Þegar lóðin voru lögð, merkti Björg sér einn öngulinn og kvað:

Sendi drottinn mildur mér
minn á öngul valinn
flyðru þá, sem falleg er,
fyrir sporðinn alin.

Þegar lóðin var dregin inn voru allir önglar berir, nema sá, er Björg merkti sér. Á honum var lúða svo stór, að undrun sætti. Segja Höfðhverfingar, að Björg skipti lúðunni milli skipverja.“

Jólin eru að koma
Líf og starf 5. desember 2025

Jólin eru að koma

Nú fer að líða að hátíð ljóssins og jólasveinanna og því ekki seinna vænna að sk...

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f