„Hestur og knapi“, falleg mynd eftir Sigríði en knapinn er Sigvaldi Lárus Guðmundsson, sem var í Hólaskólaverknámi á Gufuá um tíma, hér á hryssunni Trommu.
„Hestur og knapi“, falleg mynd eftir Sigríði en knapinn er Sigvaldi Lárus Guðmundsson, sem var í Hólaskólaverknámi á Gufuá um tíma, hér á hryssunni Trommu.
Líf og starf 19. febrúar 2021

Dýrin eru í mestu uppáhaldi en getur teiknað og málað hvað sem er

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ég heiti Sigríður og bý ásamt eiginmanni mínum, Benedikt Líndal, og yngsta barni okkar hjóna á jörðinni Gufuá í Borgarfirði. Við höldum þar hross og smávegis af geitum og forystufé og stundum hrossatamningar og þjálfun. Einnig bjóðum við upp á upplifanir fyrir gesti í anda hæglætis (slow travel). Fólk kemur þá til okkar í geitalabb, kíkir á forystufé eða fer í náttúrugöngu með sagnaþul. Þetta er allt hægt að skoða betur inn á vefsíðunni www.gufua.com,“ segir Sigríður Ævarsdóttir á Gufuá í Borgarfirði.

Hún hefur getið sér gott orð fyrir teikningar sínar enda meira en nóg að gera hjá henni að teikna og mála myndir fyrir alls konar fólk, Sigríður hefur sérstaklega gaman af að skapa á blaði myndir sem tengjast dýrum.

Hestar eru í miklu uppáhaldi hjá Sigríði.

Bóndi í 40 ár

„Ég man nú ekki hvenær ég byrjaði að teikna eða mála, það er eitthvað sem ég hef alltaf gert, með hléum þó, þegar ég hef verið upptekin í öðru. Það er bara eitthvað í blóðinu, þetta með að skapa. Verandi bóndi í hartnær 40 ár og lengst af með stórt heimili hefur ekki alltaf verið tími eða aðstaða til að mála. Þá var gott að notast við blýant, lítið mál að draga fram teikniblokkina milli verka og kippa henni svo til hliðar þegar tíminn kláraðist. Verra hefði það verið ef ég hefði verið að mála með olíu eða akrýl, sem þarf tíma, sem ég hafði ekki, til að þorna. Ég á alveg eftir að prófa að mála með svoleiðis litum en fer kannski út í það núna í seinni hálfleik,“ segir Sigríður létt í bragði, aðspurð hvenær hún hafi byrjað að teikna og mála. Þá má geta þess að tveir synir hennar og Benedikts eru rithöfundar (en það eru þeir Ævar Þór og Guðni Líndal) og Sigurjón Líndal er í myndlistarnámi og ekki má gleyma dótturinni, Ingibjörgu Ólöfu, en hún er mjög flink handverkskona, sérstaklega í leir og steinalist.

Lítur ekki á sig listamann

Sigríður hefur ekki farið í mynd­listar­nám annað en þá áfanga sem voru í boði í MH þegar hún var þar í skóla á sínum tíma, enda ætlaði hún hvort eða er aldrei að verða listamaður og hún lítur ekki á sig sem listamann, hún segist bara mála. Það sama á við um ljósmyndun og ýmislegt sem hún skrifar, en hún sé þó hvorki ljósmyndari né rithöfundur.

Kattarmynd að hætti Sigríðar.

Dýrin eru skemmtilegust

Sigríður segist nánast alltaf vera með fyrirmyndir þegar hún er að mála og teikna. Þannig hafi það verið frá því að hún var unglingur.
„Já, dýrin mín eru oftast fyrir­myndir mínar, sérstaklega hest­arnir. Þeir eru náttúrlega mjög skemmtileg og oft ögrandi viðfangsefni en ég get teiknað og málað hvað sem er ef út í það er farið. Dýrin og búskapur eru áhugasvið mitt og mér finnst skemmtilegt að mála dýr og þess vegna mála ég þau. Ég fór að leika mér að mála myndir af forystuhrútunum mínum núna nýlega því þeir eru svo flottir og vígalegir og í framhaldinu prófaði ég að mála, „venjulegar“ kindur. Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað rollur eru flottar fyrirmyndir. Svo er náttúrlega mjög gaman að mála fugla, þó ég hafi ekki gert mikið af því, rétt eins og það er mjög gaman að taka ljósmyndir af þeim og reyndar alveg sérstök „kategoría“ út af fyrir sig að vera góður fuglaljósmyndari,“ segir Sigríður.
„Ef fyrirmyndin er góð skiptir ekki máli hvaða dýr er um að ræða, það sem skiptir mestu, sýnist mér, er að ná karakter dýrsins sem um ræðir og þar finnst mér augun vera aðalatriðið.“

Nauðsynlegt að hafa frið

Sigríður segir að það sé miserfitt eftir myndum að teikna og mála þær, stundum sé hún lengi með myndina en stundum komi það strax. Það fari líka eftir dagsformi hennar, hvort hún sé í stuði þegar hún sest niður og byrjar. Henni finnst líka gott að hafa frið í kringum sig en svo finnst henni líka fínt að hlusta á eitthvað áhugavert á meðan hún er að skapa verkin sín.

Folald á spena hjá mömmu sinni, falleg mynd hjá Sigríði.

Passar vel með búskapnum og ferðaþjónustunni

Í framhaldi af því að Sigríður birti á Facebook-síðunni sinni málaðar myndir af hrútunum sínum, kisum dóttur sinnar og einhverjum hrossum af bænum, hefur fólk verið að biðja hana um að mála myndir af uppáhaldsdýrum sínum, eins og hestum og hundum, sem hún hefur gert með bros á vör.

„Já, já, það er nóg að gera og það passar vel því vegna COVID er rólegt í geitalabbi og lítið í gangi í ferðaþjónustunni, svo ég hef tök á að mála eitthvað fram á vorið og vonandi hafa einhverjir áhuga á að nýta sér það. Ég er reyndar að fara í að myndskreyta bók sem við maðurinn minn erum að byrja að vinna saman og svo að undirbúa sumarið fyrir geitalabb og fleira. Ég er sem sagt að byrja að temja fullt af nýjum, ungum geitum og forystusauði til að hafa í upplifununum næsta sumar, og svo þarf ég náttúrlega að mála þá,“ segir Sigríður og skellir upp úr.

Þegar ástandið er orðið eðlilegt vegna COVID ætlar Sigríður að vera með málaðar myndir af dýrunum sínum og minjagripi til sölu á bænum þegar ferðaþjónustan fer vonandi af stað í vor eða sumar. Þeir sem vilja komast í samband við Sigríði geta gert það í gengum netfangið hennar, harmony@inharmony.is.

Sigríður á Gufuá í Borgarfirði einbeitt við skrifborðið sitt heima í sveitinni að galdra fram eitt af verkum sínum. Hafi fólk áhuga á að fá hana til að vinna verk fyrir sig er best að senda henni tölvupóst á netfangið harmony@inharmony.is

Um 80% af fóðrinu er eigin framleiðsla
Líf og starf 5. mars 2021

Um 80% af fóðrinu er eigin framleiðsla

Svínabúið í Laxárdal II í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er stofnað af hjónunum Herð...

Garðyrkjufræðsla fyrir almenning hjá Endurmenntun LbhÍ
Líf og starf 3. mars 2021

Garðyrkjufræðsla fyrir almenning hjá Endurmenntun LbhÍ

Á Garðyrkjuskólanum á Reyk­jum afla nemendur sér­menntunar í garðyrkju­fræð­um o...

Löggan og umboðsmaður barna í heimsókn í Frístundaklúbb Grímsnes- og Grafningshrepp
Líf og starf 1. mars 2021

Löggan og umboðsmaður barna í heimsókn í Frístundaklúbb Grímsnes- og Grafningshrepp

Lögreglumennirnir Þórunn Þrastardóttir og Árni Guðmundsson frá Lögreglunni á Suð...

Dýrin eru í mestu uppáhaldi en getur teiknað og málað hvað sem er
Líf og starf 19. febrúar 2021

Dýrin eru í mestu uppáhaldi en getur teiknað og málað hvað sem er

„Ég heiti Sigríður og bý ásamt eiginmanni mínum, Benedikt Líndal, og yngsta barn...

Í ríki sveppakóngsins
Líf og starf 15. febrúar 2021

Í ríki sveppakóngsins

Sveppir gegna lykilhlutverki í lífríkinu með því að umbreyta plöntu- og dýra­lei...

Tómatar farnir að streyma á markað úr nýja gróðurhúsinu í Friðheimum
Líf og starf 12. febrúar 2021

Tómatar farnir að streyma á markað úr nýja gróðurhúsinu í Friðheimum

Fyrstu tómatarnir sem ræktaðir voru í nýju gróðurhúsi Friðheima í Reykholti voru...

Íslenskur landbúnaður sagður í kjörstöðu til að endurvinna plast sem til fellur í greininni
Líf og starf 9. febrúar 2021

Íslenskur landbúnaður sagður í kjörstöðu til að endurvinna plast sem til fellur í greininni

Sigurður Halldórsson, stofnandi og framkvæmdastjóri plastendur­vinnslunnar Pure ...

Dýraríkið í máli og myndum
Líf og starf 4. febrúar 2021

Dýraríkið í máli og myndum

Hið íslenska bókmenntafélag hefur sent frá sér bókina Dýraríki eftir Örnólf Thor...