Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Gufuá
Bærinn okkar 26. ágúst 2021

Gufuá

Gufuá er landnámsjörð Rauða-Björns, sem kom til landsins með Skallagrími Kveldúlfssyni sem nam land í Borgarfirði í upphafi landnáms. Jörðin var nefnd Rauðabjarnarstaðir eftir honum en hefur í gegnum tíðina skipt nokkrum sinnum um nöfn en heitir nú eftir ánni sem rennur í gegnum landið. Nokkrum sinnum hefur hún verið í eyði og nú síðustu hálfa öld hafði ekki verið stundaður búskapur þar.

Ábúendurnir Sigríður Ævars­dóttir og Benedikt Líndal ákváðu að kaupa hana fyrir þremur árum, setjast að og hefja búskap. Að Gufuá var áður stundaður hefðbundinn blandaður búskapur með kýr, kindur og hross og hér var rjómabú í upphafi 20. aldarinnar.

Býli:  Gufuá.

Staðsett í sveit: Gufuá er staðsett í Borgarfirði, stutt fyrir norðan Borgarnes.

Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir.

Ábúendur: Ábúendur eru hjónin Sigríður Ævarsdóttir jarðarmóðir og Benedikt Líndal, reiðkennari og tamningameistari, ásamt Sigurjóni Líndal, 17 ára myndlistarnema, yngsta barni okkar af fjórum, Hin eru Ævar Þór, leikari og rithöfundur, Guðni Líndal, leikstjóri og handritshöfundur og Ingibjörg Ólöf, náttúru- og umhverfisfræðingur. Einn hundur er á bænum, tveir kettir og nokkrar hænur auk framantalins bústofns.

Stærð jarðar? Landstærð er um 280 ha allt óræktað land því þau tún sem eitt sinn voru á jörðinni eru löngu orðin eins og hver annar úthagi. Hluta jarðarinnar höfum við tekið undir skógrækt og annar hluti er nýttur í verkefnið Landbúnaður og náttúruvernd í samvinnu við RML. Restin nýtist okkur til beitar.

Gerð bús? Við búum með hross og stundum tamningar og þjálfun ásamt ý.k. þjónustu við hestafólk, s.s. reiðtygjaframleiðslu. Einnig eru á bænum geitur og forystufé, sem nýtist fyrst og fremst í afþreyingarferðaþjónustu sem rekin er á bænum, þar sem boðið er upp á upplifanir í anda hæglætis. Þar er um að ræða göngutúra með geitum, heimsókn í forystufjárhús og vörðugöngur með sagnaþul og hægt að skoða betur á www.gufua.com.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Það er allt búið að vera mjög óhefðbundið hjá okkur síðan við fluttum að Gufuá og ekkert sem heitir hefðbundinn vinnudagur. Síðan við fluttum höfum við verið á fullu við að koma okkur hér fyrir, jafnframt því að skapa okkur lifibrauð og það eru alls konar verkefni sem þarf að leysa. Hér var ekkert þegar við komum svo það er drjúgur tími búinn að fara í ýmislegt sem fólki finnst eðlilegt að sé til staðar þegar það flytur í sveit.

Yfirleitt er farið á fætur milli 7 og 8 og það eru endalaus verkefni. Tek bara daginn í dag sem dæmi: Hrossin tekin og sett á beit í 1 klst. Geiturnar fóru út á beit líka og geitaaðstaðan var þrifin á meðan. Kl.11 komu gestir í geitalabb. Benni hélt áfram að innrétta hnakkageymslu á meðan hrossin voru á beit. Svo voru þau rekin að aftur og hann fór að þjálfa þau. E.h. þurfti að fara í Borgarnes í útréttingar og eftir það fórum við í að stækka bílaplan fyrir vörðugöngurnar okkar svo þar kæmust fyrir rútur og stærri bílar. Country walkers hópur á vegum Iceland Encounter kemur í vörðugöngu á morgun og þá er þetta klárt. Elsti sonurinn kom í heimsókn með sína fjölskyldu í kvöldmat og eftir það var gengið frá skepnum fyrir nóttina.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Yfirleitt finnst okkur allt sem snýr að vinnunni okkar skemmtilegt og erfitt að taka þar eitt fram yfir annað. Það er ánægjulegt að sjá árangur af því sem verið er að vinna að, hvort sem það heitir að rækta hross, temja hesta, græða upp land, planta skógi, varðveita vistgerðir eða annað. Leiðinlegast er ef skepnur misfarast, veikjast eða slasast.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Við sjáum fyrir okkur að við munum áfram vera í því sem við þegar erum að gera, þ.e. þjálfa hross, þjónusta hestafólk, búa til kennsluefni og stunda afþreyingarþjónustu, en að hugsanlega verði eitthvað af börnunum komið inn í það með okkur eftir fimm ár.

Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu íslenskra búvara? Við teljum tækifærin raunverulega vera alls staðar hvað varðar alla búvöruframleiðslu á Íslandi. Við erum með svo hreinar vörur m.v. aðra framleiðendur og eigum að gera út á þá sérstöðu, hvort sem er kjöt, mjólk, grænmeti eða ávextir. Við teljum að það séu mikil ónýtt sóknarfæri í garðyrkju og ylrækt á Íslandi.
Það er hægt að rækta nánast allt sem okkur dettur í hug hér – ekki bara gúrkur, tómata og paprikur í gróðurhúsum. Það þarf að fara að skoða þau mál vel og athuga hvað er hægt að gera varðandi samrækt með fiskeldi á landi.

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Ostur, heimatilbúin kindakæfa, AB-mjólk, lýsi og mjólk er alltaf í ísskápnum.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Vinsælasti maturinn er lambalæri steikt að hætti hússins.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Eftirminnilegasta atvikið var þegar við fluttum íbúðarhúsið hingað að Gufuá, eftir að vera búin að gera veg að bæjarstæðinu og gerðumst landnemar 2017 hér á þessari eyðijörð mitt í blómlegum Borgarfirðinum.

Þverá
Bærinn okkar 13. janúar 2022

Þverá

Daníel Atli er fæddur og uppalinn í Klifshaga í Öxarfirði. Berglind er fædd og u...

Galtastaðir ytri
Bærinn okkar 16. desember 2021

Galtastaðir ytri

Ábúendurnir í Galtastöðum ytri, Stefán Bragi Birgisson og Helga Leifsdóttir, kyn...

Slétta
Bærinn okkar 2. desember 2021

Slétta

Sigurður flytur á Sléttu ásamt foreldrum sínum og systkinum frá Nesi í Loðmundar...

Arnþórsholt
Bærinn okkar 18. nóvember 2021

Arnþórsholt

Jörðin Arnþórsholt hefur verið í eigu og ábúð sömu fjölskyldu síðan 1919 þegar h...

Snartarstaðir
Bærinn okkar 4. nóvember 2021

Snartarstaðir

Jóhann Páll Þorkelsson og Guðrún María Björnsdóttir, ábúendur á Snartarstöðum, f...

Grímsstaðir
Bærinn okkar 21. október 2021

Grímsstaðir

Sama ættin hefur búið á Gríms­stöðum síðan árið 1871 þegar Hannes Guðmundsson og...

Kópareykir
Bærinn okkar 7. október 2021

Kópareykir

Kópareykir er ríkisjörð í sunnanverðum Reykholtsdal. Sama ættin hefur setið jörð...

Litla Brekka  – Kvíaholt
Bærinn okkar 24. september 2021

Litla Brekka – Kvíaholt

Ábúendur Litlu Brekku – Kvíaholts eru Anna Dröfn og Hjörleifur Stefánsson í ekta...