Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Mynd 3. Jafngömul seiði úr Leirvogsá. Efri seiðin eru af svæðinu ofan við fossinn en þau neðri frá svæðinu neðan Tröllafoss. Þyngdarmunurinn er margfaldur.
Mynd 3. Jafngömul seiði úr Leirvogsá. Efri seiðin eru af svæðinu ofan við fossinn en þau neðri frá svæðinu neðan Tröllafoss. Þyngdarmunurinn er margfaldur.
Lesendarýni 8. desember 2023

Veiða – sleppa, er gagn af því?

Höfundur: Jón Kristjánsson, fiskifræðingur.

Eftir enn eitt laxveiðisumarið undir væntingum spyrja menn eðlilega hvað valdi. Ef það er ekki of kalt eða heitt eða of mikið eða of lítið vatn. Nú var hvorki of kalt né heitt eða of mikið eða of lítið vatn og þá eru menn í vandræðum. þá grípa menn til óskilgreinds „ástands“ í hafinu. A

Algengt er þegar þarf að skýra minnkandi laxagengd að kenna um ofveiði, ekki væri nógu mikil hrygning til að halda uppi stofninum. Gripið var til verndunaraðgerða, sem staðið hafa í 10– 20 ár og eru nú að verða allsráðandi: Sleppa veiddum fiskum, mæla þá, halda á þeim eins og ungbarni og taka af þeim myndir.

Menn hafa gengið til veiða alla tíð til að afla sér fanga. Löngum var allur lax drepinn og nýttur til matar en síðustu ár hefur færst í vöxt að menn sleppi fiski sem álpast á öngulinn. Síðustu ár hefur kveðið svo rammt að þessu að í allflestum ám er veiddum fiskum sleppt aftur. Menn eru jafnvel litnir hornauga eða sæta aðkasti ef þeir drepa veiddan fisk. Til þess að framfylgja þessu hafa veiðiréttarhafar bannað annað agn en flugu.

Sumir fiskar særast til dauðs, en til þess að menn séu ekki að gera sér upp þá ástæðu til að drepa og hirða fisk er mönnum víða gert að færa hann í veiðihús til „rannsókna“ eða matnytja fyrir kokkinn.

Mynd 1. Þéttleiki seiða í Þverá, lengd þeirra að hausti og fjöldi veiddra laxa en rúmum þeirra hefur verið sleppt frá árinu 2014 en sleppingar hófust að ráði 2009 Sjá má vöxt allra árganga sl. 10 ár, væntanlega vegna aukins þéttleika, sem rekja má til sleppinga og banns við öðru agni en flugu. Þá hefur veiði verið minni en áður.

Rök sem notuð eru til að mæla með sleppingum

Þeir sem stunda sleppingar segjast gera það í ræktunarskyni, til að efla hrygningarstofninn, að geta veitt fiskana oftar sér til ánægju, eða í auglýsingaskyni, lokka til sín veiðimenn, með því að segja að þeir geti gengið að ánni í vissu um að laxi hafi ekki fækkað.

Á mannamáli heitir þetta hins vegar að kvelja fisk sér til ánægju. Vísindastofnun ríkisins, Hafró, ýtir undir þetta og telur stóran hrygningarstofn vera af hinu góða.

1. Kynbætur

Hafró, og áður Veiðimálastofnun, hefur lengi hvatt til þess að sleppa stórlaxi í þeim tilgangi að efla það sem þeir kalla stórlaxastofninn, fullyrða jafnvel að það sé eitt gen sem stjórni því hvort afkvæmi laxa dvelji eitt eða tvö ár í sjó. Nú er það svo að í ám hrygna allir laxar með öllum. Þá eru kynþroska dverghængar, 6–10 cm að lengd, og veiðimenn kalla afætur, mjög virkir í hrygningunni og feðra stóran hluta hrognanna.

Það að sleppa stórlaxi, og helst smálaxi líka, á ekkert skylt við kynbætur. Ef mönnum væri virkilega alvara myndu þeir krefjast þess að allur smálax yrði drepinn með öllum ráðum svo hann tímgaðist ekki og næði að koma sínum eiginleikum áfram til seiðanna. Önnur nálgun er ekki í samræmi við þekkta erfðafræði. Í kynbótum er notað 1% af þeim æskilegu til áframeldis, restinni er slátrað.

2. Stórlax, smálax og erfðafræði

Ráðlegging fræðimanna ríkisins var að sleppa skyldi öllum stórlaxi. Fullyrtu þeir að það myndi leiða til aukningar stórra laxa, sem dvalið hefði2árísjóogsögðuaðsá eiginleiki væri erfðabundinn og nýlega hnykktu þeir á því og sögðu að eiginleikinn stjórnaðist af einu geni, sem hefði mismunandi áhrif á hænga og hrygnur. Þess vegna væri meirihluti stórlaxa hrygnur.

Stórlöxum fækkar snögglega í veiði um 1980. Það er of stuttur tími til þess að það geti stafað af erfðabreytingu og verður að leita annarra skýringa, sem enn eru ófundnar. Vitað er að dánartíðni í sjó og almenn vaxtarskilyrði hafa áhrif þannig að ef lífslíkur versna þá kemur laxinn fyrr heim, hlutfall smálaxa vex. Fjöldi veiddra smálaxa nú er svipaður og hann var 1995 þrátt fyrir að stórlaxar fá meira tækifæri til að tvíveiðast því þeim er öllum sleppt. Sleppingar stórlaxa virðast ekki hafa tilætluð áhrif svo segja má að afar lítill, ef nokkur, árangur hefur orðið af þessum „kynbótum“.

3. Er þörf á aukinni hrygningu?

Þetta er lykilspurning sem svara þarf. Þarf að stækka hrygningarstofninn og er það af hinu góða?

Fyrsta spurning sem þarf að svara er hvort vanti seiði. Seiðafjöldi er metinn þannig að tekin eru sýni með sk. rafveiðum, sem byggist á að seiðin eru lömuð tímabundið með rafmagni og háfuð upp.

Til eru samfelldar mælingar á þéttleika (fjölda á flatareiningu) seiða af hinum ýmsu árgöngum og stærð þeirra að hausti í mörgum ám landsins og ná oft yfir 20–30 ára tímabil. Hvaða upplýsingar er þar að finna?

Rýni gagnanna sýnir að seiði sem klekjast á vorin ná um 4 cm lengd að hausti, eins árs seiði eru 6–7 cm að hausti og 2 ára seiði eru 8–9 cm. Skiptir þé ekki máli á hvaða landsvæði árnar eru. Sem dæmi má nefna Þverá í Borgarfirði. Þar hefur miklum hluta veiddra laxa verið sleppt og þéttleiki allra árganga verið að aukast frá 2010 en á sama tíma fór að draga úr vexti árganganna. Með auknum fjölda seiða dregur úr vexti þeirra vegna samkeppni um takmarkaða fæðu og framleiðsla árinnar dregst saman. Þarna er kominn enn einn þáttur sem getur dregið úr laxagengd, nokkuð sem er þvert á ætlan forgangsmannanna.

4. Rannsóknir og tilraunir í Leirvogsá

Mínar rannsóknir í Leirvogsá sýna að seiði ársins á fiskgenga hluta árinnar vaxa ekkert frá enduðum ágúst fram til loka maí árið eftir. Væntanlega vegna þess að þegar líður að hausti er allur matur upp étinn. Afföll að vetri eru gríðarleg því seiðin eru illa undirbúin fyrir veturinn. Rafveiðar í júní sl. sýndu að afföll seiða sem í fyrra voru sumrungar (0 +, klak sumarsins) og eru núna ársgömul voru gríðarleg fyrir neðan Tröllafoss, þar sem hrygning var í yfirmagni, en ofan fossins, þar sem hrygningarstofn var hæfilegur, voru afföll miklu minni og þar voru mun fleiri ársgömul seiði á flatareiningu ári seinna en neðan Tröllafoss, þó þar hafi verið margfalt fleiri og smærri seiði haustið áður.

Vöxtur seiða í Leirvogsá

Svæðið fyrir ofan Tröllafoss er ófiskgengt, en þar hefur verið sleppt hrygningalaxi í þéttleika 2-3 hrygnur/ km.

Fyrir neðan fossinn er þéttleikinn mun meiri, 15-20 hrygnur/km. Vöxtur ofan Trölla er miklu betri. Neðan Tröllafoss voru 0 + seiðin 3,6 cm að lengd í lok september 2022 en í maí 2023 voru þau 4,1 cm, en ofan við fossinn 5,3 cm að meðaltali. Þyngdarmunurinn er um þrefaldur.

Verkefnið heldur áfram og betur verður fylgst með vexti, útbreiðslu og þéttleika. Haustið 2022 var sleppt 11 hrygnum og 14 hængum á svæðið. Veiðireglur hafa verið rýmkaðar, frá flugu eingöngu og sleppa öllu í að leyfa maðk og afnema sleppiskyldu.

Mynd 2. Vöxtur árganga laxaseiða í Leirvogsá. Heilar línur sýna seiðavöxt neðan við Tröllafoss, en punktalínur vöxt seiða ofan við Tröllafoss. Rauða línan sýnir lengd sumargamalla seiða neðan við Tröllafoss, þar sem hrygning er óhamin (um 20 hrygnur/km). Rauða punktalínan sýnir lengd jafn gamalla seiða ofan við Tröllafoss þar sem hrygning er takmörkuð við 3 hrygnur á kílómetra. Sama á við um eins og tveggja ára seiði, grænu og bláu punktalínurnar.

5. Eykst veiði í ánum vegna sleppinga?

Ekki er hlaupið að því að fá gögn um það en sjálfur stundaði ég merkingar á laxi í Haffjarðará árin 1999–2013. Laxar voru merktir snemma á veiðitímabilinu og endurheimtur þeirra skráðar.

Alls voru 1.115 laxar merktir, 166 veiddust aftur og meðal endurheimtur því 15%, en það er auðvitað lágmarks áætlun því menn taka ekki alltaf eftir merkjum. Mesta endurheimtan var 2003, eða 30%. Ljóst er að tvíveiðar á fiski geta hækkað veiðitölur talsvert.

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar
Lesendarýni 1. mars 2024

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar

Þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu að dregnar eru upp sviðsmyndir sem í eð...

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...

Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor...

Gerist ekkert hjá VG?
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áf...

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
Lesendarýni 19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Nú þurfum við ekki lengur að aka á negldum vetrardekkjum til að tryggja öryggi o...

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera...

Eru auðlindir Íslands til sölu?
Lesendarýni 14. febrúar 2024

Eru auðlindir Íslands til sölu?

„Ef virkjað verður meira mun rafmagnið seljast upp. Það verður alltaf umfram eft...