Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Tillaga um jarðalánasjóð
Mynd / ghp
Lesendarýni 6. nóvember 2023

Tillaga um jarðalánasjóð

Höfundur: Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka 2.

Ég legg hér með fram tillögu sem miðar að því að stórlækka fjármagnskostnað og afborganir lána í landbúnaði.

Hún eykur einnig möguleika á aðilaskiptum á bújörðum, stuðlar að því að bújarðir haldist í rekstri og stuðlar að framþróun í byggðum landsins.
Landbúnaður er ákaflega fjármagnsfrek atvinnugrein miðað við veltu og afkomu og fáar atvinnugreinar eru sambærilegar. Mikið land er oftast undir, dýrar byggingar, bústofn, tæki og tól.

Elvar Eyvindsson.

Eðli atvinnugreinarinnar er þannig að það tekur langan tíma að rækta jörð og bústofn og til að ná árangri þarf fólk að helga þessu starfi stóran hluta starfsævinnar. Þrátt fyrir að vinnuaðstæður verði sífellt betri er enn þá nauðsynlegt að geta tekist á við langa vinnudaga og erfiðisvinnu í bland. Þess vegna er nauðsynlegt að hefja búskap á besta aldri og yfirleitt er það áður en fólk hefur komið sér upp eignum eða eigin fé. Þannig að kynslóðin sem tekur við keflinu á hverjum tíma á yfirleitt ekki miklar eignir til að setja í þá geysilegu fjárfestingu sem þarf. Segja má að þegar fólk þarf að komast í búskap þá er það ekki nógu efnað og þegar efnahagurinn er orðinn nægilega góður, er áhuginn og getan farin að dvína. Þetta er afgerandi sérstaða sem varla þekkist í öðrum atvinnugreinum.

Vextir og afborganir lána eru að sliga marga bændur og blasir atgervisflótti við og hrun ef ekkert verður að gert.
Landbúnaðarlán eru að langmestu leyti fasteignatryggð til 15-25 ára og svo skemmri lán vegna vélakaupa til dæmis.
Eðlilegt er að lánstími tengist endingartíma viðkomandi veðs og er því eðlilegt að vélalánin séu til 5-7 ára. Lán vegna nýbygginga ættu að geta verið til 15-30 ára.

En það sem ég ætla að ræða er landið sjálft sem er undir. Landið sem bóndinn notar eyðist ekki og mölur og ryð fá því ekki grandað og er það því eitthvert besta veð sem hægt er að bjóða.
Það að hver kynslóð skuli þurfa að brjótast í gegnum afborganir af því á tiltölulega fáum árum með hæstu vöxtum, er ekki rökrétt eða eðlilegt.

Tillagan er því þessi:

  • Stofnaður verði Jarðalánasjóður með bakstuðningi ríkisins. Sjóðurinn láni út á bújarðir á 1. veðrétti. Lánin yrðu veitt samkvæmt reiknireglu sem þarf að semja, sem miðast við landþörf viðkomandi bús. Þessi lán væru með mjög lágum vöxtum (1% verðtryggð) og væri ekki gerð krafa um afborganir en vextir innheimtir. Menn mættu hins vegar greiða lánin upp eftir ástæðum.
  • Sjóðurinn fjármagni sig á markaði með skuldabréfaútboðum.
  • Ríkið taki á sig mismuninn á þeim vöxtum sem bændum væri gert að greiða og þeim vöxtum sem sjóðnum stendur til boða.

Með því að þessi sjóður væri kominn með fyrsta veðrétt í landi, þyrftu aðrir sem lána til framkvæmda, til dæmis, að sætta sig við annan veðrétt. Það ætti í raun ekki að skipta máli, nema að það yrðu þá að vera enn vandaðri rekstrarforsendur. Ef til kæmi að búskapur færi í þrot mundi ferlið ganga eðlilega fyrir sig og það eina sem gerist er að landið hefur verið tekið út fyrir sviga.

Upphæð lána þyrfti að taka einhvers konar mið af markaðsverði lands og væri ekki óeðlilegt að upphæðin væri a.m.k. 500.000 á hektara til að byrja með. Með þessu móti væri hægt að gjörbreyta aðstöðu margra eða flestra bænda.

Kostir:

  1. Verulega auðveldari ættliðaskipti og/eða sala
  2. Stórlega lækkaður rekstrarkostnaður til framtíðar
  3. Hægt að ráðast í hagkvæmar framkvæmdir fyrr
  4. Stuðningur við ýmsar greinar landbúnaðarins verður jafnari og sanngjarnari (ég reikna með að allar greinar landbúnaðar geti notið ef þær nota land undir sinn rekstur)
  5. Betri nýting á stuðningi ríkisins en augljóst er að ríkið (og svona sjóður) fær mun betri vaxtakjör á markaði en einstakir bændur. Því er um mikinn stuðning að ræða sem kostar lítið. Á bak við lánið stendur landbúnaðarland, sem ætti að geta talist öruggt veð.
  6. Einnig má nefna það að svona kerfi mundi styðja við vilja Íslendinga um að halda yfirráðum yfir eigin landi.

Til að leika sér með tölur þá má setja upp dæmi þar sem 2.000 bújarðir með 200 hektara land að meðaltali fengju svona lán. Heildarupphæðin væri 200 milljarðar, en til að setja í samhengi, þá eru hreinar eignir lífeyrissjóðanna vel yfir 7.000 milljarðar. Þetta er því ekki óyfirstíganlegt.

Það er ljóst að til að vel takist til þarf að vanda vel til verka. Til dæmis þarf að koma hlutum þannig fyrir að lækkaðir vextir og greiðslubyrði komi ekki beint til hækkunar á söluverði jarða og fari þannig beina leið aftur út úr greininni til þeirra sem selja. Þetta er hægt að gera með ströngum skilyrðum og kvöðum um búskap á viðkomandi jörðum.

Engu að síður er líklegt að almennt verð á landi muni fara hækkandi fremur en hitt og er eðlilegt að taka tillit til slíks.
Ég vona að þessi pistill hreyfi við málefnalegri umræðu um þessi mál og að þetta verði rannsakað til hlítar og framkvæmt.

Elvar Eyvindsson,
bóndi á Skíðbakka 2.

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar
Lesendarýni 1. mars 2024

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar

Þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu að dregnar eru upp sviðsmyndir sem í eð...

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...

Mikil er trú þín, Ragnar
Lesendarýni 22. febrúar 2024

Mikil er trú þín, Ragnar

Í Bændablaðinu þann 8. febrúar sl. birtist grein eftir Ragnar Árnason, prófessor...

Gerist ekkert hjá VG?
Lesendarýni 20. febrúar 2024

Gerist ekkert hjá VG?

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áf...

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!
Lesendarýni 19. febrúar 2024

Hæ, öll, bestu vetrardekkin eru ónegld!

Nú þurfum við ekki lengur að aka á negldum vetrardekkjum til að tryggja öryggi o...

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt
Lesendarýni 16. febrúar 2024

Greiðslumarkskerfið er kúabændum hagfellt

Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið 2016, kom ég að því verki ásamt öðrum að gera...

Eru auðlindir Íslands til sölu?
Lesendarýni 14. febrúar 2024

Eru auðlindir Íslands til sölu?

„Ef virkjað verður meira mun rafmagnið seljast upp. Það verður alltaf umfram eft...