Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Takið út úr ykkur snuðið
Lesendarýni 4. janúar 2016

Takið út úr ykkur snuðið

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir
Ég var á aukafundi Landssamtaka sauðfjárbænda um daginn, þar sem forysta LS og BÍ bauðst til að ræða við okkur um meginlínur sem samningsaðilar hafa náð saman um við gerð nýs sauðfjársamnings. Það málefni og önnur því tengd verða efni þessarar greinar, sem er hin þriðja í greinaflokknum Hefjum tösku hátt á loft. 
 
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra hefur á sinni valdatíð boðað breytingar á stuðningskerfi landbúnaðarins. Og ýmsir hafa sungið eftir sömu söngskrá. Því er haldið fram að kerfið hafi gengið sér til húðar, það þjóni ekki markmiðum sínum og að miklar breytingar hafi orðið í umhverfi landbúnaðarins. 
 
Lengi hefur það reyndar verið svo að þegar rætt er digrum rómi um málefni landbúnaðarins, er verið að tala um málefni mjólkurframleiðenda. Þar hefur Sigurður Ingi ekki brugðið settum vana og bændaforystan ekki heldur. Á fundinum um daginn voru kynntar og ræddar hugmyndir um stórfelldar breytingar á aðbúnaði sauðfjárræktarinnar, breytingar sem byggja alfarið á þeim forsendum sem ríkja í mjólkurframleiðslu. 
 
Rammi sauðfjárræktarinnar er allur annar en í nautgriparæktinni nú um stundir og staða þessara greina er í raun gerólík. Kvótaverð í sauðfjárrækt hefur ekki farið upp úr öllu valdi eins og í mjólkurframleiðslu, fækkun framleiðenda og stækkun búa ekki heldur. Ekki hefur verið skortur á framleiðsluvörum sauðfjárbænda eins og komið hefur fyrir í nautgriparæktinni. Sauðfjárafurðir hafa lengi verið seldar á frjálsum markaði án allrar verðstýringar, ólíkt því sem gerist með mjólk. Þessi kerfi eiga fátt sameiginlegt annað en sameiginlega fortíð. 
 
Samt er það boðað að rammanum um sauðfjárræktina þurfi að henda, hann sé svo gallaður. Til stuðnings þeim málflutningi er kynnt skýrsla frá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar sem ekkert kemur fram sem réttlætt getur stórfelldan viðsnúning í allri tilhögun stuðningsins við sauðfjárræktina í landinu. Vífill Karlsson, sem kynnti skýrslu RHA á LS-fundinum, nefndi í framhjáhlaupi að alls óvíst sé að WTO samþykkti það fyrirkomulag sem nú er í farvatninu. Og af hverju skyldi það nú vera?
 
Tillögurnar sem okkur voru kynntar, ganga út á þetta: 
(% skipting heildarstuðnings)
  • Að beinar greiðslur til bænda fari úr 51% niður í núll (takmörkuð framleiðslutenging).
  • Að gæðastýringargreiðslur fari úr 35% í 54% (alfarið framleiðslutengt).
  • Að gripagreiðslur verði teknar upp og nemi 32% (mjög framleiðslutengt).
  • Að ullarnýtingargreiðslur verði óbreyttar 9% (alfarið framleiðslutengt).
  • Að stuðningur til annarra verkefna verði 5% (ekki framleiðslutengt).
  • Að við eigum að finna frábæra markaði innan lands og utan og auka þannig virði afurða. (Þó ótrúlegt megi virðast eru samningamenn okkar með munninn fullan af þessari margtuggnu dúsu).
  • Að við eigum að rækta skóg í sjálfboðavinnu.
  • Að við eigum að fá Landgræðsluna eða Náttúrufræðistofnun til að fylgjast með því hvort við séum að eyðileggja land.
 
Hver einasti meðalauli sem setið hefur sæmilegan fyrirlestur um einföldustu lögmál hagfræðinnar (þeirrar merku fræðigreinar) ætti að sjá að kerfi eftir þessari uppskrift yrði mjög markaðstruflandi, sem er eitur í beinum WTO. Núverandi stuðningskerfi er sniðið til að standast skilyrði þessara blessuðu alþjóðasamninga og án þeirra getum við víst ekki stundað útflutning. Hvernig aukum við virði afurða með útflutningi um leið og tekin er áhætta á að erlendir markaðir hreinlega loki á okkur?
 
Kerfi sem þetta gerði ekkert annað en að valda offramleiðslu og bjóða heim hættu á stjórnlausum fjárfjölda og ofbeit. Ráðið við því á greinilega að vera að færa Landgræðslunni eða öðrum stofnunum hins opinbera allt vald til að ráða því hvar er hægt að búa og hvar ekki. Hvar hefur verið ákveðið að fara þá leið? Og svaraðu nú  Sigurður Ingi! Hefur það verið ákveðið á Alþingi? Hefur það verið ákveðið á Búnaðarþingi? Hefur það verið ákveðið hjá Landssamtökum sauðfjárbænda? Hefur það verið ákveðið á flokksþingi Framsóknarflokksins? Verði niðurstaðan eitthvað í líkingu við þær tillögur sem okkur voru kynntar, mun þetta gerast, hvort sem menn hafa ætlað sér það eða ekki. 
 
Helstu gallar núverandi kerfis
eru taldir þessir:
 
A) Það er dýrt að byrja að búa.
B) Það er lítið upp úr sauðfjár-
     búskap að hafa. 
C) Kvóti eigngerist og aðeins 
     bankarnir græða.
 
Ekkert nýtt landbúnaðarkerfi mun koma til með að breyta staðreyndum A og B, séu þær lagðar saman. Það er alltaf dýrara að kaupa ábatasamt fyrirtæki en venjulegan taprekstur, alveg sama á hverju ábatinn byggist.
 
Það að kvóti eigngerist er óhjákvæmilegt og myndar ákveðinn sveigjanleika í kerfinu, því menn geta miðlað honum milli búa með viðskiptum. Einu sinni taldist það mikill kostur. Allur annar stuðningur mundi eigngerast hvort sem er, samanber fyrri efnisgrein. 
 
Og ég get ekki séð hvernig allt hið kapitaliska hagkerfi heimsins á að stjórnast af stuðningskerfi sauðfjárræktar hér úti á Íslandi. Bankarnir munu halda áfram að hagnast á venjulegu fólki, alveg sama hvað. 
 
Samningamenn sauðfjárbænda, Sindri, Einar og Þórarinn. Takið út úr ykkur snuðið og horfist í augu við staðreyndir. Þið mætið til fundar, nestaðir samþykktum tillögum frá ykkar félagasamtökum.  Ríkið kallar fram gengi hákarla úr undirdjúpum ráðuneytisins. Þeir vísa hugmyndum bænda strax út fyrir sjóndeildarhringinn og segist vilja taka upp greiðslur út á ræktað land. (Sem núverandi kynslóð hagfræðimenntaðra sætabrauðsdrengja hefur haldið á lofti sem flottu frá útlöndum). Gallinn við þá tilhögun er sá að þannig fengju allir landeigendur frían aðgang að því sem okkur sveitafólkinu er ætlað. Við höfum ekki séð neina viðleitni frá stjórnvöldum til að lögleiða búsetuskyldu af nokkru tagi, en það hlýtur að vera forsenda kerfis sem styður landeigendur EF ÆTLUNIN ER AÐ STUÐNINGURINN SKILI SÉR TIL BYGGÐANNA ÚT UM LAND.
 
Nýjasta nýtt á vegum ríkisstjórnarinnar er áætlun um árangur í loftslagsmálum. Menn telja sig hafa sýnt fram á að framræsla sé ofarlega á blaði yfir losunarvalda gróðurhúsalofttegunda, svo það skyti ansi skökku við að egna fólk til aukinnar ræktunar (á bara eitthverju) um leið og markmið eru sett um endurheimt votlendis og að draga úr losun. 
 
Nei, hákarlarnir úr ráðuneytinu ætluðu aldrei að ræða stuðning út á land. Þeir ætluðu að hræða samningamenn okkar til að tala um hvað sem var annað en það sem bændur lögðu upp með í þessum samningaviðræðum. 
 
Með þessari samningatækni kemur glögglega fram hvað þeir sem handan borðsins sitja, þeir sem véla um okkar mál, fyrirlíta okkur innilega. Og að þetta fólk (nú tala ég um bæði bændaforystuna og samninganefnd ríkisins) skuli leyfa sér að leggja til aukið vægi gæðastýringar, undir handleiðslu Landgræðslunnar eða Náttúrufræðistofnunar, á sama tíma og allur þessi mannskapur veit fullvel að á þeim vígstöðvum geisar styrjöld sem enginn sér fyrir endann á. Þar á ríkið mesta sök með því að hanga á sinni ónýtu og ólöglegu reglugerð (um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu) og bótin sem á hana var klesst mun líklegast reynast verri en gatið. 
 
Verði niðurstaða sauðfjársamnings eitthvað í líkingu við þær tillögur sem okkur voru kynntar, verðum við hrakin út af afréttunum. Innstu koppar í búri Landgræðslunnar halda því fram að það sé smámál, þetta séu átta afréttir sem tekist sé á um og einhverjir 50 bændur sem þurfi að losna við. Líf þeirra skipti engu máli, þeir séu svo fáir. 
 
50 fjölskyldur. Er það ekki fjöldinn sem hið opinbera treystir sér til að taka við úr hópi milljóna flóttamanna utan úr heimi? Eða voru það bara 50 manns?
 
Sigríður Jónsdóttir,
sauðfjárbóndi, Arnarholti. 
Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...