Þegar dýr drepst geta góð ráð verið dýr. Sum sveitarfélög eru með það fyrirkomulag að staðsettir eru svokallaðir hrægámar á vel völdum stöðum um sveitina. Hér er mynd af einum slíkum.
Þegar dýr drepst geta góð ráð verið dýr. Sum sveitarfélög eru með það fyrirkomulag að staðsettir eru svokallaðir hrægámar á vel völdum stöðum um sveitina. Hér er mynd af einum slíkum.
Mynd / ÁL
Lesendarýni 19. maí 2023

Sjálfdauð kýr

Höfundur: Vaka Sigurðardóttir, formaður eyfirskra kúabænda

Það er órjúfanlegur hluti búskapar að skepnur drepist heima á bæjum, eins sorglegt og það getur verið. Og hvað á þá að gera við skepnuna? Hér áður fyrr var grafin hola í jörð og skepnan urðuð. Það er langt síðan það var bannað, enda ekki forsvaranlegt að dysja hræ hingað og þangað með tilheyrandi áhættu fyrir umhverfi og heilsu dýra og manna.

Vaka Sigurðardóttir.

Þegar kýr drepst geta góð ráð verið dýr. Sum sveitarfélög eru með það fyrirkomulag að staðsettir eru svokallaðir hrægámar á vel völdum stöðum um sveitina. Önnur eru með hræbíl sem fer á milli bæja þegar þörf er á. Gjöldin sem sveitarfélögin taka fyrir þetta ómak eru misjöfn milli staða og fara til dæmis eftir vegalengdum og söfnunartækni. Sveitarfélögum er skylt að innheimta því sem næst raunkostnað við meðhöndlun úrgangs með innleiðingu nýrra hringrásarlaga, og því viðbúið að kostnaður vegna förgunar dýrahræja muni aukast fyrir bændur.

Í mínu tilfelli fer kýrin bara í gáminn, og málið dautt. Ja, sko ekki alveg, hún endar nefnilega í holu með öðrum sjálfdauðum skepnum í Stekkjarvík. EFTA dómur hefur fallið á íslenska ríkið fyrir að urðun hræja viðgengst og fyrir að hafa ekki komið á viðeigandi kerfi til að safna og meðhöndla dýrahræ á löglegan máta.

Við virðumst hafa tapað heyrn og höldum bara áfram uppteknum hætti, sem er í raun óskiljanlegt. Í tilfelli kýrinnar sem drapst heima á bæ og mátti réttilega ekki fara í holu þar, fer hún í gám sem keyrður er að annarri holu sem er jafn ólöglegt að urða hana í, og bóndinn er neyddur til að borga brúsann. Bóndinn sem vildi aðeins koma hræinu frá sér á sem ábyrgastan hátt er allt í einu staddur í hringleikahúsi fáránleikans.

Hvernig er hægt að komast út úr þessari vitleysu? Hvað er til ráða?

Ég sem bóndi myndi helst vilja sjá hringrásarkerfið að störfum og koma hræjunum sem til falla í vinnslu. Oft er bent á að eini löglegi farvegurinn fyrir þennan lífræna úrgang sé brennsla, en eins og kemur fram í nýlegu minnisblaði Environice um meðhöndlun dýraleifa er brennsla ekki eina löglega leiðin fyrir þennan úrgang. Brennsla dýraleifa er orkufrek vegna þess hve mikið vatn er í hræjum, það þarf því að brenna annað efni með hræjunum eða nota mikið magn olíu til brennslunnar. Annar möguleiki er að vinna dýrahræin þannig að þau fari í gegnum þrýstisæfingu, fitan er pressuð úr þeim og eftir er kjötmjöl sem er þurrkað. Bæði fitan og mjölið nýtast sem orkugjafar, eftirspurn eftir hráfitu hefur aukist með orkukreppunni í Evrópu þar sem hún er unnin áfram í lífdísil.

Dýrahræ falla að mestu undir CAT1 flokk dýraafurða, sem er áhættuúrgangur eða dýraleifar sem eru óhæfar til manneldis. CAT1 dýraleifar eru skrokkar sem grunur leikur á að séu með, eða eru með, staðfest riðusmit, heili og mænuvefur úr jórturdýrum (sláturúrgangur) og öll sjálfdauð jórturdýr eldri en 12 mánaða.

Dauð gæludýr falla einnig undir CAT1 úrgang. Undir CAT2 falla t.d. dauð hross og annað sem ekki fellur undir CAT1 eða CAT3. Undir CAT3 falla dýraleifar sem eru í raun hæfar til manneldis en nýtast ekki þannig af menningarlegum og viðskiptalegum ástæðum; t.d. júgur, lungu, bein og tólg.

Úrgangur sem fellur undir CAT3 er verðmætastur dýraleifa þar sem hægt er að vinna hann áfram í gæludýrafóður eða moltu til uppgræðslu, svo eitthvað sé nefnt. Efni sem fellur undir CAT2 er hægt að nota áfram í lífgasframleiðslu og sem jarðvegsbæti, Mesti og stærsti vandinn tengist erfiðasta úrgangsflokkinum; CAT1, sem hefur hingað til að mestu leyti verið urðaður, sem er ólöglegt og í raun galið með tilliti til lýðheilsu og smitvarna. Það sem hefur ekki verið urðað er sent í einu brennsluna á landinu, sem bilar reglulega, og getur ekki talist vistvænasta leiðin til að losna við úrganginn.

Hvar stendur þá hnífurinn í kúnni?

Eins og stundum verður þá bendir hver á annan þegar leitað er lausna á þessu stóra vandamáli sem söfnun og meðhöndlun á dýrahræjum og öðrum úrgangi sem fellur undir CAT1 er. Það er ekki á færi sveitarfélaganna einna saman að leysa þessi mál hver í sínu horni, það er flókið og óhagkvæmt. Meðhöndlun þessa úrgangs krefst vandaðs og samhæfðs verklags og það færi sennilega best á því að það ráðuneyti sem hefur þessi mál á sinni könnu gangist við ábyrgð sinni og styðji við að söfnun og meðhöndlun á dýraleifum verði komið á á landsvísu. Til þess að koma þessum málum í horf þarf innviði; vinnslulínu fyrir CAT1 úrgang. Í nágrannalöndum okkar er 1-2 slíkar vinnslulínur í hverju landi, og því ekki ómögulegt að ætla að ein slík lína muni duga fyrir Ísland allt.

Samband sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) ásamt Vistorku hafa látið gera mjög áhugaverða skýrslu um líforkuver í Eyjafirði, þar sem gert er ráð fyrir vinnslulínu sem tekið gæti á móti CAT1 úrgangi af svæðinu. Ef söfnun væri komið á gæti líforkuverið tekið við dýrahræjum af enn stærra svæði, jafnvel öllu landinu og unnið hræin á ábyrgan, löglegan og hagkvæman hátt. Línan fyrir CAT1 úrgang væri fyrsta skrefið af fleirum í uppbyggingu líforkuvers, en m.a. er litið til metanvinnslu sem bændur af svæðinu gætu séð sér hag í að taka þátt í. Frumhagkvæmnimatið er aðgengilegt á heimasíðu SSNE. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort verkefnið raungerist og hvort að vandi Íslands þegar kemur að réttri meðhöndlun dýrahræja geti minnkað með vinnslulínu í Eyjafirði.

Þá er ekkert annað en að hætta að benda hvert á annað, gyrða sig í brók, og ganga í málið. Ástandið eins og það er núna er ekki boðlegt.

Rökin fyrir frjálsum handfæraveiðum
Lesendarýni 1. júní 2023

Rökin fyrir frjálsum handfæraveiðum

Strandveiðitímabilið hófst 2. maí sl. í fimmtánda sinn frá því strandveiðum var ...

Blóðmerahaldið enn
Lesendarýni 30. maí 2023

Blóðmerahaldið enn

Nú er blóðmerahaldið aftur komið á dagskrá og nú fyrir tilstuðlan sunnan af megi...

Matvæla- og fæðuöryggi eru fullveldismál
Lesendarýni 29. maí 2023

Matvæla- og fæðuöryggi eru fullveldismál

Það hefur margt breyst í ísskápnum hjá okkur Íslendingum á síðustu áratugum.

Dýrmætasta auðlindin
Lesendarýni 26. maí 2023

Dýrmætasta auðlindin

Þegar ekið var um sveitir landsins nú í byrjun maímánaðar mátti víða sjá í stafl...

Sjálfdauð kýr
Lesendarýni 19. maí 2023

Sjálfdauð kýr

Það er órjúfanlegur hluti búskapar að skepnur drepist heima á bæjum, eins sorgle...

Afkoma sauðfjárbúa 2021
Lesendarýni 19. maí 2023

Afkoma sauðfjárbúa 2021

Í nýrri skýrslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins er fjallað um niðurstöður úr ...

Heillandi, sligandi vor
Lesendarýni 18. maí 2023

Heillandi, sligandi vor

Vorið er sannarlega heillandi og spennandi tími í sveitum landsins. Útivera verð...

Verðum að taka afstöðu
Lesendarýni 17. maí 2023

Verðum að taka afstöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „Sett verða metnaðarfull mar...