Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Vestmannsvatn.
Vestmannsvatn.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 23. maí 2022

Lax í vötnum

Höfundur: Ari Teitsson

Búnaðarsamband Suður Þing­eyinga fékk á árunum 1980–1982 stuðning úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins til að kanna áhrif þess að sleppa sumaröldum (4-7 cm) laxaseiðum í stöðuvötn í héraði.

Birt var áfangaskýrsla um árangur í Frey 1983, 7. tbl. bls. 265. Þáverandi formaður stjórnar Framleiðnisjóðs, Jóhannes Torfason á Torfalæk, sýndi verkefninu skilning og velvilja en hefur gagnrýnt greinarhöfund fyrir að hafa ekki skilað lokaskýrslu um verkefnið. Verður hér á eftir reynt að bæta úr því þótt vissulega hefði það mátt gerast a.m.k. 30 árum fyrr. Bót er þó í máli að bæði vötnin og laxinn eru enn til staðar. Þá kann að vera að nú sé frekar grundvöllur fyrir nýrri hugsun í ræktunarstarfi laxfiska en í veiðisæld níunda áratugarins.

Í nefndri áfangaskýrslu kemur fram að sleppt var öll þrjú árin í átta vötn á svæðinu. Reynt var að fylgjast með niðurgöngu seiða úr hluta vatnanna með seiðagildrum sem þó reyndist hvorki einfalt né öruggt. Eigi að síður fengust 1982 eftirfarandi niðurstöður um niðurgöngu, sjá töflu 1.

Þá veiddust 1983 um 230 laxaseiði í gildru við Másvatnsós, eða um 3% af seiðum sl. 1981. Rétt er að nefna að ofangreidar tölur eru lágmarkstölur því hluti seiðanna kann af ýmsum ástæðum að hafa komist fram hjá seiðagildrunum.

Veiðar með fínriðnum netum í ágúst 1982 staðfestu einnig að laxaseiðin þrifust vel í Másvatni og Botnsvatni en uxu hægar í Ljósavatni. Niðurstöður veiða og stærðarmælinga má sjá í töflu 2.

Í mörg ár eftir að hætt var að sleppa laxaseiðum í Másvatn veiddust þar í net laxar í uppvexti, frekar ómerkilegir fiskar. Niður­staða athugunarinnar var því raunar að laxaseiðin náðu fótfestu og þrifust í vötnunum en virtust eiga í erfiðleikum með að rata út. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýs­ingum (Tumi Tómasson 1986) er það í samræmi við reynslu erlendis af seiðasleppingum í vötn sem liggja hátt yfir sjó og hafa lítið útrennsli. Þau framleiða stór seiði sem fara seint út en skila sér ekki til baka.

Ár renna í gegnum tvö af vötnunum átta, þ.e. Vestmannsvatn og Langavatn. Með lestri hreisturs af veiddum löxum og athugun á þróun veiði var reynt að meta árangur af sleppingum laxaseiða í þau vötn enda varð talningu niðurgönguseiða ekki við komið. Þá var einnig laxateljari í Eyvindarlæk 1983–1986. Rekstur slíkra teljara er erfiður en þó sýndi hann 565 laxa göngu 1984 og 714 laxa göngu 1986.

Hreisturlestur af vatnasvæði Reykjadalsár benti til að um 34% af veiði 1983, um 57% af veiði 1984 og um 15% af veiði 1985 væri komin frá seiðasleppingum í Vestmannsvatn (mögulega að litlum hluta úr Másvatni) eða um 330 laxar veiddir. Þar við bætist að hreistursýni benda til að verulegur hluti laxagöngu í Reykjadalsá veiðist á göngu sinni um Laxá. Leiddar hafa verið líkur að því að þriðjungur smálaxa sem veiddist í Laxá á þessum árum sé upprunninn í Reykjadalsá eða Mýrarkvísl. (Tumi Tómasson 1986) Gæti því heildarveiði af þeim 36.500 smáseiðum sem sleppt var í Vestmannsvatn hafa verið 5-600 laxar, eða nálægt 1,5% af slepptum seiðum. Sé svo er það betra en meðal veiðiárangur af sleppingu gönguseiða í Laxá sem virðist innan við 1%. Heimtur í veiði af þeim smáseiðum sem sleppt var í Vestmannsvatn 1975 virtust þó mun betri (3%?) (Jón Kristjánsson, 1979).

Ekki lá fyrir hreistur af laxi sem veidddur var í Mýrarkvísl á þessu árabili (1983–1986) en meðalveiði í Mýrarkvísl þau ár var 325 laxar. Meðalveiði fjögurra ára þar á undan (1979–1982) var 197 laxar og meðalveiði næstu fjögurra ára þar á eftir voru 242 laxar. Mætti því ætla að slepping þeirra nálægt 25.000 seiða sem sleppt var í Langavatn og Kringluvatn hafi skilað 3-400 löxum í veiði, eða nálægt 1,5%. Minna er vitað um árangur sleppinga í þau þrjú vötn sem falla til Skjálfandafljóts en trúlega hefur hann verið lítill.

Hér má að lokum nefna að um 1940 var sleppt kviðpokaseiðum laxa í Vestmannsvatn t.d. á drættina í Hólkoti og Höskuldsstöðum með þeim árangri að þar fóru að veiðast laxar sem ekki hafði áður verið (Garðar Jakobsson um 1990).

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hefur öðrum Íslendingum frekar rannsakað uppvöxt laxa í stöðuvötnum. Á vef Hafrannsóknastofnunar (www.hafogvatn.is) miðlun /útgáfa, er að finna fróðlegar skýrslur hans og fleiri um það efni.

Í skýrslu Sigurðar um uppeldi laxaseiða í stöðuvötnum á vatnasvæði Laxár í Leirársveit (VMST-V/98010X) er í inngangi tek­inn saman fyrirliggjandi fróðleikur á þessu sviði. Er inngangurinn birtur hér á eftir með góðfúslegu leyfi höfundar:

Laxaseiði hafa gegnum tíðina einkum verið talin alast upp í straumvatni auk þess sem lax getur einungis nýtt sér straumvatn til hrygningar (Keenleyside 1962, Gibson 1965, Symons og Hedland 1978). Laxaseiði eru mjög vel aðlöguð að dvöl í straumvatni vegna lögunar og stærð á eyruggum sem gerir þeim auðvelt að berjast við strauminn.

Laxaseiði hafa þar yfirburði yfir urriðaseiði , en þar sem straumur er minni, hafa urriðaseiðin yfirhöndina vegna meiri grimmdar (Gibson 1978, 1988, Gibson og Cunjak 1986). Þar sem bleikja kem­ur fyrir á sama búsvæði og lax og urriði lætur bleikjan undan síga í samkeppni við hina laxfiskana (Noaksen 1980), enda minnst hæf af þessum tegundum til að berjast við strauminn.

Hins vegar hefur komið í ljós á síðari árum að laxaseiði nýta sér einnig stöðuvötn sem búsvæði. Fyrstu heimildir um slíkt eru frá Nýfundnalandi (Pepper 1976, Chadwick og Green 1985, Ryan, O Connel og Pepper 1993) þar sem algengt er að laxaseiði alist upp í grunnum stöðuvötnum. Í Evrópu var þessu fyrst lýst á Íslandi (Sigurður Már Einarsson 1986, Sigurður Már Einarsson og fl. 1990) en þá kom í ljós að laxaseiði fundust í miklu magni á strandsvæðum Meðalfellsvatns í Kjós. Laxaseiðin nýttu sér þar einkum grýtt svæði meðfram strandlengjunni og fundust þar allir aldurshópar seiða allt frá vorgömlum seiðum til seiða á þriðja ári (Sigurður Már Einarsson og fl. 1990). Þá er vitað að uppeldi laxaseiða virðist algengt í íslenskum vötnum og hefur m.a. verið lýst í Geitabergsvatni, Glannastaðavatni og Eyrarvatni í Svínadal (Sigurður Már Einarsson, 1994). Nýlegar rannsóknir í Noregi (Halvorsen, 1986) á nítján norskum stöðuvötnum sýndu að laxaseiði fundust í fimmtán þeirra og voru uppeldissvæðin takmörkuð við grýtt strandsvæði og svæði með hágróðri, en seiðin fundust lítið sem ekkert á sendnum strandsvæðum. Uppeldi laxaseiða í norskum vötnum virðist því nátengt því að hrygningarskilyrði séu fyrir hendi í innrennslisám (Halvorsen 1996). Á Íslandi virðast hrygningarskilyrði í útföllum stöðuvatna einnig vera mjög mikilvæg fyrir nýtingu þeirra til seiðauppeldis (Sigurður Már Einarsson 1996). (tilvitnun lýkur).

Af ofangreindu virðist ljóst að mikil þekking innlend og erlend liggur fyrir um möguleika laxa í stöðuvötnum. Þekkinguna þarf að nýta til að fjölga stangveiddum löxum í íslenskum laxveiðiám sem er brýnna en nokkru sinni fyrr. Aðferðarfræðin er raunar einföld. Laxinn þaf grófa möl og straum til að tryggja hrognunum súrefni. Eftir að seiðin hafa klakist út þurfa þau fyrst og fremst skjól og fæðu sem vötnin geta gefið. Hér gæti raunar að nokkru verið um að ræða nýtt form hafbeitar sem svipar til hafbeitar í Rangánum að öðri leyti en því að laxinn nýtir uppeldisskilyrði stöðuvatna í stað uppeldis í eldisstöð. Það ætti að gera hvert gönguseiði ódýrara auk þess sem búast má við mun betri endurheimtum vegna lengri dvalar í náttúrulegu vatni svæðisins. Sé hugað að hagnaðarvon af að sleppa vorgömlum laxaseiðum í stöðuvötn gæti niðurstaða verið eftirfarandi:

Seiðin munu í dag kosta um 50 kr/stk. Miðað við 1% endurheimtur í veiði er því seiðakostnaður á hvern veiddan lax um 5.000 kr. Í ár virðast veiðimenn reiðubúnir að greiða nálægt 100.000 kr. fyrir hvern veiddan lax, fylgi veiðileyfinu gott veiðihús, sem víða er nú fyrir hendi. Takist seiðasleppingar í vötn með verulegu gegnumrennsli virðist því leitun að ábatasamari starfsemi. Nýting slíkra tækifæra þar sem möguleikar finnast er á ábyrgð forsvarsmanna viðkomandi veiðifélaga.Svo sem fram er komið er urriðinn grimmari en laxinn og því líklegt að í einhverjum vötnum þurfi að velja milli urriða og laxa. Sé lax valinn má ætla að í flestum tilfellum þurfi þá að sleppa smáseiðum laxa í hæfilegu magni á valda staði í viðkomandi vatni. Þá virðist mikilvægt að laxinn sé upprunninn af viðkomandi vatnasvæði og seiðunum sé sleppt í góðu ástandi áður en vötnin hlýna um of.

Hrognagröftur við ósa í og úr stöðuvötnum þar sem möl og straumur eru til staðar virðist einnig valkostur.

Tekið saman í apríl 2022
Ari Teitsson

Skylt efni: lax | lax í vötnum

Velferð hrossa - seinni grein
Lesendarýni 28. mars 2023

Velferð hrossa - seinni grein

Í þessari grein verða tvö atriði skoðuð nánar sem tæpt var á í grein í þarsíðast...

Þess vegna eigum við að standa vörð um íslenska sauðfjárrækt
Lesendarýni 28. mars 2023

Þess vegna eigum við að standa vörð um íslenska sauðfjárrækt

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússa í Úkraínu hefur kallað á endurskoðun á...

Raunveruleg staða nautgriparæktar
Lesendarýni 27. mars 2023

Raunveruleg staða nautgriparæktar

Staða nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi er grafalvarleg svo ekki meira sé sagt...

Nýtt upphaf – matvælaframleiðsla á breiðari grunni
Lesendarýni 27. mars 2023

Nýtt upphaf – matvælaframleiðsla á breiðari grunni

Nýverið var kynnt skýrsla um eflingu kornræktar sem ber heitið „Bleikir akrar: a...

Skráning, ræktun, fræðsla, þjálfun og keppni
Lesendarýni 21. mars 2023

Skráning, ræktun, fræðsla, þjálfun og keppni

Smalahundafélag Íslands (SFÍ) er félag áhugamanna um ræktun, þjálfun og notkun B...

Litaerfðir hjá sauðfé
Lesendarýni 20. mars 2023

Litaerfðir hjá sauðfé

Hér höldum við áfram flakki okkar um yfirlitsgreinina Genetics of the phenotypic...

Áhættumat erfðablöndunar útskýrt
Lesendarýni 17. mars 2023

Áhættumat erfðablöndunar útskýrt

Valdimar Ingi Gunnarsson fer mikinn í Bændablaðinu þann 17. febrúar 2023 í gagnr...

Er sannleikurinn sagna bestur?
Lesendarýni 16. mars 2023

Er sannleikurinn sagna bestur?

Í grein sem Tryggvi Felixson ritaði í Bændablaðið 23. febrúar sl. undir fyrirsög...