Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ólafur Rúnar Dýrmundsson, stjórnarmaður í Slow Food Reykjavík.
Ólafur Rúnar Dýrmundsson, stjórnarmaður í Slow Food Reykjavík.
Lesendarýni 10. maí 2021

Jarðasöfnun auðmanna og fjárfestingafélaga á Íslandi

Höfundur: Ólafur Rúnar Dýrmundsson.

Slow Food Foundation eru alþjóðasamtök með aðsetur í Bra á Norður-Ítalíu, stofnuð 1989, og eru starfrækt í 160 löndum. Þau hafa ætíð lagt áherslu á rétt allra jarðarbúa til aðgengis að nægum og hollum matvælum á sanngjörnu verði. Þau styðja sjálfbæra, og sem mest staðbundna matvælaframleiðslu og neyslu, vilja að fiskimönnum og bændum, svo og fjölskyldum þeirra séu tryggðar lífvænlegar tekjur og staðinn sé vörður um bæði fæðu- og matvælaöryggi landsvæða og þjóða. Því er aðgengi að landbúnaðarlandi og búseta í sveitum á meðal grundvallarþátta til að viðhalda stöðugri framleiðslu matvæla. Þannig verði best tryggð full stjórn yfir henni, og þar með fæðuöryggi, sem er veigamikill þáttur í fullveldi hverrar þjóðar (food sovereignty).

Frá aldamótunum 2000 hefur borið í vaxandi mæli á uppkaupum fjárfesta á landi í sveitum víða um heim, gjarnan í mjög stórum stíl, svo sem landakaup Kínverja í Afríku. Einstaklingar og félög hafa hremmt til sín bújarðir í stórum stíl, nú á seinni árum í vaxandi mæli í Evrópu, sérstaklega í henni austanverðri. Í stað bænda á litlum eða meðalstórum fjölskyldubúum, sem hafa jafnvel verið hraktir burt af leigujörðum, hafa fyrirtæki auðmanna komið upp einhæfum stórbúum með efnavæddri ræktun nytjajurta, eða, reist verksmiðjubú þar sem velferð búfjár er iðulega ábótavant. Í Evrópusambandinu eru slík stórbýli að taka til sín verulegan hluta stuðningsgreiðslnanna. Þá er vitað að í sumum tilvikum hafa ríkisstjórnir í viðkomandi löndum, t.d. í Ungverjalandi, stuðlað að slíkri óheillaþróun.

Síðan 2010 hafa Slow Food samtökin beitt sér gegn jarðasöfnun (land grabbing) sem þau telja ósjálfbæra, bæði efnahagslega og félagslega, stuðla að auknum ójöfnuði og fátækt, og alls ekki til þess fallna að létta sótspor matvælaframleiðslunnar í heiminum. Þau vara við þessari þróun sem veikir fjölskyldubúskapinn og þar með sveitabyggðirnar í hverju landi.

Hér á landi hefur mest verið fjallað um stórfelld jarðakaup erlendra aðila, nú í seinni tíð einkum á Norðausturlandi þar sem breskur auðmaður og félög hans eiga nær 40 jarðir. Nýlegar lagabreytingar hafa ekki reynst nægilega traustar til að koma í veg fyrir slík stórfelld jarðakaup sem hér á landi tengist oft fremur ásókn í náttúruauðlindir á borð við laxveiði en not af landinu sjálfu. Ljóst er að búsetu á jörðum sem hafa tapað arði af laxveiði og öðrum hlunnindum er stefnt í hættu því að bændur sem fá að búa áfram á jörðunum, þá sem leiguliðar, verða fyrir verulegum tekjumissi eftir að hlunnindaarðurinn rennur í vasa auðmannsins eða fjárfestingafélagsins.

En það eru ekki aðeins erlendir aðilar sem sækjast eftir jörðum hér á landi og vill Slow Food Reykjavík vekja athygli á því að Íslendingar hafa verið býsna stórtækir við jarðasöfnun síðan um aldamót. Svo sem fram kom í vandaðri umfjöllun í Bændablaðinu 28. janúar sl., um stórfelld kaup á jörðum víða um land, liggja ekki fyrir hversu umfangsmikil þau eru orðin. Í sögulegu samhengi er nærtækast að minnast þess að fjársterkur Íslendingur keypti flestallar jarðir í Hnappadal 1909, vel á annan tug, en seldi aftur bændum í sveitinni nokkrar þeirra 1915 eftir að þeir leituðu eftir því. Tilgangur athafnamannsins með jarðakaupunum var að ná yfirráðum yfir öllum veiðirétti í Haffjarðará og Oddsstaðavatni og það tókst honum. Sá réttur er nú metinn á a.m.k. fjóra milljarða en flestar jarðirnar eru komnar í eyði, sumar fyrir löngu. Sami Íslendingur eignaðist einnig verðmætar jarðir í Helgafellssveit, Mosfellssveit og víðar snemma á 20. öld og var um skeið með umfangsmikinn búrekstur á a.m.k. tveim þeirra. Fátítt er að nútíma jarðasafnarar stundi búskap og matvælaframleiðslu á jörðum sínum og því síður að þeir búi í viðkomandi sveitum.

Slow Food Reykjavík skorar á stjórnvöld að endurskoða lög og reglur um jarðakaup, bæði erlendra og innlendra aðila, og stöðva þá óviðunandi jarðasöfnun auðmanna og fjárfestingafélaga sem viðgengist hefur. Viðbótin við jarðalögin sem samþykkt var 2020 gengur ekki nægjanlega langt og mál sem komið hafa upp t.d. í Húnaþingi vestra sýna fram á galla í löggjöfinni og ekki hafa verið myndaðir verkferlar í kringum hana. Hætt er við að jarðasöfnun skaði búsetu í sveitum landsins, komi í veg fyrir eðlileg kynslóðaskipti og veiki alla viðleitni til að halda uppi innlendri matvælaframleiðslu í sátt við land og þjóð. Þá hvetur Slow Food Reykjavík til umræðna í þjóðfélaginu um þessa varasömu þróun og þar með verði málið tekið fyrir innan allra stjórnmálaflokka í landinu. Þess er vænst að nefnd sem nú vinnur að mótun nýrrar landbúnaðarstefnu leggi mat á þá ógn sem stafar af jarðasöfnun og geri tillögur um mótvægisaðgerðir.

Reykjavík mars 2021
Ólafur Rúnar Dýrmundsson
stjórnarmaður í Slow Food Reykjavík
oldyrm@gmail.com

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...