Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Fíngreiddar hárkollur í nærmynd.
Fíngreiddar hárkollur í nærmynd.
Lesendarýni 2. febrúar 2024

Hárkollurnar héngu í garðinum

Höfundur: Kristján Friðbertsson, plöntunörd

Síðar svartar buxur, stuttar svartar buxur, aðsniðnar svartar buxur. Svartur bómull, svart gerviefni, svartur hampur, svört ull eða gallabuxur. Þunnt efni eða þykkt. Þetta merki eða hitt.

Mikið svakalega getur verið leiðinlegt að kaupa föt. Ég held mig bara vanti ekki svartar buxur lengur. Gamlar, tættar buxur, götóttar í klofinu, hljóta að vera alveg að koma í tísku.

Skyndilegt óhljóð í símanum varaði mig við því að ég ætti ólesin skilaboð, en bjargaði mér frá frekari buxnahugsunum. Ég beit á jaxlinn og gerði mitt ítrasta til að umbreyta hinu ólesna í lesið. Hef ég hitt hana áður? Ég er ekki viss. Ýmislegt höfum við þó í gegnum raftækin rætt, sendandinn og ég. Indælasta kona, líklega að nálgast sjötugt, kannski áttrætt, jafnvel fimmtug. Ég er ekki góður að átta mig á aldri. Hlustar sennilega meira á Rás1 en Rás 2. Ólíkleg til að vera nógu djörf fyrir Bylgjuna. Deilir með mér áhuga á garðyrkju, náttúru og lífinu. Spyr hvort ég vilji ekki líta við aftur í kaffispjall. Aftur?

Æ. Þá mundi ég það. Ég leit við hjá henni eitt sinn þegar hún ætlaði að fræða mig um allt sem hún vissi varðandi að kynda bál. Hefði alveg getað verið áhugavert. Ég hafði svo sem ákveðinn grun um að hún gæti verið lesblind, eða með einhver málfarsleg vandamál.

Misritunin var svo sem ekki augljós. Hefði ég vitað að til stæði 4 klst. fyrirlestur um það að binda kál, hefði ég ekki mætt. Ekkert áhugavert er hægt að segja um það að binda kál, sem ekki má afgreiða á innan við mínútu. „Kemst því miður ekki, þarf að versla mér ný föt. Bkv.“

Samskipti við annað fólk eru ofmetin

Á sama andartaki og ég svaraði skilaboðunum hringdi síminn svo ég óvart svaraði. Enn einn ókosturinn við að hafa allt í sama bölvaða tækinu. Teiknaðir takkar breyta um virkni fyrirvaralaust.

Reyndist þar vera vinur að hringja til að spjalla. Svolítið sérstakur reyndar, en ágætis drengur. Bjó eitt sumar í Svíþjóð og talar stundum eins og hann haldi að hann sé sænskur. Segir t.d. ekki „húmor“ heldur „huumöör“ svo orðið hljómar svona mitt á milli „humar“ og „hnoðmör“. Sem ég hef reyndar aldrei smakkað saman. Hann ræktar grænmeti í garðinum á lífrænan máta svo ég spurði aðeins út í það. Vinurinn kannaðist við að það yxi grænmeti í garðinum, jújú, en gerði nú frekar lítið úr því.

„Nej, bara eitthvað sem konan vildi endilega, hún var voða organísk.“

Konan? Ekki veit ég hvaða kona þetta á að vera.

Þessi drengur hefur aldrei nokkurn tímann verið við kvenmann kenndur, eftir því sem ég best veit. En jæja, hvað veit ég svo sem. Kemur mér heldur ekki við.

„Já, du veist nú hur þessar konur geta verið. Auðvitað lætur maður allt eftir þeim. Eitt sumarið var denna lífræni reitur búinn til. Smá vesen í byrjun og mikið af pöddum, men skánaði mikið þegar ég fór að eitra vikulega. Það er held ég trikkið til að láta lífræna ræktun ganga upp, sjáðu til. Svo lengi sem du missir ekki úr viku, so gengur þetta allt upp.“

Aha. En það er nú varla lífrænt að eitra svona mikið?

„Jújú, þetta er allt samt voða natuurlíg, sko. Eitrið skiptir engu máli með það. Það þarf bara hver og einn að finna sinn organíska rytma held ég. Eins með safnkassann. Det kan finnas insekter hvis man passar sig ekki og lyktin ekki alltaf góð í byrjun.“

Ha? Ekki varstu virkilega að eitra safnkassann vikulega?

„Nej, nennti því nú ikke. Bara nokkrum sinnum yfir sumarið. Viktigt að hella miklu sjóðandi vatni ofan í kassann. Kannske var tredje dag. Drepur bakteríen, sjáðu til. Lyktin líka mun skárri og ekki eins mikið insekter. Flýja öll sjóðandi vatnið, eins og við myndum gera.“

Jæja. Þetta samtal var ekki að fara að skila neinu af viti. Ég sagðist þurfa að kaupa mér ný föt, þakkaði spjallið og skellti á. Hann kvaddi að sjálfsögðu með eitt stykki „hæ doo“ ...

Kattarspor

Eftir allt þetta gafst ég upp, þakkaði fyrir að eiga mér griðastað og fór rakleitt þangað. Hverjum og einum er nefnilega nauðsynlegt að geta haft sinn griðastað. Hvort sem það er innandyra eða utan, bílskúr eða garður, félagsleg samverustund eða algjör einvera. Í mínu tilfelli er það garður, en sá sameinar marga mikilvæga þætti í mínu lífi. Á miðri leið mætti ég ketti sem ákvað að slást í för með mér.

Slíkum félagsskap fagnaði ég mjög. Ég reyndi að spyrja hann bæði til vegar og nafns, en hann uppljóstraði engu. Ég ákvað að reyna ekki frekar. Tel mig veraldarvanan og spotta fljótt ef köttur hefur klárlega skrifað undir þagnareið. Ekki leið þó á löngu þar til kötturinn beygði af leið til að kynna sig fyrir flugu sem hann tók óvænt eftir. Skömmu síðar var ég kominn á griðastaðinn, svo það kom ekki að sök.

Bjarmabergsóley í blóma, en einnig byrjuð að mynda hárkollu.
Bjarminn úr garðinum

Mánuðurinn var desember og garðurinn var kaldur. Reyndar ískaldur og ekki beint fullur af lífi. Það breytir samt engu.

Fuglar í trjánum, plönturnar ýmist sígrænar eða í dvala, ferska loftið, gæsir nagandi túnblettinn, meira gat ég nú ekki beðið um.

Fáeinir blómstrandi vetrarkrókusar í miðri, sígrænni þekjunni af blóðbergi stóðu gaddfreðnir og steinhissa.

Haustlyng og skrautkál skreytti hin ýmsu beð og lyngrósir með sína stóru knúpa héldu í sér andanum og biðu spenntar eftir að fá að blómstra næsta vor. Vetrarsólin varpaði skuggum látinna sumarblóma á veggi, líkt og afturgöngum blómatíðar. Skriðsóleyin, búin að koma sér vel fyrir, sagði með róandi röddu „engar áhyggjur, ég passa beðin fyrir þig í vetur“.

Frænka hennar, bjarmabergsóleyin (Clematis tangutica), vafin utan um staura við gamla rólu, var orðin heldur líflaus um laufin en ljómaði þó engu að síður. Gulu, hangandi blómin löngu farin, en eftir sátu fræin. Líkt og hárbrúðan hjá annarri frænku, holtasóley, mynda fræhalarnir fjaðurhærðu eins konar hárlokka. Hvítir, gráir, gisnir, þéttir, stuttir, síðir. Í stað þess að standa beint upp í loft, hanga þessir hvítu lokkar þó oftast niður, jafnvel með ágætis sveip.

Stundum leiðir þetta hugann að fínasta nýársballi hjá Félagi eldri borgara. Allir nýþvegnir með dýrasta sjampóinu, djúpnærðir, vel greiddir og léttblásnir. En frá hausti og fram eftir vetri hanga þær þarna, sem hið fínasta skraut; silfurgráu hárkollurnar sem bíða þess að verða afkvæmi bjarmabergsóleyjarinnar.

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...