Girðingar meðfram vegum
Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er gott og jafnvel einhver búinn að rífa upp tóbakshorn.
Slíkt gerðist á einum bæ rétt fyrir vorjafndægur þar sem girðingar við akvegi voru til umræðu og hvort frágangur þeirra sé stundum ekki nógu vel ígrundaður. Í ökuferð um Norðurland var girðingum gefið nokkuð auga. Þeir sem hafa brasað í girðingum allt sitt líf vita að undirbúningur og girðingarstæðið skipta öllu máli. Fylla í skurði og lægðir þar sem hægt er og slétta vel undir. Þegar vegagerð er í gangi er þetta sáralítið mál þar sem tæki og tól eru á staðnum til verksins. Að setja upp girðinguna er ekki nema hluti verksins og til lítils gagns ef hún er hrunin árið eftir eingöngu vegna þess að höndum var kastað til við undirbúninginn.
Girðingarefni er dýrt og er því krafan sú að fjármunum sem í það fer sé vel varið. Það ætti því að vera metnaðarmál þeirra sem leggja vegina að undirbúa almennilegt girðingarstæði og vinna það á sama tíma og vegurinn er lagður. Nú um stundir er mikilvægt að vanda alla þessa vinnu þar sem fækkun fólks í mörgum byggðum landsins er átakanleg og þar af leiðandi færri hendur en áður til að sinna viðhaldi á veggirðingunum.
Á mörgum stöðum eru girðingar lagðar í veghallanum eða neðst í honum og fara því alltaf á kaf í snjó á vetrum. Í einhverjum tilfellum verður reyndar ekki hjá því komist. Víða þurfa girðingar ekki að vera nema 5–10 metrum fjær veginum til að sleppa við mestu snjóalögin. Nokkrir hornstaurar í viðbót eða fáeinar skóflur af möl í dokkir skipta akkúrat engu máli í stóra samhenginu því tilgangurinn hlýtur að vera sá að girðingin standi sem lengst og þurfi sem minnst viðhald.
Girðingar á vondum stöðum sem fá lítið sem ekkert viðhald verða ónýtar um leið en slíkar girðingar eru bara til ógagns og miklu betra að rífa þær. Væntanlega eiga veggirðingar að þjóna þeim tilgangi að halda skepnum frá vegunum og þar af leiðandi minnka óþægindi fyrir bílaumferð og draga úr slysahættu hvort sem er á skepnum eða fólki.