„Þekkt er að ca. 20 sinnum meira kolefni er talið vera í hafinu en í öllum jarðvegi og plöntum á þurru landi til samans,“ segir Magnús m.a. í grein sinni.
„Þekkt er að ca. 20 sinnum meira kolefni er talið vera í hafinu en í öllum jarðvegi og plöntum á þurru landi til samans,“ segir Magnús m.a. í grein sinni.
Lesendarýni 11. júní 2024

Framtíð veiða með botnvörpu?

Höfundur: Magnús Jónsson, veðurfræðingur og formaður Drangeyjarsmábátafélags Skagafjarðar.

Fyrir nokkrum vikum birtist í National Geographic grein sem byggir á viðamikilli rannsókn ástralskra, spænskra og bandarískra vísindamanna (Trisha B. Atwood, Enric Sala o.fl.) á áhrifum veiða með botnvörpu á lífríki og súrnun hafsins sem og losun á koldíoxíði út í andrúmsloftið.

Magnús Jónsson

Hér er um að ræða nokkurt framhald á rannsóknum frá 2021 sem bentu til þess að losun koldíoxíðs (CO2) af völdum togveiða væri álíka og losun alls borgaralegs flugs í heiminum. Ýmsir hafa tortryggt þá niðurstöðu en þessi nýja rannsókn bendir til þess að hún sé í meginatriðum trúverðug.

Samspil hafs og andrúmslofts

Þekkt er að ca 20 sinnum meira kolefni er talið vera í hafinu en í öllum jarðvegi og plöntum á þurru landi til samans. Þá er áætlað að heimshöfin taki upp um fjórðung alls koltvísýrings sem mannkynið losar út í andrúmsloftið ár hvert.

Það sem einkum hefur vantað er að reyna að skilja og greina enn frekar samspil hafs og andrúmslofts. Sú rannsókn sem hér er til umræðu bendir til þess að fiskveiðar með botnvörpu losi um eða yfir 700 milljónir tonna af CO2 á ári og að meira en helmingur þess, eða um 370 milljónir tonna, fari út í andrúmsloftið. Þetta magn af CO2 er talið vera tvöfalt meira en árleg losun á koldíoxíði frá eldsneytisbrennslu alls fiskveiðiflota heimsins.

Bent er á í umræddri grein að mestu losun á CO2 af völdum togveiða sé að finna í Austur-Kínahafi, Eystrasalti, Norðursjó og Grænlandshafi vestur af Íslandi. Ekkert veiðarfæri veldur meiri hættu á ofveiði bæði fiska og botndýra en botntroll og raskar þannig oft jafnvægi þess lífríkis sem hefir orðið til á árhundruðum eða árþúsundum. Þá er viðurkennt að mikill meðafli er algengur þegar togveiðar eru stundaðar og má nefna að í Norðursjó og Eystrasalti er jafnvel talið að meiru sé hent af því sem kemur í veiðarfærin en það sem er hirt.

Súrnun sjávar

Í greininni sem hér er til umfjöllunar er einnig nokkuð fjallað um súrnun sjávar. Þótt áhrif losunar á CO2 vegna botntrollsveiða á súrnun hafsins sé ekki marktæk á heimsvísu er talið að staðbundna súrnun, t.d. í Kínahafi megi að nokkru rekja til slíkra veiða.

Bent hefur verið á að súrnun hafsins hér við land sé hraðari en annars staðar sem nemi um 0.14 PH-einingum frá upphafi iðnbyltingar. Í ljósi þess að veiðar með botnvörpu hafa verið stundaðar hér í meira en 100 ár og það í vaxandi mæli á síðustu áratugum með sífellt öflugri og þyngri veiðarfærum er ástæða til að ætla að togveiðar eigi einhvern þátt í hækkun sýrustigs sjávar umhverfis Ísland.

Ábyrgð á neytendur

Það er ekki nýtt að veiðar með botnvörpu sæti gagnrýni bæði hér á landi og erlendis. Hins vegar er vaxandi umræða meðal erlendra neytenda hvort þessar veiðar eigi rétt á sér í þeim mæli sem þær eru. Talið er að um fjórðungur alls fiskjar í heiminum sé veiddur með botnvörpu. Innan Evrópusambandsins eru gerðar sífellt meiri kröfur og reglur settar sem upplýsi neytendur um uppruna matvæla, hvernig þeirra er aflað, hvaðan þau koma og hver séu umhverfisáhrif við öflun þeirra og framleiðslu.

Benda höfundar þessarar greinar á að eftirfylgni við slíkar reglur mætti vera meiri og að neytendur ættu að vera meðvitaðri um hvernig fiskur er veiddur. Þó sambærilegar reglur hafi enn ekki verið settar í Bandaríkjunum segir það nokkra sögu að botnvörpuveiðar eru nú bannaðar í meira en helmingi af alríkislögsögu Bandaríkjanna. Svipaða sögu má raunar segja frá Nýja-Sjálandi þar sem veiðisvæði með botnvörpu hafa verið minnkuð mikið síðustu 20 árin eða svo og neytendur og umhverfissinnar þrýsta stöðugt á meiri takmarkanir á slíkum veiðiaðferðum.

Lokaorð

Lokaorð þessarar greinar í National Geographic eru eftirfarandi: „Veiðar með botnvörpu eru skaðlegasta aðferðin til að ná fæðu úr sjónum. Við vitum að vistfræðileg áhrif þeirra eru hörmuleg og nú vitum við um þessi hlýnunaráhrif.“

Í ljósi þess að togveiðar hafa farið hlutfallslega vaxandi við Ísland er að mati undirritaðs nauðsynlegt að við búum okkur undir breytta umræðu og breyttar kröfur og upplýsingar um hvernig veiðar á fiski hér við land fara fram. Þá má einnig benda á breytta stefnu í fiskveiðum hjá Norðmönnum þar sem flytja á aflaheimildir frá togveiðandi stórútgerðinni yfir á vistvænni veiðar smábátanna.

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn
Lesendarýni 12. júní 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn

Í Bændablaðinu miðvikudaginn 24.4. 2024 er viðtal við Jón Kristinsson umhverfisa...

Framtíð veiða með botnvörpu?
Lesendarýni 11. júní 2024

Framtíð veiða með botnvörpu?

Fyrir nokkrum vikum birtist í National Geographic grein sem byggir á viðamikilli...

Hrossaræktin á fljúgandi ferð
Lesendarýni 10. júní 2024

Hrossaræktin á fljúgandi ferð

Þegar ég var í búfræðinámi á Hvanneyri voru heilmikil átök um stefnuna í hrossar...