Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
„Það felast mikil tækifæri í að vera lýðræðislegt, lítið og friðsælt land. En til þess að ná árangri erlendis verðum við að sýna fyrirhyggju og forgangsraða verkefnunum,“ segir Baldur meðal annars.
„Það felast mikil tækifæri í að vera lýðræðislegt, lítið og friðsælt land. En til þess að ná árangri erlendis verðum við að sýna fyrirhyggju og forgangsraða verkefnunum,“ segir Baldur meðal annars.
Mynd / ghp
Lesendarýni 30. maí 2024

Forsjálni á litlum búum og stórum

Höfundur: Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og forsetaframbjóðandi.

Fátt er mikilvægara í búrekstri en forsjálni. Sá bóndi sem ekki ver sumrinu í að undirbúa komandi vetur lendir í vanda strax um haustið.

Baldur Þórhallsson.

Sá bóndi sem ekki hugar tímanlega að vorverkunum lendir í vanda um leið og sauðburður brestur á eða bera þarf á tún. Þetta gildir jafnt um stór sem smá bú; forsjálnin er mikilvægust.

Þetta eru sannindi sem allir bændur þekkja. Sjálfur lærði ég þau á barnsaldri, enda alinn upp á blönduðu búi á bökkum Ytri-Rangár og sá um sauðfé afa míns þegar ég var á unglingsaldri. Bændur geta ekki tjaldað til einnar nætur, þeir verða sífellt að huga að því hvernig skepnunum og jörðinni reiðir af næstu misserin.

Hið sama gildir auðvitað þegar við horfum yfir þjóðarbúið. Þar er ekki í boði að yppa öxlum og ganga út frá því að allt gangi eftir óskum, undirbúningslaust. Við eigum að velta fyrir okkur hvernig við tryggjum almannaöryggi, fæðuöryggi og orkuöryggi.

Við búum á eyju en erum fjarri því að vera einangruð frá þeirri óvissu sem nú ríkir í alþjóðamálum. Við vonuðumst auðvitað öll til þess að ófriður í Evrópu væri á enda, en nú geisar þar stríð. Forseti Íslands á að tala fyrir friði og friðsamlegri lausn deilumála, það hlýtur að vera grunnstefið í öllum málflutningi hans. Þar liggur tækifærið einmitt í smæð okkar.

Í rúm 30 ár hef ég unnið að rannsóknum á því hvernig smáríki tryggi best hagsmuni sína og geti haft áhrif í samfélagi þjóðanna. Ég kom strax heim úr framhaldsnámi því mig langaði að leggja mitt af mörkum til að byggja upp fag mitt við Háskóla Íslands og ræða möguleika Íslands til að láta til sín taka í alþjóðasamfélaginu.

Það felast mikil tækifæri í að vera lýðræðislegt, lítið og friðsælt land. En til þess að ná árangri erlendis verðum við að sýna fyrirhyggju og forgangsraða verkefnunum.

Við verðum að hafa vilja, kjark og þor til að láta í okkur heyra. Við eigum að taka höndum saman með frjálsum félagasamtökum, alþjóðastofnunum og okkar nánustu bandalagsríkjum – eins og frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum.

Og síðast en ekki síst: þegar við vinnum heimavinnuna og náum árangri í tilteknum málum hér heima, eins og t.d. varðandi réttindi og stöðu kvenna og hinsegin fólks, þá skapar það okkur virðingu og sess í alþjóðasamfélaginu og stóreykur líkurnar á að á okkur sé hlustað.

Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands því ég vil vinna þjóð minni vel og veit að ég hef reynslu og þekkingu til þess.

Forsjálnina hef ég líka og ég mun leggja mig allan fram um að beita henni á öll þau viðfangsefni þar sem forseti getur lagt hönd á plóginn.

Þjóðbúningur að gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi
Lesendarýni 14. febrúar 2025

Þjóðbúningur að gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi

Íslenskur hópur kvenna sameinast nú um stórbrotna gjöf sem mun gleðja og styrkja...

Íslenska kýrin í mikilli framför
Lesendarýni 12. febrúar 2025

Íslenska kýrin í mikilli framför

Það liggur fyrir mikið afrek hjá kúabændum á þessari öld hversu stórstígar framf...

Kolefnisskógrækt á villigötum
Lesendarýni 11. febrúar 2025

Kolefnisskógrækt á villigötum

Á samfélagsmiðlinum Vísi birtist umfjöllun um skógræktina á Þverá og í Saltvík í...

Að gefnu tilefni
Lesendarýni 10. febrúar 2025

Að gefnu tilefni

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist grein eftir þá félaga Baldur Helga Ben...

Ljótur er ég
Lesendarýni 5. febrúar 2025

Ljótur er ég

Sykur skiptir öllu máli. Án hans væru einungis sykurlausir drykkir í boði og mig...

Fokskaðar á þökum
Lesendarýni 3. febrúar 2025

Fokskaðar á þökum

Á hverju ári koma ofsaveður hér á landi þar sem allt lauslegt, og sumt fast, tek...

Bláskelin er bjargvættur
Lesendarýni 31. janúar 2025

Bláskelin er bjargvættur

Ein allra stærsta áskorun samtímans er hvernig hægt verður að mæta vaxandi þörf ...

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi
Lesendarýni 30. janúar 2025

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi

Samkvæmt öllum tölulegum upplýsingum um afkomu íslenskra kúabænda sem lesa hefur...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f