Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hringur, forystusauður höfundar.
Hringur, forystusauður höfundar.
Mynd / ÓRD
Lesendarýni 25. janúar 2018

Er stefnt að útrýmingu lítilla og miðlungs fjárbúa í landinu?

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Í síðasta Bændablaði, 11. janúar, birtist á bls. 45 athyglisvert lesendabréf frá Lárusi Sigurðssyni þar sem hann víkur m.a. að opinberum stuðningi við sauðfjárræktina sem byggir mjög á mismunun eftir bæði búsetu og fjárfjölda.

Sem eðlilegt er veltir hann upp nokkrum áleitnum spurningum sem hafa orðið mér tilefni hugleiðinga um þessi efni.

Nýjar reglugerðir

Á meðal fyrstu verka nýs ráðherra í liðnum mánuði var að staðfesta og birta tvær nýjar reglugerðir, annars vegar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1166/2017 og stuðning við sauðfjárrækt nr. 1183/2017, sem væntanlega vísa veginn fyrir þessa búgrein með ýmsum hætti. Sú fyrri byggir að mestu á gömlum og traustum grunni og mun ég víkja lítillega að afleiðingum hennar í lok þessa pistils með tilliti til fjárbúskapar utan lögbýla.

En það er sú síðari sem hlýtur að vekja marga til umhugsunar um hvert stjórnvöld eru að stefna og hver viðhorf bænda eru, og þá sérstaklega þeirra sem halda sauðfé, til þeirrar grófu mismununar sem þar er boðuð, bæði hvað varðar svæði og fjárfjölda á viðkomandi búi. Í 1. gr. reglugerðarinnar er vísað í samning fulltrúa ríkisvaldsins og bænda um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016 þannig að ætla mætti að grundvöllurinn væri traustur.

Sérhæfing og fækkun fjárbænda

Mér finnst reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt endurspegla vel þá hugmyndafræði að enn skuli efla sérhæfingu og stækkun fjárbúa. Til að ná fram þeim markmiðum, og miðað við markaðsstöðuna í dag, skuli fækka litlum og miðlungs fjárbúum um land allt. Þannig verði afkoma „alvöru“ fjárbænda tryggari og búseta í sveitum landsins traustari í næstu árum. Skömmu eftir að reglugerð nr. 1183/2017 kom út fengu Landssamtök sauðfjárbænda það álit frá sérfræðingi hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) að eðlilegt sé að búin stækki verulega og að þeim fækki.

Þessi hugmyndafræði er í sjálfu sér vel þekkt, hún og afleiðingar hennar eru kunnar um allan heim. Að mínum dómi er hún orðin úrelt í meginatriðum og hentar alls ekki íslenskri sauðfjárrækt. Reynslan erlendis sýnir að fjölskyldubúunum er fyrst rutt úr vegi, fáeinar fjölskyldur byggja þó upp sérhæfð stórbú sem síðar lenda gjarnan í eigu fjárfesta í þéttbýli, oft í hlutafélögum, og þá er orðið stutt í verksmiðjubúin sem skapa mun alvarlegri vandamál en þau leysa. Þessari þróun fylgir oft jarðasöfnun auðmanna og fyrirtækja. Eitt er víst að slík þróun stuðlar ekki að blómlegri og dreifðri sveitabyggð í sátt við umhverfið.

Nokkrir ókostir fækkunar fjárbúa og bænda

Vissulega eiga stór og vel rekin sauðfjárbú, sem búa við góða landkosti og önnur hagkvæm skilyrði, fullan rétt á sér. Engu að síður verður að virða þá sérstöðu sem sauðfjárræktin hér hefur. Alkunna er að hún gegnir veigamiklu, félagslegu hlutverki og stuðlar meira að viðhaldi sveitabyggðar en aðrar búgreinar. Því skiptir fjöldi sauðfjárbænda sem slíkur miklu máli og mikil fækkun þeirra getur skapað vanda hjá þeim sem eftir verða, getur jafnframt skert arðsemi sauðfjárframleiðslunnar í heild. Máli mínu til stuðnings ætla ég að benda á fimm atriði sem geta skipt máli ef litlum og miðlungs fjárbúum fækkar að ráði í sveitum landsins:

1) Fjallskil og aðrir félagslegir þættir

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er um helmingur fjárbúa á lögbýlum með færri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Því er fjáreigendur utan lögbýla ekki inni í þeirri tölu.

Það er reyndar ljóst að bændur á litlum og miðlungs fjárbúum eiga mikinn þátt í eðlilegri framkvæmd fjallskila, bæði gangna og réttahalds, um land allt. Góðir smalahundar og flygildi (drónar) leysa ekki bændur af hólmi. Fækkun í þeirra hópi getir einnig haft neikvæð áhrif á almenna, félagslega stöðu bænda og búaliðs í sveitunum, sérstaklega í dreifðum byggðum þar sem bændum hefur nú þegar fækkað verulega. Hinn félagslegi þáttur sauðfjárræktarinnar vegur því mjög þungt og að mínum dómi má ekki veikja hann með neinum hætti.

2) Nýting heimalanda og afrétta

Dreifing sauðfjárbúa skiptir miklu máli eigi að nýta úthagabeitina með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.

Mikil samþjöppun getur leitt til staðbundinnar ofbeitar og aukinnar hættu á búsifjum af völdum sníkjudýra og smitsjúkdóma. Í þessu tilliti eru kostir blandaðrar beitar með t.d. hrossum og nautgripum vel þekktir, samanborið við hreina sauðfjárbeit.

Að hvetja til fjölgunar stórra fjárbúa, án þess að fyrir liggi rammaáætlun um landnýtingu, ber ekki vott um neina fyrirhyggju. (Sjá grein höfundar á bls. 36 í Bændablaðinu 21. mars 2013).

3) Lífrænn búskapur og önnur nýsköpun

Fyrirsjánleg er vaxandi eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum og þar er greinilega vaxtarbroddur til nýsköpunar fyrir íslenskar sauðfjárafurðir sem lítið hefur verið sinnt til þessa ( Sjá grein höfundar á bls. 51 í Bændablaðinu 16. nóvember 2017). Þar við bætist að lífrænir búskaparhættir eru að jafnaði heppilegri til kolefnisjöfnunar en önnur búskaparform. Við hérlendar aðstæður er ljóst að lítil og miðlungsbú, sérstaklega hin blönduðu, henta mun betur til aðlögunar að lífrænum búskaparháttum en hin stóru og sérhæfðu. Því er hætt við að sú mismunun í stuðningsgreiðslum sem reglugerð nr. 1183/2017 felur í sér, einkum ákvæði 30. gr. , verði til þess að hindra lífræna aðlögun í greininni. Þar með yrði hamlað verulega gegn þessum þætti nýsköpunar, og jafnvel fleirum, þannig að efnahagslegur skaði gæti hlotist ef. Opinber aðlögunarstuðningur við lífræna sauðfjárrækt gæti vegið eitthvað á móti mismunun smærri búunum í óhag en þetta verður þó að teljast áhyggjuefni.

4) Sjálfbærni sauðfjárframleiðsunnar

Í ljósi þess hve Landssamtök sauðfjárbænda hafa markað greininni metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum, svo sem með áformum um aðgerðir til kolefnisjöfnunar, markvissri vöktun beitilanda, ýmiss konar landbótum og banni við notkun erfðabreytts fóðurs, vekur athygli sá tvískinnungur sem kemur fram með því að beita eigi opinberum

stuðningsaðgerðum gegn smærri búunum. Búskógrækt (agroforestry) á litlum og miðlungsstórum sauðfjárbúum, sem hafa oft land aflögu, er ein vænlegasta leiðin til kolefnisjöfnunar en samt er verið að skerða opinberan stuðning til skógræktar. Einnig koma fram mótsagnir gagnvart gæðastýringuna sem m.a. er ætlað að stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Þarna virðist skorta heildarsýn. Ekki er við hugmyndafræðingana eina að sakast því að hér á landi hefur hvorki verið mótuð landbúnaðar- né byggðastefna.

5) Menningargildi sauðfjárbúskapar

Íslenska sauðkindin og allur búskapur henni tengdur voru og eru enn ríkir þættir í menningu þjóðarinnar. Þetta kann þeim að þykja léttvægt sem einblína á lambakjötið eitt sér og telja að það verði framleitt með hagkvæmustum hætti á sem stærstum búum. Það er þó ekki sjálfgefið.

Reynslan sýnir að margir fjárbændur með smærri og miðlungs bú hafa t.d. ágætt svigrúm til að taka virkan þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu. Ef þeim fækkar til muna gæti slíkt haft áhrif, sérstaklega á hinn menningartengda hluta hennar. Hér kemur nýting ullar og gæra til handverks og listsköpunar við sögu. Þetta tel ég alla vega umhugsunarvert.

Engin tekjutenging

Athyglisvert er að hvorki í reglugerð nr. 1183/2017 um stuðning við sauðfjárrækt, sem vísað var í hér að framan, né í reglugerð nr. 19/2018 um breytingu á reglugerð nr. 1183/2017, þar sem helmingi sauðfjárbænda, þeirra sem áttu 151 vetrarfóðraða kind eða fleiri haustið 2016, er einum veittur stuðningur vegna kjaraskerðingar, í einskiptisaðgerð, eru engar tekjutengingar líkt og almennt gerist þegar greidd eru framlög til einstaklinga úr ríkissjóði, sbr. umræðu um frítekjumark og ellilífeyri. Þannig fær sauðfjárbóndi með engar eða litlar tekjur af öðru en sauðfjárbúskap sömu stuðningsgreiðslur og sveitunginn sem rekur fjárbú af sömu stærð en er með verulegar aukatekjur, svo sem af öðrum búgreinum, hlunnindum og launum ýmiss konar, þar með frá ríki og sveitarfélögum.

Þegar við bætist framangreind mismunun vegna bústærðar og búsetu er eðlilegt að fólk velti vöngum yfir því hvort lífleg þjóðfélagsumræða um jafnrétti, réttlæti og sanngirni sé hugmyndafræðingum og öðrum ábyrgðarmönnum framangreindra reglugerða óviðkomandi. Eitt er víst að þessi stórfellda mismunun getur ekki verið til þess fallin að efla félagslega samstöðu meðal sauðfjárbænda.

Fjárbændur utan lögbýla í „ruslflokk“

Rétt er að það komi hér fram að fjárbændur utan lögbýla, sem fer fækkandi víðast hvar á landinu, og er helst að finna í kaupstöðum og kauptúnum, njóta engra stuðningsgreiðslna. Svo langt er gengið til að tryggja slíkt að þeir fá ekki sama verð og lögbýlabændur fyrir ullina, sem þó vantar á markaðinn, og þeim hefur nú verið úthýst úr gæðastýringunni. Við, því að ég hef verið í þeirra hópi í 60 ár, þurfum enga styrki en það mætti kannski sýna okkur einhverja virðingu. Höfum á tilfinningunni að „kerfið“ hafi sett okkur í einhvers konar „ ruslflokk“ innan sauðfjárræktarinnar.

Eitt er víst að í þéttbýlisstöðunum erum við fjáreigendur tryggustu útverðir sauðkindarinnar og sauðfjárræktarinnar og erum reyndar næsti og nánustu tengiliðir hennar við fjölda barna og fjölskyldna sem m.a. koma til að sjá lömbin á vorin og í réttirnar á haustin. Auk þessa uppeldislega framlags eru við að viðhalda menningarhefðum.

Síðast en ekki síst erum við virkir þátttakendur í þeim félagslega þætti sauðfjárræktarinnar sem felst í framkvæmd lögboðinna fjallskila á haustin. Svo að dæmi sé tekið sjáum við 12 örbændur í Reykjavík, ásamt einu býli í Kópavogi, um öll fjallskil í Seltjarnarnesafrétti hinum forna. Í vetur erum við með samtals 300 kindur á fóðrum og hefur sú tala verið svipuð síðan um aldamót. Við, karlar og konur á ýmsum aldri, förum í tvennar göngur og í eftirleitir eftir þörfum, í lögskilarétt okkar kemur fyrir á 2. hundrað fjár úr öðrum sveitarfélögum og við sendum skilamenn í útréttir. Allt er þetta unnið í góðri samvinnu við fjárbændur í nágrannasveitarfélögunum sem flestir búa á lögbýlum. Við erum öll jöfn í því ágæta samfélagi.

Þess má geta að lokum að Fjáreigendafélag Reykjavíkur átti 90 ára afmæli á sl. jólaföstu, við höfum verið aðilar að uppgræðslu í afréttinum í 40 ár með góðum árangri og erum að undirbúa réttarbyggingu. Hér er engin uppgjöf þótt móti blási.

Sauðfjárbændum um land allt óska ég farsældar á nýju ári.

Reykjavík, á þorrabyrjun 2018.

Ólafur R. Dýrmundsson

Höfundur er stofnfélagi í Landssamtökum sauðfjárbænda, nú með aukaaðild þar og einnig að Bændasamtökum Íslands, er þátttakandi í Fjárvís, slátrar öllu hjá Sláturfélagi Suðurlands og er hluthafi í Ístex hf. 

 

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn
Lesendarýni 12. júní 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn

Í Bændablaðinu miðvikudaginn 24.4. 2024 er viðtal við Jón Kristinsson umhverfisa...

Framtíð veiða með botnvörpu?
Lesendarýni 11. júní 2024

Framtíð veiða með botnvörpu?

Fyrir nokkrum vikum birtist í National Geographic grein sem byggir á viðamikilli...

Hrossaræktin á fljúgandi ferð
Lesendarýni 10. júní 2024

Hrossaræktin á fljúgandi ferð

Þegar ég var í búfræðinámi á Hvanneyri voru heilmikil átök um stefnuna í hrossar...

Saga af forystusauðnum Meistara
Lesendarýni 7. júní 2024

Saga af forystusauðnum Meistara

Árið 2013 fæddust hér á Grindum í Deildardal tvö hrútlömb af forystukyni, voru þ...

Stórkostlegt hugvit fyrir blinda
Lesendarýni 6. júní 2024

Stórkostlegt hugvit fyrir blinda

Það er í frumeðli mannsins að finna nýjar leiðir og lausnir til að einfalda og b...

Ráðuneytið hirtir sveitarstjórnir vegna ágangsmála
Lesendarýni 6. júní 2024

Ráðuneytið hirtir sveitarstjórnir vegna ágangsmála

Ítarlegt álit umboðsmanns Alþingis, dagsett 11. október 2022, fjallaði um aldaga...