Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Sókn
Af vettvangi Bændasamtakana 26. janúar 2024

Sókn

Höfundur: Trausti Hjálmarsson. Höfundur býður sig fram til formennsku í Bændasamtökum Íslands.

Íslenskur landbúnaður hefur um þessar mundir góð tækifæri til þess að snúa vörn í sókn. Í þeim efnum munar miklu að augu og eyru stjórnvalda eru að opnast.

Trausti Hjálmarsson

Til að grípa tækifærin þarf að horfa til þess að endurskoða núverandi rekstrarumhverfi landbúnaðarins því það er ekki að skila bændum nægri  afkomu, sóknarfærin innanlands eru mikil vegna fólksfjölgunar og ferðamennsku og neytendur eru að kalla eftir auknum rekjanleika og hreinleika hvers kyns landbúnaðarafurða.

Á undanförnum árum hafa bændur upplifað þrengingar í rekstrarumhverfi landbúnaðarins. Tollvernd er hætt að virka sem skyldi og veitir ekki þá vernd sem hún þarf að gera til að vera ein af grunnstoðum innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Aðföng í landbúnaði hafa hækkað óhóflega síðustu árin og alvarlegasta birtingarmynd stöðunnar er í fækkun bænda. Um leið erum við að tapa mannauði sem býr yfir sérþekkingu í framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi.

Það er áliggjandi að hefjast handa við að undirbúa sókn íslensks landbúnaðar. Það verður hins vegar ekki gert nema um það ríki samstaða. Bændur þurfa að hafa trú á að henni sé hægt að ná og ríkisvaldið þarf að vera tilbúið til samtalsins. Það skiptir nefnilega máli að allir séu með og skili sínu.

Í mínum huga er það verkefni ríkisins að skapa bændum umgjörð sem styður við samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu. Rétt eins og aðrar þjóðir um allan heim gera.

Tollvernd þarf að vera virk. Það þarf að gefa fyrirtækjum í kjötiðnaði raunveruleg tækifæri til hagræðingar og svo þarf að huga að því hvernig staðið er að beinum stuðningi ríkisins við framleiðsluna. Stuðningur ríkisins skiptir máli við að gefa öllum neytendum, óháð stöðu eða stétt, jafnan aðgang að heilnæmum matvælum á viðráðanlegu verði. Það verður ekki gert með þeim hætti að bændur borgi árum saman með framleiðslunni. Það gefur augaleið að sú þróun getur ekki gengið áfram.

Við sem störfum við landbúnað verðum að geta unnið með stjórnvöldum að því að bæta hag okkar og hefja nú þegar vinnu við nýja búvörusamninga. Samhliða fjölgun Íslendinga stækkar markaðurinn og stækkandi markaður kallar á aukna framleiðslu.

Það á að vera stefna bænda og ríkis að sinna innanlandsmarkaði með innlendri framleiðslu en ekki með þeim hætti sem einkennir síðustu árin að innanlandsframleiðslan ýmist stendur í stað eða gefur eftir. Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst innflutningur á landbúnaðarafurðum sem tekur til sín stöðugt stærri sneið af kökunni.

Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og er ekki einn um það. Hæfni og þekking bænda er mikil, ungt fólk hefur brennandi áhuga á að komast í landbúnað og ég er sannfærður um að nú sé komið að þeim tíma að við getum blásið til stórsóknar í íslenskum landbúnaði. Ég hef hug á því að taka þátt í þeirri spennandi uppbyggingarvinnu sem er fram undan með öllum bændum og er þess fullviss að með góðu samstarfi bænda og búgreina getum við lyft grettistaki á næstu árum.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til formennsku hjá Bændasamtökum Íslands. Nái ég til þess kjöri mun ég á þeim vettvangi leggja mig allan fram um að sýna festu í störfum mínum, efna til öflugs samstarfs við bændur og búgreinadeildir og nálgast verkefni mín af auðmýkt og virðingu fyrir fólki innan samtakanna og utan.

Ég mun því ekki gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku í deild sauðfjárbænda. Ég vil á þessum vettvangi þakka sauðfjárbændum og öllu mínu samstarfsfólki fyrir gott og gefandi samstarf síðustu árin. Það hafa verið hrein forréttindi að fá að leiða stjórn sauðfjárbænda síðustu tvö árin.

Fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt vil ég þakka um leið og ég vonast til þess að ég njóti þess áfram þegar Bændasamtökin velja sér forystu til næstu ára.

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...