Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
„Þannig er framleiðsla að dragast saman bæði í kjötgreinum og garðyrkju og án frekara fjármagns inn í greinarnar er slík þróun einnig fyrirséð til næstu ára. Þessi samdráttur hefur mjög neikvæð áhrif á fæðuöryggi, sjálfbærni og loftlagsmarkmið. Til að snúa þessari þróun við verður að bregðast strax við, enda tekur umtalsvert lengri tíma að auka framleiðslu en að draga úr henni.“
„Þannig er framleiðsla að dragast saman bæði í kjötgreinum og garðyrkju og án frekara fjármagns inn í greinarnar er slík þróun einnig fyrirséð til næstu ára. Þessi samdráttur hefur mjög neikvæð áhrif á fæðuöryggi, sjálfbærni og loftlagsmarkmið. Til að snúa þessari þróun við verður að bregðast strax við, enda tekur umtalsvert lengri tíma að auka framleiðslu en að draga úr henni.“
Mynd / Hlynur Gauti
Af vettvangi Bændasamtakana 11. maí 2023

Landbúnaður í fjármálaáætlun

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Liðið ár var ár áskorana í búrekstri vegna gífurlegra hækkana á öllum helstu aðföngum. Stjórnvöld studdu þó dyggilega við landbúnaðinn, líkt og aðrar þjóðir.

Nú þegar liðnir eru nærri fimm mánuðir af þessu rekstrarári er ljóst að staða landbúnaðarins er lítið betri en hún var fyrir ári síðan. Hækkanir á aðföngum hafa lítið gengið til baka en auk þess hefur aðkeypt þjónusta og fjármagnskostnaður hækkað verulega. Bændasamtökin telja afar brýnt að stjórnvöld bregðist nú þegar við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í landbúnaði. Það eru verulegir brestir í rekstrarstoðum landbúnaðarins, sem nú þegar kemur fram í verulegum samdrætti í framleiðslu. Í ljósi stöðu matvælaframleiðslu í heiminum ættu stjórnvöld að huga að hvötum sem efla innlenda framleiðslu enda er og verður innlend landbúnaðarframleiðsla grunnur að fæðuöryggi þjóðarinnar.

Landbúnaður í fjármálaáætlun 2024–2028

Í fjármálaáætlun eru helstu áherslur sem snerta landbúnaðinn svofelldar:

  • Efla fæðuöryggi og standa vörð um heilbrigði plantna og dýra, velferð dýra og öryggi matvæla.
  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu.
  • Skapa skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbæra landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi.

Þá eru í landbúnaðarkafla fjármálaáætlunarinnar talin upp nokkur atriði sem stjórnvöld líta á sem helstu áskoranir innlends landbúnaðar á komandi árum en þau eru:

  • loftslags- og umhverfismál sem talin er ein helsta áskorunin
  • nýsköpun
  • matvælaöryggi
  • örari breytingar á neyslumynstri
  • auknar kröfur neytenda um upplýsingar um uppruna matvæla
  • framleiðsluhættir
  • umhverfisáhrif
  • fæðuöryggi, og er þá bæði átt við að framleitt sé til innanlandsþarfa og tilheyrandi þarfa fyrir aðföng þannig að sú framleiðsla geti orðið.

Miðað við þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til málaflokksins verður að telja að markmið bæði áranna 2024 og 2028, sem snúa beint að framleiðendum, séu með öllu óraunhæf. Þannig er framleiðsla að dragast saman bæði í kjötgreinum og garðyrkju og án frekara fjármagns inn í greinarnar er slík þróun einnig fyrirséð til næstu ára. Þessi samdráttur hefur mjög neikvæð áhrif á fæðuöryggi, sjálfbærni og loftslagsmarkmið. Til að snúa þessari þróun við verður að bregðast strax við enda tekur umtalsvert lengri tíma að auka framleiðslu en að draga úr henni. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging framleiðslu sem fer að skila eðlilegum afurðum taki 3–7 ár eftir greinum.

Fjárfestingargeta atvinnugreinarinnar

Sé miðað við það fjármagn sem stjórnvöld áætla að veita til kornræktar á næstu fjórum árum er langt í land með að grundvallar starfsskilyrði fyrir aukinni kornrækt séu til staðar, s.s. tryggingavernd og afkomutryggingar.

Fjárfestingargeta er grundvöllur þess að hægt sé að aðlaga framleiðslu að nýjum, umhverfisvænni og loftslagsvænni framleiðsluaðferðum. Afkoma í mörgum greinum landbúnaðar er óásættanleg vegna mikilla aðfangahækkana sem ekki hefur verið hægt að velta út í verðlag, auk þess sem innlendar breytur er varða starfsskilyrði hafa einnig haft neikvæð áhrif. Því er fjárfestingargeta bænda lítil eða engin til að aðlaga sína starfsemi í samræmi við markmið stjórnvalda samkvæmt fjármálaáætlun.

Endurskoðun búvörusamninga

Þessa dagana standa yfir viðræður við samninganefnd matvælaráðuneytisins um endurskoðun núgildandi búvörusamninga. Haldnir hafa verið fjórir fundir um þau atriði sem fulltrúar bænda á búgreinaþingi samþykktu að leggja ætti áherslu á við endurskoðunina. Þar koma fram ýmis lagatæknileg atriði sem nauðsynlegt er að laga og samninganefndin sammála um það. Aftur á móti er staðan erfið og við þessa endurskoðun hafa fulltrúar í samninganefnd ríkisins í raun enga heimild til að semja um aukna fjármuni inn í samningana sem eru í gildi, þrátt fyrir erfiða stöðu í frumframleiðslu matvæla hér á landi. Bændur eru að kljást við miklar hækkanir á aðföngum. Þá hefur launaþróun á almennum vinnumarkaði haft sitthvað að segja.

Í búvörulögum segir að tryggja skuli afkomu bænda. Hvernig náum við því fram ef vilji til að koma til móts við bændur er enginn? Ráðherra matvæla hefur lagt fram á þingi metnaðarfulla landbúnaðarstefnu á þingi sem tekur á að efla framleiðslu hér á landi. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar endurspeglar aftur á móti í engu þessi metnaðarfullu markmið um eflingu matvælaframleiðslu hér á landi. Molar eru líka brauð sagði einhver, og það á ekki að gera lítið úr 500 milljónum á ári næstu fjögur árin til eflingar kornframleiðslu, sem ég vonast til að nýtist bændum vel í komandi framtíð. Vandinn er hins vegar mun stærri og bregðast þarf við þeim vanda sem steðjar að framleiðslu búvara og þá sérstaklega í kjötafurðum sem framleiddar eru hér innanlands. Ef til vill er kominn tími á að búvörusamningar verði endurskoðaðir á hverju ári en ekki á fjögurra ára fresti?

Loftslagsmálin

Þrátt fyrir að ekki sé fjallað um loftslagsmál í gildandi búvörulögum þá er mikið fjallað um þann málaflokk í tillögu matvælaráðherra til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Í ljósi þeirra víðtæku markmiða og umfangsmiklu aðgerða sem þingsályktunartillagan boðar varðandi samspil landbúnaðar og loftslagsmála verður að telja nauðsynlegt að slíkir samningar verði gerðir milli núverandi samningsaðila búvörusamninga, auk umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Til að ná markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og til að auka bindingu verður að beina verulega auknu fjármagni í formi fjárfestingastuðnings og jákvæðra hvata til landbúnaðartengdra verkefna.

Þá verður að nefna að verulega aukin innlend grænmetisframleiðsla er ein af þeim forgangsaðgerðum í landbúnaðarmálum sem tiltekin eru í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Innlend grænmetisframleiðsla hefur hins vegar verið að dragast saman vegna óhagstæðrar afkomu og starfsskilyrða.

Umræða um kolefnisspor og umhverfismál í samfélaginu snerta bændur og markmiðið sem stefnt er að hlýtur að hverfast um kolefnisjöfnun á innanlandsframleiðsluna sem bændur eru að hluta til ábyrgir fyrir. Á þessum málum þarf að taka svo það sem telst til betri rekstrar skili sér til hagsbóta fyrir landbúnað. Á meðan eru bændur hvattir til þess að taka þátt í verkefnum eins og Loftslagsvænum landbúnaði, þar sem hver þátttakandi, hvert bú, metur möguleika til aðgerða í sínum rekstri. Þannig hafa flestir þátttakendur farið í aðgerðir sem snúa að því að minnka olíunotkun, bæta nýtingu búfjáráburðar og tilbúins áburðar eða auka afurðir. Þá eru miklir möguleikar í bindingu kolefnis í landgræðslu og skógrækt. Kolefnisbrúin er mjög mikilvægt verkefni sem unnið hefur verið að undanfarin ár sem loksins er að raungerast sem tæki bænda til aukinnar bindingar á kolefni á landi bænda um allt land. Við spyrjum okkur að því á hverjum degi hver sé staðan í dag á grunni landbúnaðar, ræktun lands, landgræðsla og binding á eldri skógum sem bændur hafa plantað til dagsins í dag?

Starfslok

Að lokum vil ég nota tækifærið, nú þegar okkar ágæti fjármálastjóri, Gylfi Þór Orrason, hefur látið af störfum sem fjármálastjóri eftir 40 ára starf hjá Bændasamtökunum. Færum við honum okkar innilegustu þakkir fyrir störf hans í þágu bænda og óskum honum alls hins besta í framtíðinni, takk fyrir, Gylfi.

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...