Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kýr eiga rétt á að bíta gras
Af vettvangi Bændasamtakana 15. apríl 2024

Kýr eiga rétt á að bíta gras

Höfundur: Hilmar Vilberg Gylfason, yfirlögfræðingur Bændasamtaka Íslands og fulltrúi samtakanna í fagráði um velferð dýra.

Þó að kýr séu dýr njóta þær ýmissa réttinda. Þetta kann að hljóma furðulega en er samt sem áður hluti af þeirri umgjörð sem sköpuð hefur verið í kringum dýrahald á Íslandi.

Hilmar Vilberg Gylfason.

Kýr geta eðlilega ekki sjálfar leitað til dómstóla til að fá úrlausn sinna mála og því eru það eigendur eða umráðamenn kúnna sem eru ábyrgir fyrir því að þær njóti sinna réttinda. Með lögum um velferð dýra er til dæmis sett það markmið að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Auk þess segir í lögunum að umráðamönnum dýra beri að tryggja dýrunum góða umönnun, þar með talið að tryggja grasbítum beit á grónu landi á sumrin. Þessi skylda er nánar útfærð í reglugerð um velferð nautgripa þar sem segir: Allir nautgripir, að undanskildum graðnautum, skulu komast á beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta, á tímabilinu frá 15. maí til 15. október ár hvert. Aðgangur að útigerði uppfyllir ekki kröfu um útivist á grónu landi.

Getur bóndi fengið sekt eða farið í fangelsi?

Fyrir stuttu lagði MAST stjórnvaldssektir á þrjá kúabændur á Vesturlandi sem höfðu samkvæmt stofnuninni ekki tryggt útivist kúa sumarið 2023. Um var að ræða umtalsvert háar sektir, eða á bilinu 350-540 þúsund krónur. Rétt er í þessu sambandi að hafa í huga að þessir sömu bændur, bæti þeir ekki úr, geta fengið sekt aftur á þessu ári og þannig áfram. 

Í lögum um velferð dýra er sérstaklega tekið fram að sé brotið gegn tilteknum umönnunarskyldum, sem eru meðal annars þær að tryggja útivist kúa, er heimilt að krefjast refsiábyrgðar með fangelsi allt að einu ári. Miðað við að MAST hafi beitt sektarákvæðum í fyrrnefndum málum þá verður að telja að mál þurfi að vera umfangsmeiri til að reyni á refsiábyrgðina en þó verður að hafa í huga að skyldan til að tryggja útivist er árleg. Þannig má gera ráð fyrir að það kæmi til álita hjá stofnuninni að kæra til lögreglu brot gegn því að tryggja útivist kúa ef brotið er almennt gegn þessari skyldu og viðkomandi bóndi hefur brotið gegn henni ítrekað.

Þungur dómur féll á dögunum í héraðsdómi í máli sem byggir á sömu réttarheimildum, en þar var bóndi dæmdur í 3ja mánaða fangelsi fyrir stórfelld brot. Í málinu reyndi á sömu ákvæði og skyldan um útivist kúa byggir á. Samkvæmt dómnum hafði ýmislegt farið aflaga í búrekstri viðkomandi bónda svo sem skortur á umhirðu, vanfóðrun gripa og gripum ekki komið til aðstoðar. Þessu máli verður því á engan hátt líkt við brot á borð við að tryggja ekki útivist kúa, hið minnsta standi það brot eitt og sér.

Hvernig er hægt að sanna svona brot?

Það er umhugsunarvert hvernig eftirlitsstofnun eins og MAST geti sinnt eftirliti með útivist kúa. Raunverulega er vandséð að það sé yfirleitt hægt þar sem gerð er krafa um að hver gripur komist á beit á grónu landi hið minnsta í átta vikur á hverju ári. Þegar kemur að því að eftirlitsstofnun telji þörf á að sekta eða senda mál í ákæruferli þá verður stofnunin að hafa uppfyllt allar skyldur samkvæmt stjórnsýslulögum, þar á meðal rannsóknarregluna. Einnig er skýrt í lögum um meðferð sakamála að fari mál í ákæruferli þá hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja megi honum í óhag, á ákæruvaldinu.

Þrátt fyrir að það séu augljósir vankantar á því að hafa eftirlit með kröfum eins og útivist kúa er ekki útilokað að eftirlitsstofnun/ ákæruvaldið geti sýnt fram á brot gegn slíkum skyldum, til dæmis á grundvelli eftirlitsskýrslna, vettvangsskoðana og með skýrslutökum.

Hugleiðingar

Þeim sem þetta ritar er kunnugt um að ýmis rök eru fyrir því að bændur telja sér ekki fært að setja mjólkurkýr út á beit. Má þar nefna aukna slysatíðni hjá gripunum, júgurslit og að nyt falli verulega. Í rekstri kúabúa eru öll þessi atriði talin áföll sem hafa í för með sér fjárhagslegt tjón auk þess sem bændur reyna eðlilega eftir fremsta megni að komast hjá slysum á gripum.

Stjórnvöld leggja í dag ofuráherslu á framleiðni í landbúnaði, en það sjónarmið kom ítrekað fram við samningaborðið við nýafstaðna endurskoðun búvörusamninga. Þegar kerfi sem byggja á dýrahaldi eru leidd af slíkum markmiðum þá er hætta á að markmið dýravelferðar og framleiðnimarkmið fari að rekast á. Hluti af ímynd íslensks landbúnaðar er mikið heilbrigði gripa og þar þurfum við að vera til framtíðar, útivist kúa hefur fram að þessu verið talin nauðsynleg til að tryggja það.

Spyrja þarf því þeirrar spurningar hvort vel hannað, vel hirt og vel loftræst lausagöngufjós tryggi velferð gripanna. Þessi mál þarf að skoða þannig að hægt sé að finna leið sem samræmir markmið dýravelferðar og markmið um aukna framleiðni sem jafnframt hefur beina tengingu við loftslagsmarkmið stjórnvalda.

Tilvísanir:
Lög um velferð dýra nr. 55/2013, aðallega 1. gr., 14. gr., 42. gr. og 45. gr. Reglugerð um velferð nautgripa nr. 1065/2014, aðallega 17. gr. og 18. gr. Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008, aðallega 108. gr. Héraðsdómur Austurlands, dómur nr. S-197/2023. Frétt á vef MAST, dags. 1.3.2024: Dagsektir og stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um velferð dýra.

Ullarævintýri á krossgötum
Lesendarýni 28. apríl 2025

Ullarævintýri á krossgötum

Þau tímamót urðu á dögunum að Flóahreppur seldi eitt af félagsheimilum sínum, þa...

Sátt um lok á samkeppnismálum Mjólku og Mjólkursamsölunnar
Lesendarýni 28. apríl 2025

Sátt um lok á samkeppnismálum Mjólku og Mjólkursamsölunnar

Vorið er árstíð bænda. Þá lifnar landið og gróandi klæðir landið. Af því tilefni...

Samdráttur í kartöfluuppskeru
Lesendarýni 22. apríl 2025

Samdráttur í kartöfluuppskeru

Hagstofa Íslands sló upp á forsíðu sinni nýlega að kartöfluppskeran 2024 hefði v...

Matvöruverðbólga – af hverju hækkaði matvælaverð mismikið milli landa?
Lesendarýni 15. apríl 2025

Matvöruverðbólga – af hverju hækkaði matvælaverð mismikið milli landa?

Á árunum 2021 til 2025 hækkaði matvælaverð í Evrópu víða verulega.

Innflutningur á erlendu kúakyni til mjólkurframleiðslu
Lesendarýni 14. apríl 2025

Innflutningur á erlendu kúakyni til mjólkurframleiðslu

Í kjölfar umræðu um innflutning á erlendu kúakyni til mjólkurfram - leiðslu vill...

Táknmynd Íslands
Lesendarýni 2. apríl 2025

Táknmynd Íslands

Hver skyldi myndin vera sem kemur upp í huga flestra útlendinga þegar Ísland er ...

Hringrásargarðar á Íslandi
Lesendarýni 1. apríl 2025

Hringrásargarðar á Íslandi

Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþr...

Tilhæfulaus fyrirgangur
Lesendarýni 27. mars 2025

Tilhæfulaus fyrirgangur

Að undanförnu hefur mikill fyrirgangur verið vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjór...