Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Helstu verkefni deildar nautgripabænda
Mynd / Jón Eiríksson - úr safni Bændablaðsins
Af vettvangi Bændasamtakana 19. desember 2023

Helstu verkefni deildar nautgripabænda

Höfundur: Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda.

Í þessari grein ætla ég að fara yfir nokkur af þeim verkefnum sem hafa verið á borði stjórnar deildar nautgripabænda síðustu misseri.

Rafn Bergsson.

Rekstrarskilyrði í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu hafa farið hratt versnandi undanfarið.

Þrátt fyrir hækkanir á afurðaverði duga þær alls ekki til. Nautgriparækt er fjármagnsfrek grein, það er mikið fjármagn bundið í jörð, húsum, tækjum, búnaði o.fl. miðað við veltu. Því til viðbótar hafa bændur byggt mikið upp undanfarið og bætt aðstöðu og aðbúnað mikið.

Þetta veldur því að þær gríðarlegu vaxtahækkanir sem dunið hafa á undanfarið bitna gríðalega illa á greininni. Það er verulegt áhyggjuefni að harðast bitnar þetta á fólki sem hefur nýlega hafið búskap eða hefur verið að fjárfesta til framtíðar.

Það er að segja þeim sem ætlar að framleiða matvæli til framtíðar. Þessu verður að bregðast við.

Endurskoðun búvörusamninga

Endurskoðun búvörusamninga á að fara fram á árinu 2023. Vinna við það hófst í vor með fundum með hverri búgrein fyrir sig. Í byrjun maí var komið að nautgriparæktinni.

Á þessum fundi var farið yfir tillögur og áherslur frá búgreinaþingi varðandi búvörusamninga. Það kom ítrekað fram í þessum viðræðum að engir viðbótarfjármunir kæmu inn í samningana. Þann 28. september kynntu Bændasamtök Íslands fulltrúum matvæla- og fjármálaráðuneytisins í nefnd um endurskoðun búvörusamninga kröfugerð BÍ vegna endur- skoðunarinnar. Fljótlega á eftir var skipaður starfshópur þriggja ráðuneytisstjóra um fjárhagsvanda í landbúnaði og hefur verið beðið eftir hvað út úr þeirri vinnu kæmi. Nýlega voru niðurstöður hópsins kynntar.

Ljóst er að hópurinn hefur farið í talsverða vinnu til að greina stöðuna og eru niðurstöðurnar í takt við það sem Bændasamtökin hafa haldið fram. Það er jákvætt að skilningur á stöðunni sé með sama hætti. Í niðurstöðunum felst viðurkenning á að staðan er óviðunandi. Það er hins vegar alveg ljóst að þær aðgerðir sem þar eru boðaðar duga alls ekki til að taka á þeim vanda sem margir kúabændur eru í. Bæði eru of litlir fjármunir til skiptanna og eins eru alltof margir sem falla utan við þá hópa sem aðgerðirnar ná til. Það þarf að fara í róttækari aðgerðir til að tryggja rekstrargrundvöll kúabænda til framtíðar svo við komumst út úr þessum endalausu plástursaðgerðum sem skila litlu til lengri tíma litið.

Jöfnun sæðingakostnaðar

Jöfnun kostnaðar við kúasæðingar hefur verið lengi til umræðu. Á aðalfundum Landssambands kúabænda 2019 og 2020 voru samþykktar ályktanir um að leita skyldi leiða til að jafna kostnað bænda við kúasæðingar. Í lok árs 2020 var skipaður starfshópur um málið. Hópurinn skilaði niðurstöðum að hausti 2021. Lítið gerðist í málinu næstu misseri en síðla árs 2022 var þráðurinn tekinn upp aftur og fundað með búnaðarsamböndunum sem reka sæðingastarfsemi.

Niðurstaðan var að þrír aðilar vildu sinna sæðingunum, það eru Búnaðarsamtök Vesturlands, Búnaðarsamband Suðurlands og Búnaðarsamband Eyjafjarðar sem tæki yfir Skagafjörð og Húnavatnssýslur. Framkvæmdastjóri Bssl hefur leitt vinnu þessara aðila við að leggja mat á aðstöðumun milli svæða sem að mestu leyti er tilkominn vegna mikils munar á akstri á hverja sæðingu.

Í framhaldi var óskað eftir breytingu á reglugerð til að tryggja fjármuni til að jafna þennan aðstöðumun. Og mun nýtt fyrirkomulag taka gildi um næstu áramót.

Kyngreining á sæði

Í mars síðastliðinn kom út skýrsla um möguleika á kyngreiningu á nautasæði hér á landi. Í framhaldinu var stofnaður starfshópur skipaður fulltrúum Bændasamtakanna, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Nautastöðvarinnar og Fagráðs í nautgriparækt til að vinna að innleiðingu á tækninni. Hópurinn hefur verið að skoða hvernig best verði staðið að verkefninu.

Nauðsynlegt er að vanda til verka bæði til að reksturinn á kyngreiningunni verði sem hagstæðastur og ekki síður til að viðunandi árangur náist sem allra fyrst. Tvenns konar tækni er í boði til kyngreiningar og er nú verið að meta hvor tæknin hentar okkar aðstæðum betur. Vonandi liggur það fyrir fljótlega á nýju ári og í framhaldinu komist meiri hreyfing á verkefnið.

Hugum að eigin líðan

Þessi misserin eru margir að kljást við erfiða skulda- og fjárhagsstöðu. Ég þekki vel af eigin raun, frá fyrri tíð, hvernig er að vera í þessum sporum. Það er lýjandi og erfitt að vera endalaust með kvíða og áhyggjur af stöðunni og hvað framtíðin beri í skauti sér. Því hvet ég ykkur sem í þessari stöðu eruð til að vera ófeimin við að leita eftir aðstoð eftir þörfum. Hvort sem er fjármálaráðgjöf til að leita að leiðum til að bæta stöðuna og ekki síður aðstoð ef andlega líðanin er ekki nægilega góð. Það er auðvelt í þessum aðstæðum að falla í vonleysi og þunglyndi. En það gerir málin enn erfiðari úrlausnar ef fólk nær ekki að vera í þokkalegu jafnvægi og halda einbeitingu á verkefnið.

Að lokum vil ég óska bændum gleðilegra jóla og farsæls nýárs. Með von um bjartari tíma fyrir íslenskan landbúnað.

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...