Ljós í myrkri
Hver sem tekur sólböð háfjallasólarinnar – Original Hanau – finnur andlegt fjör færast í sig, kemst í gott skap og verður glaðlyndur.
Svo hljóðaði auglýsing Raftækjaeinkasölu ríkisins sem birtist í Læknablaðinu árið 1937. Samkvæmt „Skýringum fyrir almenning“ í 21. tbl. Skjaldar, þrettán árum áður, hafði akkúrat komið fram að þessi uppgötvun læknisfræðinnar, tilbúin háfjallasól, hefði undraverð áhrif. „Ultra fjólubláir geislar frá tilbúinni háfjallasól má t.d. nota til þróttaukningar og eflingar við næstum því alla sjúklinga og næstum því allar aðrar lækningaaðferðir yfirleitt, einkum þegar fólk er að ná sjer eftir sjúkdóma. Geislunin verkar á húðina og flýtir fyrir og eykur áhrif annarra aðferða eða lyfja.“ segir í skýringunum.
Árið 1895, nokkuð fyrir þessar „skýringar“ , birtist pistill Boga Melsteð, sagnfræðings og alþingismanns, í Eimreiðinni þar sem hann fjallar um rannsóknarvinnu læknisins Niels Finsen. Niels þessi átti rætur að rekja til Íslands, lauk læknisprófi frá háskólanum í Kaupmannahöfn árið 1890 og var mikill talsmaður ljósbaða. Má segja að sólarljósið hafi átt hug hans allan, en í annarri af tveimur rannsóknarritgerðum sínum mælti hann með að bólusjúklingar lægju í herbergi þar sem rauð tjöld færu fyrir glugga svo birtan yrði rauð þegr sólin skini. Kemur fram í pistli Boga: „Varð reynslan sú, að í rauðu birtunni tók bólan miklu vægar á sjúklingunum, bólgan í hörundinu eða bólurnar urðu miklu minni og á sjúklingana komu engin ör.“ Hin ritgerðin fjallaði um skaðvænleg áhrif blárra og fjólublárra geisla á líkamann enda hefur komið á daginn að með tímanum geti þeir leitt til húðkrabbameins.
Ljósböð og dagsbirtuljós
Háfjallasólin tilbúna naut þó ákafra vinsælda þarna í byrjun 20. aldarinnar og er ekki annað hægt að segja en að vinsældir hennar hafi einungis aukist með árunum. Snyrti- og nuddstofur hófu að bjóða upp á tíma í slíkum ljósum enda hraustlegt og heilbrigt útlit eitthvað sem allir sækjast eftir. Einnig buðu barnaskólar fimmta og sjötta áratugarins (oft heilsulitlum) nemendum upp á ljósböð í háfjallasól og voru börn reglulega send í ljós, a.m.k. eftir hádegi. Í Foreldrablaðinu árið 1943 birtist tilkynning frá Austurbæjarskólanum í Reykjavík: „Vegna þess hve spennan er lág a rafmagni fyrir hádegi, hefur ekki verið hægt að hafa ljósböðin fyr en kl. 12,15. Nú eru um 200 börn sem hafa ljósböð og er tímabil það, sem hver flokkur hefur í ljósböðunum ca 21/2 mánuður, annanhvern dag.“
Í dag eru skiptar skoðanir um notkun ljósalampa vegna skaðvænlegra geisla þó þeir geti einnig hresst upp á sinnið. Með það í huga mætti reyna að versla sér svokölluð „dagsbirtuljós“ akkúrat í þeim tilgangi, sbr. auglýsingu frá Eirberg. Þar segir að ljósin „bæti líðan og auki afköst“ – en um ræði sérstakar „dagljósa LED perur og Class 2a lækningartæki.“
Ímynd yfirstéttar
Eins og fram hefur komið virðist sólbrúnka bæði bæta og kæta auk þess sem hressilegt litarhaft gefur ímynd yfirstéttarinnar ... ef marka má orð núverandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, sem er um þessar mundir appelsínugulur að lit.
Leikmenn benda þó á að hvítur litur nálægt hársvæði Trumps gefi til kynna aðdáanda spray-tan meðferðar þar sem viðkomandi er spreyjaður með lit að eigin vali. Hvíti liturinn í þessu tilfelli vekur einnig spurningar þess efnis hvort forsetinn sé appelsínugulur frá toppi til táar eða einungis í andlitinu.

Vegferð gulrótarkrema
Hvaða stefnu sem maðurinn hefur tekið í málunum hvað þetta varðar má ekki gleyma brúnkuslysum tíunda áratugarins. Þá ruddu brúnkukremin sér til rúms og margir unglingarnir mökuðu á sig sem hluta af morgunrútínu þess tíma.
Þessi forláta krem voru gjarnan borin á andlit og líkama með fingurgómunum og útkoman því oft nokkuð flekkótt. Og/eða mis-gul.
Clarins var helsta brúnkukremið á markaðnum en það birtist neytendum árið 1990 og þótti gefa ansi fagurgula áferð. Jafnvel út í appelsínugult. Eitthvað gleymdist stundum að lesa fylgiseðla kremanna og því kom ósjaldan fyrir að fingurnir yrðu brúnir líka þegar andlitið var smurt. Enda kannski gæfulegra að þvo sér um hendurnar á milli eða jafnvel nota hanska. Sólbaðsstofur almennings sem höfðu sprottið upp úti um land allt á þessum árum og buðu svo þeim allra hörðustu upp á aukaskammt áður en farið var í ljósabekki, þá sérstakan áburð í þunnu bréfi sem seldur var á sólbaðsstofunum, appelsínugulan og angandi af gulrótum.
Í dag er enn móðins að vera sem hraustlegastur að lit, hvernig svo sem sálinni líður. Vinsælt er meðal ungmenna að nota áströlsku Bondi Sands sjálfsbrúnkuvörurnar sem bæði eiga að veita húðinni raka, ljóma og næringu, prófaðar undir eftirliti húðlækna. Vörur Marc Inbane þykja gefa fallega og jafna brúnku samkvæmt auglýsendum og einnig verður að minnast á St. Tropez línuna - sem þó má ekki rugla saman við Hawaaian Tropic gleðina sem tröllreið áratugum X kynslóðarinnar.
Af þessari yfirferð brúnkukrema, spray-tana og ljósabekkjaferða má sjá að hraustlegt útlit heldur alltaf velli þrátt fyrir misgóða upplifun neytenda í gegnum árin. Kannski spurningin hvað hentar hverjum og einum. Sú ráðgáta er einungis leyst með því að reyna þetta allt saman og verða brúnn og sællegur sem allra fyrst.