Lilja Magnúsdóttir á ferð um slóðir Auðar djúpúðgu í Orkneyjum haustið 2024. Auður er amma Lilju í 32. lið.
Lilja Magnúsdóttir á ferð um slóðir Auðar djúpúðgu í Orkneyjum haustið 2024. Auður er amma Lilju í 32. lið.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 3. júlí 2024

Kanntu að meta sögur?

Höfundur: Bryndís Sigurðardóttir

Á veraldarvefnum, sem sumir hér í eina tíð töldu vera „bólu“, eða að minnsta kosti einhvern óþarfa, má finna alls konar vitleysu og bull en líka ómetanlegar og aðgengilegar upplýsingar.

Á vefnum Eldsveitir.is má finna gríðarlegan fróðleik en afar lítið af bulli, yfirskrift vefsins er sú að hann sé fyrir alla sem kunna að meta sögur. Um vefinn segir að hann sé um sögu, menningu og náttúru í Skaftárhreppi, sveitinni milli Mýrdalssands og Skeiðarársands, „frá fjöru til fjalla“.

Hlaupabrókin hennar Kötlu

Á vefnum sem skipt er upp í svæði; Álftaver, Kirkjubæjarklaustur, Landbrot, Meðalland og Skaftártungu, má finna alls konar frásagnir sem gaman og upplýsandi er að lesa.

Í kaflanum um Álftaver segir til dæmis af hinni geðstirðu Kötlu sem átti hlaupabrókina góðu en svo drekkti hún honum Barða í sýrukerinu fyrir að hafa hagnýtt hlaupabrókina við smölun. Af Sturlu Arngrímssyni, sem bjargaði barni sínu undan Kötlugosi með flótta á ísjaka og nærði það með eigin blóði úr afskornum geirvörtum sínum. Í frásögn af munkaklaustrinu í Þykkvabæ í Veri kemur fram að hið fræga og fagra kvæði Lilja varð til þegar Eysteinn munkur var settur í straff eftir að hafa óhlýðnast Þorláki sem síðar varð helgur maður.

Frá Landbroti kom Gissur Einarsson, fyrsti lúterski biskup Íslands, það upplýsist líka að Bjarni í Hólmi var frumkvöðull í uppbyggingu rafstöðva, ásamt fleirum auðvitað. Færri vita að efniviðurinn í rafstöðvarnar var oft sóttur á fjörurnar hvar skipsströnd voru algeng eða að kennslubókin „Lommebog for Mekanikere“ var það eina sem menn höfðu sér til fróðleiks við smíði rafstöðva á þessum stað og á þessum tíma.

Í Meðallandi hefur löngum verið harðbýlt og sandurinn skeinuhættur. Sandstormar hafa ítrekað fært blómlegar jarðir í kaf og í eyði, eftirminnilegast er árið 1944 þegar hinn forni þingstaður Leiðvöllur fór í eyði eftir ofsarok. Ábúendur á bænum Feðgar þraukuðu eitt ár en yfirgáfu allt sitt ári síðar, eða árið 1945. Í dag er Meðallandið gróið svæði og mikill árangur hefur náðst í uppgræðslu. Þar er nú til dæmis ræktað bygg, repja og hafrar sem fást í betri búðum, merktir Sandhóli.

Á Eldsveitum.is má lesa um Guðrúnu húsfreyju í Hrífunesi sem tók mormónatrú, yfirgaf eiginmann og syni og flutti til Utah með dæturnar. Þar eru líka fallegar myndir og upplýsingar um sveitarinnar frægasta son, listmálarann Erró, sem ólst upp á Kirkjubæjarklaustri.

Silungamóðirin í Fljótsbotninum við Botna í Meðallandi er mergjuð þjóðsaga. Sagan er á Eldsveitum. Bjargey Magnúsdóttir og Sesselja Magnúsdóttir við Fljótsbotninn. Mynd / LM

Hver ber ábyrgð á þessu?

En hvernig kom það til að svona miklum fróðleik var safnað saman og gerður aðgengilegur á vefnum? Sökudólgurinn, ef svo má að orði komast, er borgfirsk mey sem ung heillaðist af sveitinni milli sanda, eða var það kannski pilturinn frá Kirkjubæ sem fangaði athygli hennar?

Raunar má rekja tilurð Eldsveita.is til meistaraprófs Lilju Magnúsdóttur í hagnýtri ritstjórn frá Háskóla Íslands. Ritgerðarefni hennar var einmitt þetta stórmerka safn sagna um svæðið og mynda sem er grunnur vefsins. Hugmyndin í upphafi var að gefa út bók en niðurstaðan varð hinn síkviki og endalausi viðtaki visku, veraldarvefurinn. Vefurinn er í stanslausri þróun og við bætast nýjar sögur og myndir.

Var það kannski bara pilturinn?

Lilja og Benni bjuggu sér og börnum sínum, Ólöfu Rún listakonu og Baldvini Lár matreiðslumeistara, heimili að Kirkjubæ 1, sem er æskuheimili Errós, en hafa sömuleiðis aðsetur í Kópavogi þar sem Lilja hefur starfað um árabil sem íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi. Eða, réttara sagt, starfaði, því nú hefur hún látið draum sinn rætast og situr við skriftir dagana langa, hvort sem það er við skrifborð í Kópavogi eða á Kirkjubæjarklaustri, við hinn fagra Systrafoss.

Rithöfundurinn hefur alltaf blundað í Lilju og árið 2008 hlaut hún Gaddakylfuna fyrir smásöguna Svikarinn. Árið 2018 var komið meira kjöt á beinin og þá kom út samnefnd skáldsaga sem fjallar um konu sem bjó við einelti sem barn. Einmanaleikinn og hræðsla við samskipti hrekur hana í samband við kvæntan mann sem kann nú ekki góðri lukku að stýra. Skáldsagan Svikarinn var tilnefnd til Íslensku hljóðbókaverðlaunanna árið 2019.

Nú var ekki aftur snúið, konan komin á bragðið og árið 2022 kom út barnabókin Gaddavír og gotterí. Efni hennar eru smásögur úr uppvexti Lilju í Borgarfirði, hún er fjórða í röð sex systkina og nærri má geta að oft hafi verið líf í tuskunum. Þegar upp var staðið eru sögur úr sveitinni sem gerast upp úr miðri síðustu öld ekki síður áhugaverðar fyrir fólk sem upplifði sveitalífið á þeim tíma á eigin skinni, þó auðvitað hafi börn nútímans gaman af þeim líka.

Sögurnar í Gaddavír og gotterí eru í sjálfu sér skilgreining á manneskjunni Lilju Magnúsdóttur og leggur grundvöllinn að hennar eigin tilveru, sveitastelpa í stórum systkinahóp með öllum þeim sigrum og sorgum sem því fylgir. Það var engin prinsessustaða í boði en nóg af kærleika og gleði og ómetanlegu baklandi í lífsins ólgusjó. Foreldrar Lilju eru Svanhildur Guðbrandsdóttir, sem er ein tólf systkina frá Tröð í Kolbeinsstaðahreppi og Magnús Halldórsson, sem ólst upp í Álftártungu á Mýrum hjá góðu fólki og eignaðist þar fimm fóstursystkini en fyrir átti hann eina alsystur, seinna fæddust þrjú hálfsystkini þegar Lilja, móðir hans, giftist Ingólfi á Hrafnkelsstöðum. Magnús lést árið 2023 en Dedda, eins og Svanhildur er oftast kölluð, býr í Mosfellsbæ. Maggi og Dedda bjuggu ásamt börnum sínum lengst af á Hraunsnefi í Norðurárdal þar til þau fluttu í Mosfellsbæ. Þá var Lilja löngu flogin úr hreiðrinu, stundaði íslenskunám í Háskóla Íslands og tók seinna kennararéttindin og meistarapróf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

Benedikt rekur tjaldsvæðið á Kirkjubæ II. Þar er gott svæði fyrir góða gesti eins og Leikhópinn Lottu. Mynd / LM

Flóttamenn eru sveitaómagar nútímans

Lilju er afar hugleikið meðferð okkar og framkoma við flóttamenn og á síðasta ári gaf hún út skáldsöguna Friðarsafnið. Söguhetja Friðarsafnsins er ungur maður sem er ólöglegur á Íslandi. Hann kynnist ungri konu sem aðstoðar hann við að flýja lögreglu. Unga konan er mjög áhugaverð. Hennar helsta áhugamál er að vekja athygli á friði og baráttu fólks á flótta. En hún hefur líka hrifist af manni sem er eldri en hún, heillandi og lífsreyndur. Reyndar svo lífsreyndur að hann veit alltaf hvað er þeim báðum fyrir bestu og smátt og smátt ræður hún ekki neitt við neitt og borðar hollustu sem hann mixar í krukku frekar en kornflexið sem hún var vön að borða.

Lilja segir að hún hafi byrjað að fylgjast með örlögum flóttamanna árið 2014 þegar ungur maður sagðist frekar vilja svelta í hel en flækjast um heiminn þar sem hann er hvergi velkominn.

„Lengi hefur verið farið illa með fátækt fólk á Íslandi en því var ekki bannað að vinna fyrir sér. Fólk á flótta í dag missir réttinn til að bjarga sér. Það má ekki vinna. Það er sett í geymslu á vegum ríkisins og þar skal það bíða mánuðum og árum saman. Þetta eru lög sem ríki Evrópu setja og verið er að herða ef eitthvað er. Biðin drepur alla viðleitni og eyðileggur fólk. Hvernig getur það skaðað okkar samfélag, eða önnur ríki Evrópu, að fólk megi reyna að bjarga sér?“ segir Lilja. Henni finnst afar undarlegt að þetta sé að gerast á sama tíma og það er ekki fólksfjölgun. Flest ríki vanti fleiri hendur til að vinna verkin og þar sé Ísland efst á blaði.

„Hér er frekar beðið um fólk frá öðrum löndum Evrópu sem kemur og vinnur og fer svo heim til sín með launin en fólk sem þarfnast nýrra heimkynna fyrir sig og börn sín. Fólk á flótta er líklegra til að verða hluti af samfélaginu, ef við tökum vel á móti því, en farandverkafólk. Auðvitað getum við ekki tekið á móti öllum en við getum öll talað máli fólks á flótta og komið vel fram við það í orði og á borði,“ segir Lilja.

Á meðan Lilja hefur vakandi auga yfir Eldsveitum.is og bætir inn fróðleik sem henni berst til eyrna, vinnur hún að næstu bók og kennir nýjum Íslendingum íslensku. Kennslan fer fram í fjarnámi þannig að nemendur eru héðan og þaðan af landinu og sumir í öðrum löndum. Kennarinn getur verið í Kópavogi eða setið við fossinn á Klaustri.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...