Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Vistvæn(n) er margrætt lýsingarorð − 1. grein
Fréttir 1. október 2015

Vistvæn(n) er margrætt lýsingarorð − 1. grein

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Á Íslandi eru ekki margar náttúruauðlindir en þær eru gjöfular og dýrmætar. Í hefðbundnum skilningi er um að ræða lífríkið í hafi og á landi, fallvötnin, jarðveginn, jarðhitann og jarðefni til mannvirkjagerðar.
 
Með nokkurri einföldun: 
Tíu til fimmtán fisktegundir, allmargar jurtir, vötn og laxveiðiár, jökulár til virkjana, land til ræktunar og beitar, jarðhiti til hitunar og raforkuframleiðslu og loks sandur, möl og grjót í vegi, hafnir, flugvelli og byggingar. Stór auðlind hefur svo bæst við á undanförnum áratugum: Landslag og lifandi náttúra sem slík, frammi fyrir þeim sem njóta ferðaþjónustu. 
 
Auðvitað má benda á spendýr í sjó eða hveraörverur eða sjávargróður og fleira en meginauðlindir eru það ekki. Svo geta auðlindir eins og drykkjarvatn, vindorka og sjávarorka, jafnvel olía, orðið mikilvægar með tímanum hvað sem efasemdum líður. 
 
En aðalatriðið er þó þetta: Við eigum fáar afkastamiklar auðlindir og þær eru undirstaða samfélagsins.
 
II
Hvernig nýtum við meginauðlindir landsins? Nota má hugtök eins og vistvæn, sjálfbær eða skynsamleg nýting um æskilegar aðferðir og afraksturinn. Um innihald orðanna er hins vegar deilt. Það er eðlilegt og liður í þróun samfélaga á borð við það íslenska sem standa jafn þétt upp að gjöfulli en bæði hverfulli og oft óblíðri náttúru og við gerum.
 
Ari Trausti Guðmundsson.
Hvað sem ólíkum skoðunum eða áherslum líður hefur smám saman orðið einsýnt að horfa ber á allar hliðar nýtingarinnar – sýnin verður að vera heildræn og stefna mótuð bæði til skamms og langs tíma í senn. Auðlindin jarðvegur og nýting hans verður til dæmis ekki slitin úr samhengi við umhverfismál, ekki frekar en við efnahagsmál. Hvað er ræktað og framleitt og hvar? Hver eru þolmörk nýtingar á hverjum stað? Hvað er notað af efnum sem hafa vafasöm áhrif á náttúruna og hve mikið? Hvað af aðföngum er innflutt og hvað innlent? Hverjar eru vegalengdir til afurðastöðva eða neytenda?
 
III
Ræktanlegur jarðvegur á Íslandi er allur yngri en um það bil 11.000 ára. Hann skiptist í tvo flokka miðað við ræktun: Moldríkur (oft þykkur) jarðvegur sem hentar til landbúnaðar, þurr eða framræstur, og svo laus jarðvegur á berangri neðan 400 metra, sem unnt er að vinna upp í hinn flokkinn með trjárækt, lúpínu, melgresi og öðrum heppilegum gróðri.  Reyndar er slík framþróun mjög hæg. 
 
Auðlindin hefur rýrnað harkalega á umliðnum 11 öldum, bæði vegna ofnotkunar jarðargæða (gildir einu hvort brýn nauðsyn bar til eða ekki), langra og kaldra tímabila og ýmissa annarra áfalla í náttúrunni. Á stórum landsvæðum á þetta reyndar ekki við en í virka gosbeltinu og nálægt því er slíkt því miður raunin. 
Örfoka land og stór svæði með mikið rofnum jarðvegi þekkjum við öll en ég hef reynslu af því að margir, ekki hvað síst innlendir og erlendir þéttbýlisbúar, sjá ekkert athugavert við slíkt landslag; telja það náttúrulegt. Sennilega hafa a.m.k. 25–30% gróins jarðvegs rýrnað verulega eða horfið með öllu á einu árþúsundi. Núna er þessi öfugþróun snúin við, þegar á heildina er litið.
 
IV
Hvernig má líta á skynsamlega nýtingu auðlinda í landbúnaði? 
 
Flestar þjóðir hafa lýst yfir að landbúnaður þeirra skuli vera sjálfbær. Á Íslandi er það sammannleg skylda okkar, við okkur sjálf jafnt sem aðra, að framleiða sem mest af matvælum á sem vistvænastan og hagfelldastan hátt miðað við tæknistig hér og nú, og hér eftir. 
 
Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) staðhæfir í ­skýrslu 2014 (The state of food and agriculture 2014):
 
„Fjölskyldurekin býli eru hluti lausna sem þarf til að tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra þróun í dreifbýli; matvælaöryggi heims og vistvæn veröld er háð þeim ríflega 500 milljón fjölskyldubúa sem mynda burðarásinn í landbúnaði flestra þjóða.“ 
 
Hvarvetna í Evrópu og einnig í Norður-Ameríku er sótt að þessari gerð býla og fátt til sparað við að stækka hlut stóriðjureksturs í landbúnaði og ýta undir einokunarþróun; því miður. Um það bera mótmælaaðgerðir bænda og hagtölur vitni. Undir það síðasta hafa svo æ fleiri neytendur tekið undir gagnrýni á þróunina.
 
V
Landbúnaður á Íslandi tekur að stórum hluta til hefðbundinnar kinda/nautakjöts- og mjólkurframleiðslu en einnig tuga annarra búgreina og þjónustu. Langflest eru býlin einmitt fjölskyldurekin og í jafn litlu samfélagi og hér verður svo um langa framtíð. 
 
Í vistvænum breytingum á hefðbundnu greinunum og í nýjabruminu liggur einn helsti lykill að sjálfbærum landbúnaði og lífvænlegu dreifbýli sem æ fleiri munu sennilega kjósa sér með aukinni tækni og betri samgöngum. Breytingarnar eiga aðallega að taka mið af vandaðri verndarstefnu gagnvart umhverfinu, af sparnaði í notkun jarðefnaeldsneytis, aukinni þekkingu á búskap og náttúru og síðast en ekki síst af kröftugri nýsköpun. Um hana fjallar einmitt skýrsla FAO og verður þess getið í annarri grein. Hugtakið vistvæn(n) káfar kirfilega upp á annað hugtak sem oft er flaggað: 
 
Hagkvæmni. Heildræn stefna í landbúnaði tekur mið af því að hagur fólks felst ekki bara í krónum heldur líka í ástandi umhverfisins þar sem það ætlar að nota krónurnar. Þetta skilja ekki nógu margir enn þá og þess vegna reynist erfitt að samræma útreikninga, stefnumótun og ákvarðanir í landbúnaði báðum hliðum raunveruleikans: Ytri lífsskilyrðum okkar og beinhörðum aurum.
Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...

Vanræksla kærð til lögreglunnar
Fréttir 30. apríl 2024

Vanræksla kærð til lögreglunnar

Matvælastofnun tilkynnti þann 9. apríl sl. að stofnunin hefði kært til lögreglu ...

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra
Fréttir 30. apríl 2024

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra

Orkugerðin ehf. í Flóanum stefnir að því innan fárra mánaða að breyta framleiðsl...

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður
Fréttir 29. apríl 2024

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður

Breytingar hafa orðið á stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...