Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Förgun dýraleifa, einkum úr áhættuflokkum 1 og 2, er viðvarandi vandamál. Ýmsir aðilar leita lausna og áform að mótast meðan Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með í kjölfar dóms í fyrra.
Förgun dýraleifa, einkum úr áhættuflokkum 1 og 2, er viðvarandi vandamál. Ýmsir aðilar leita lausna og áform að mótast meðan Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með í kjölfar dóms í fyrra.
Mynd / ÁL
Í deiglunni 28. september 2023

Ýmsar hugmyndir en minni framkvæmdir

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Úrgangsstjórnun dýraleifa hefur lengi verið vandamál hérlendis. Fyrirmynd er fyrir hendi á Norðurlöndum sem vel mætti styðjast við. Þar er urðun nánast óþekkt.

Stefán Gíslason.

Athygli vakti þegar forsvarsmenn handverkssláturhúss að Seglbúðum í Landbroti sögðu í frétt í Bændablaðinu 7. september að svör þyrftu að fást við fjölmörgum spurningum um förgun á sláturúrgangi, þar sem ekki mætti urða lífrænan úrgang lengur. Farveg vantaði fyrir úrganginn, annan en 200 km dýran og varasaman flutning til kjötmjölsverksmiðju í Flóahreppi. Áður hefðu þau greitt fyrir flutning tíu km vegalengd að Stjórnarsandi þar sem sveitarfélagið sá um förgun. Fleiri eru í sömu eða svipuðum sporum.

Í Flóahreppi rekur Orkugerðin ehf. kjötmjölsverksmiðju og Molta ehf. í Eyjafirði moltugerðarstöð og á báðum stöðum m.a. nýttur svokallaður áhættulítill slátur- og kjötvinnsluúrgangur.

EFTA fylgist með

Í minnisblaði Environice um ráðstöfun dýraleifa, þ.m.t. um ábyrgð sveitarstjórna og mögulegar úrvinnsluleiðir, sem Stefán Gíslason umhverfisráðgjafi vann fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og kom út í vor, segir að mikið af fyrrnefndum úrgangi sé enn urðað enda þótt engin heimild sé til þess í lögum. Þá fari mikið af áhættulitlum slátur- og kjötvinnsluúrgangi ómeðhöndlaður til urðunar þrátt fyrir að hvorki Orkugerðin né Molta hafi verið keyrðar á fullum afköstum síðustu ár. Stafi það að einhverju leyti af lágri gjaldskrá urðunarstaða sem og því að yfirvöld hafi ekki fylgt eftir reglum um forvinnslu.

Í kjölfar ítrekaðra aðfinnslna Eftirlitsstofnunar EFTA sl. áratug, kvað EFTA-dómstóllinn í fyrra upp úr með að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið um meðferð dýraleifa. Er þá átt við að ekki hafi verið komið á viðeigandi kerfi til að meðhöndla dýraleifar með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögum, né eftirlitskerfi til að tryggja að þeim lagafyrirmælum sé fylgt.

Þá hafi íslensk stjórnvöld látið hjá líða að koma í veg fyrir að dýrahræ, sláturúrgangur af áhættuflokki 3 og úrgangur frá heimaslátrun séu urðuð á viðurkenndum urðunarstöðum án undangenginnar meðhöndlunar, svo og að koma í veg fyrir að dýrahræ og úrgangur frá heimaslátrun séu grafin á staðnum án þess að uppfyllt séu skilyrði reglugerða.

Sveitarfélög og einstakir rekstraraðilar bera þó ábyrgð á framkvæmdinni innanlands í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda og eftirlitsstofnana.

Sitthvað í farvatninu

Stefán segir í skýrslu sinni að enn sé verið að urða dýrahræ og fleiri dýraleifar sem óheimilt er að taka við á urðunarstöðum.

„Ég leyfi mér að trúa að minnisblaðið sem ég vann fyrir SSV hafi aukið skilning á því hversu óviðunandi núverandi ástand er og hvaða aðilar beri öðrum fremur ábyrgð á að koma þessum málum í ásættanlegt horf,“ segir Stefán. „Ég veit að í framhaldi af minnisblaðinu fór af stað mikil umræða, bæði innan sveitarstjórna, hjá landshlutasamtökum, sorpsamlögum, í ráðuneytum og í stofnunum ríkisins. Það tekur óhjákvæmilega einhvern tíma að koma upp aðstöðu og öðrum innviðum sem þurfa að vera til staðar, en ég gæti nefnt einhverja fjóra möguleika sem hafa verið til umræðu. Eitthvað af því er komið vel af stað í undirbúningsferli – og vonandi verður einhver einn af þessum möguleikum að veruleika innan þriggja ára eða svo. Svo er líka unnið að bráðabirgðalausnum sem er líklega ekki langt í að hægt verði að nýta,“ segir Stefán jafnframt.

Hin síðari ár hafa komið fram hugmyndir um rekstur sérhæfðra brennsluofna fyrir dýraleifar af áhættuflokki 1 og 2. Annars vegar á Strönd á Rangárvöllum, fyrir Suðurland og mögulega stærra svæði, og hins vegar í Stekkjarvík við Blönduós, fyrir Norðurland. Hvorug þessara hugmynda mun vera komin á framkvæmdastig. Þá hefur undanfarin misseri verið unnið að hugmyndum um líforkuver á Dysnesi norðan við Akureyri, í samvinnu Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Vistorku, einkahlutafélags í eigu Norðurorku, með fulltingi umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis.

Í fyrsta fasa verkefnisins er horft til móttöku og vinnslu dýraleifa (hræja og áhættuvefja úr afurðastöðvum) til orkuvinnslu í kjötmjöl og fitu fyrir lífdísil.

Kalka gæti brennt meira magni dýraleifa

Sorpbrennslustöðin Kalka í Helguvík í Reykjanesbæ er eina sorpbrennslustöð sem starfrækt er hérlendis. Hún má annast meðferð og brennslu dýraleifa en það er gífurlega orkufrekt, einkum vegna hás vatnsmagns í slíkum úrgangi.

Skv. úrgangsmælaborði Umhverfisstofnunar voru um 1.550 t af dýrahræjum urðuð án leyfis á viðurkenndum urðunarstöðum árið 2021 en sama ár brenndi Kalka 313 t af dýrahræjum og 85 t sláturúrgangs.

Meðhöndlun dýraleifa er þannig augljóslega í miklum ólestri á Íslandi. Fram kemur í skýrslu Environice að urðun hafi til þessa dags verið ein helsta ráðstöfunarleiðin fyrir dýraleifar hérlendis, bæði fyrir áhættuminni úrgang úr áhættuflokki 3 og áhættuúrgang úr áhættuflokkum 1 og 2. Engu að síður hafi fullnægjandi ráðstöfunarleiðir í raun verið tiltækar, annars vegar brennsla í Kölku og hins vegar vinnsla í Orkugerðinni og Moltu. Sláturleyfishafar reka sumir hverjir smærri brennsluofna til eigin nota fyrir aukaafurðir úr áhættuflokki 1, þá mest heila- og mænuvefi, þ.e.a.s. höfuð sauðfjár og nautgripa sem falla til í hverju sláturhúsi fyrir sig.

Til skoðunar er hvort Kalka geti tekið við meiru af dýrahræjum og hvort þar mætti finna leið til að farga dýraleifum í áhættuflokkum 1 og 2 frá í það minnsta Suðvesturlandi og Vesturlandi. Dýraleifar í áhættuflokkum 1 og 2 teljast til áhættuvefja sem gætu borið riðusmit eða sem grunur leikur á að beri smitsjúkdóma sem geta borist í menn eða önnur dýr, sem og sjálfdauð dýr.

„Kalka uppfyllir að mínu mati öll skilyrði til að vera viðunandi bráðabirgðalausn fyrir áhættuflokk 1 og þann hluta af áhættuflokki 2 sem ekki eru til aðrar leiðir fyrir,“ bendir Stefán á. „Ég er þó ekki viss um að hægt sé að sinna öllu landinu þar. Til að hægt sé að nýta Kölku í þetta þarf þó að gera ráðstafanir varðandi flutning og geymslu dýrahræja, auk þess sem Kalka getur ekki bætt þessu á sig án þess að draga úr afköstum í annarri brennslu. Að mínu mati er Kalka eini aðilinn á landinu sem er í stakk búinn að sinna þessu hlutverki eins og staðan er í dag án þess að það kosti algjöra uppstokkun á starfsemi á viðkomandi stað.

Hins vegar sé ég Kölku ekki fyrir mér sem framtíðarlausn, aðallega vegna þess að þar er ekki aðstaða til að nýta dýraleifar á nokkurn hátt. Brennsla án orkunýtingar samræmist almennt ekki hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.“ Hins vegar geti Kalka verið góð bráðabirgðalausn og síðan varalausn.

Módelið að finna á Norðurlöndum

Stefán leggur til að „gripið verði til aðgerða til að tryggja að í stað urðunar verði öllum dýraleifum komið í vinnslu sem uppfylli lagakröfur og sé í anda hringrásarhagkerfisins. Í þessu skyni þurfi í fyrsta lagi að byggja upp kerfi fyrir söfnun, frágang og flutning dýraleifa frá búrekstraraðilum og vinnslustöðvum. Í öðru lagi að haga gjaldtöku þannig að hún fæli aðila ekki frá þátttöku og feli í sér flutningsjöfnun. Í þriðja lagi að byggja upp innviði sem afkasta því magni sem til fellur og samræmast áherslum hringrásarhagkerfisins. Í fjórða lagi að laga gjaldskrár og móttökuskilyrði urðunarstaða að þessu nýja fyrirkomulagi.“

Lagt er til að byggt verði á reynslu Norðurlandanna í þessum efnum. Þar sé söfnun, frágangur, flutningar og úrvinnsla dýraleifa í öllum aðalatriðum á höndum eins fyrirtækis í hverju landi og þau að mestu í eigu sláturleyfishafa og búrekstraraðila. Sveitarfélög virðast þar ekki koma að málum með beinum hætti, svo sem tengt eignarhaldi eða söfnun. Urðun sé á Norðurlöndum hart nær óþekkt og dýraleifum ekki fargað með brennslu nema í algerum undantekningartilfellum. Efni úr öllum áhættuflokkum sé þó nýtt til framleiðslu fitu og mjöls með mismunandi svið notkunar í samræmi við áhættu.

„Góðu fréttirnar eru að mínu mati þær að flestir aðilar sem að þessu koma virðast vera búnir að átta sig á því í grófum dráttum hvað þurfi að gera, enda auðvelt að sækja fyrirmyndir til Norðurlandanna. Ég vona að aðilum málsins takist að koma sér saman um eina lausn sem þjónar landinu öllu. Þarna þarf að forðast hrepparíg, þetta er fámennt land – og það kallar á náið samstarf til að tryggja sem besta niðurstöðu með sem minnstum tilkostnaði,“ segir Stefán að lokum.

Skylt efni: úrgangur

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...