Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Jan De Rijck, sem býr rétt í útjaðri Brusselborgar, sýnir hér hluta af gestunum sykurrófuakurinn.
Jan De Rijck, sem býr rétt í útjaðri Brusselborgar, sýnir hér hluta af gestunum sykurrófuakurinn.
Mynd / SS
Fréttir 29. september 2015

Hús tekið á evrópskum bændum – seinni hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 21.–30. júlí sl. fór hópur ungra bænda í fagferð til Evrópu en tilgangur ferðarinnar var að halda upp á útskrift hópsins frá Hvanneyri. 
 
Hér er síðari hluti umfjöllunar um þessa fagferð, en fyrri hlutinn birtist í síðasta tölublaði Bændablaðsins.
 
Með SAC mjaltaþjóna
 
Fyrst var hollenska fyrirtækið H.A. De Bruijn heimsótt en fyrirtækið framleiðir m.a. innréttingar fyrir búfjárhús en er einnig með ótal umboð og þjónustu fyrir margs konar framleiðendur eins og SAC, JOZ, Suavia o.fl.
 
Eftir fína kynningu hjá fyrirtækinu var svo haldið í heimsókn á kúabú Christ Daemen í Rijsbergen í Hollandi, en þar var mjólkað með SAC mjaltaþjóni sem sinnir tveimur mjaltaklefum. Christ býr þar ásamt föður sínum með rétt rúmlega 100 kýr og framleiðir í ár um 900 þúsund lítra en hann stefnir á að framleiða árlega 1,1–1,2 milljónir lítra.
 
Fjós með velferðarstíum
 
Hann tók nýja fjósið í notkun í nóvember sl. en áður var hann með 95 kýr í 70 legubása fjósi svo þar var allt of þröngt og framleiðslan minni eftir því. Nýja fjósið tekur hins vegar 120 kýr í framleiðslu eða samtals um 143 árskýr.
 
Fjósið er nokkuð hefðbundið nútíma mjaltaþjónafjós með velferðarstíum þar sem hægt er að hafa kýr sem þarf að fylgjast sérstaklega með. Þær geta svo sjálfar farið í mjaltaþjóninn þegar þeim hentar og mjaltaþjónninn sér svo um að opna hlið fyrir þær eftir mjaltir svo þær skili sér til baka yfir á velferðarsvæðið.
 
Nytin hefur aukist í nýja fjósinu
 
Eftir að kýrnar fóru í nýja fjósið hefur meðalnytin hækkað vel og stefnir nú í 9 þúsund lítra, sem vel að merkja er allgott í Hollandi en þar er meðalnyt kúa í lægri kantinum miðað við mörg Evrópulönd, eða um 8.500 lítrar að jafnaði. Þar sem hann notar Holstein-kýr geta þær framleitt miklu meiri mjólk, en hann sagði að það tæki tíma að vinna sig upp. Kýrnar gætu hæglega skilað 12–14 þúsund lítra meðalnyt, en þá yrði að sinna þeim vel og gefa gott gróffóður og kraftmikið heilfóður.
 
Með 50 hektara fyrir 120 kýr
 
Búið er ekki nema með 50 hektara lands, sem er skipt til helminga í maís- og rýgresisræktun. Þar sem landið er takmarkað er framleiðsla búsins af mykju of mikil miðað við hektarafjöldann og því þarf að koma henni annað. Árlega þarf því að losna við 1000 rúmmetra til nágrannabæja en Christ býr svo vel að nágrannar hans eru garðyrkjubændur og geta tekið við allri umframmykju. 
 
Aðspurður að því af hverju hann kaupi ekki meira land svo hann geti nýtt mykjuna sjálfur sagði hann að á svæðinu í kringum hann væri hektarinn til sölu á um 80.000 evrur (um 11,5 milljónir króna) sem sé einfaldlega verð sem hann ráði ekki við.
 
Fær greitt fyrir að setja kýrnar út
 
Á sumrin fara kýrnar út á tún og fyrir það fá hollenskir bændur borgað sérstaklega, alls 1 evrusent á hvern framleiddan lítra og á þessu búi þýðir það því um 1,5–1,7 milljónir í aukatekjur og munar heldur betur um slíka upphæð enda tap á rekstrinum, segir Christ.
 
Þegar búið var heimsótt, seinnipartinn í júlí, fékk hann 30 evrusent fyrir lítrann (43 krónur) en núllpunktur í framleiðslunni hjá Christ eru 33 evrusent eða 47 krónur svo hver lítri er framleiddur með fjögurra krónu tapi. Afurðastöðin Friesland Campina hafði enn fremur boðað frekari verðlækkun svo fyrirséð var að tapið myndi aukast á næstunni. 
 
Aðspurður um það hve lengi hann geti framleitt mjólk með tapi þá sagði hann að hann gengi sem stendur á eigin sjóði, en síðasta ár var afar hagstætt til framleiðslu en afurðastöðvaverðið fór mest í 48 evrusent (69 krónur) og þá var hagnaðurinn af hverjum lítra 15 evrusent (um 22 krónur) á búinu. Hann var skynsamur og lagði fyrir hluta af hagnaðinum og því hefur hann eigin sjóði til að ganga á. Hann vonast til þess að afurðastöðvaverðið fari upp á við eftir hálft ár, en hann sagðist ekki þola tap að óbreyttu í lengri tíma en eitt ár.
 
950 mjólkurgeitur
 
Næstsíðasta faglega heimsóknin í þessari ferð var svo á geitabúið Caprahoeve við bæinn Hoogstra-ten í Belgíu. Bú þetta er vissulega af stærri gerðinni, með 950 mjólkurgeitur og er að stækka í 1.200 geitur. 
Búið reka hjónin Paul og Rit Boeren en þau starfa bæði við búið og hafa enga starfsmenn. Geiturnar eru mjólkaðar tvisvar á dag og mjólka að jafnaði 3,6 kg mjólkur daglega en bestu geiturnar eru að gefa allt að 6 kg mjólkur á dag.
 
Fara ekki út
 
Þessar geitur, sem eru af hollenska mjólkurgeitakyninu Dutch white, eru um  70–80 kg á fæti og eru þrautræktaðar til mjólkurframleiðslu og því júgurmiklar. Athygli gestanna vakti hve öll aðstaða var rúmgóð og hve rýmið hjá geitunum virkaði mikið. 
 
Þau Paul og Rit leggja mikla áherslu á dýravelferð og að geiturnar hafi mikið pláss, enda fari þær aldrei út. Rit sagði einnig frá því að í Belgíu væru kröfur til aðbúnaðar geita og kinda strangar og að fyrir þessa stærð af gripum ætti rýmið að vera 1,3 fermetrar.
 
Í geitahúsinu voru allar geitur í stórum hálmstíum en hálmurinn sem þau nota er fluttur inn frá Frakklandi og þykir sérlega góður en kostar sitt: 115 evrur tonnið eða um 16.500 krónur. Hálmnotkunin er einnig veruleg en á þessu búi eru notuð 5 tonn af hálmi á viku enda borið undir geiturnar annan hvern dag. Þar sem stíudýptin er ekki nema 40 cm þarf að moka út úr geitahúsinu þrisvar á ári og fer hluti af hálminum í flög en annar hluti í lífgasframleiðslu.
 
25% bera árlega
 
Framleiðsluferlið á þessu geitabúi er verulega frábrugðið því sem tíðkast í hefðbundinni mjólkurframleiðslu með kýr enda bera einungis 25% huðnanna á ári, en burður stendur frá miðjum febrúar og fram í júlí. Ástæðan fyrir því að ekki fleiri bera á hverju ári, er einfaldlega sú að geitur geldast ekki upp og geta mjólkað samfleytt í fleiri ár! Endurnýjunarþörfin er hins vegar til staðar enda heltast geitur úr lestinni eins og gengur. T.d. er geit slátrað sé dagsnyt hennar komin niður í 1,5 kg mjólkur á dag, þá er hún ekki hagkvæm til mjólkurframleiðslu lengur og er send í sláturhús. Rit sagði að geiturnar næðu því yfirleitt að verða þetta í kringum 5 ára gamlar, en þá væru hinar yngri huðnur einfaldlega búnar að ná hinum eldri í afurðaseminni og því ekki annað að gera en að slátra.
 
Haldið við 40 kílóa þunga
 
Ungum huðnum er haldið nái lífþungi þeirra 40 kílóum og fá þær 1–2 kið við fyrsta burð en 2–4 í næsta burði.  Frjósemin er því góð og þó svo að rétt tæplega 250 geitur beri á ári hverju þá fá þau Paul og Rit 6–700 kið. 
 
Þar sem þau eru ekki í kjötframleiðslu eru hafrarnir seldir frá búinu vikugamlir og fást ekki fyrir þá nema 2 evrur og er í raun tap á þessum hluta framleiðslunnar. Aðspurð að því hvort ekki væri þá betra að aflífa þá við fæðingu sagði hún það ólöglegt í Belgíu. 
 
90 krónur fyrir lítrann
 
Geiturnar eru mjólkaðar tvisvar á dag, klukkan sex á morgnana og aftur klukkan sex á kvöldin og taka mjaltirnar eina og hálfa klukkustund. Dagleg framleiðsla búsins eru 3.500 kg mjólkur en meðalnytin er nú 1.300 kg. Mjólkin fer öll í ostaframleiðslu og fást nú 90 krónur fyrir lítrann (63 evrusent), en kostnaðurinn er um 65 krónur á hvern lítra (45 evrusent). Þetta er því afar hagstæð framleiðsla sem stendur, að sögn eigendanna. Aðspurð um skýringuna á þessu sagði Rit að mikil eftirspurn væri eftir geitaostum og ekkert lát væri á því, en afurðastöðvaverðið hefði þó sveiflast mikið á undanförnum árum og áratugum en haldist nokkuð stöðugt nú í nokkur ár.
 
Með holdanaut í Brussel!
 
Síðasta heimsóknin í þessari ferð var svo til holdakúabóndans Jan De Rijck sem býr rétt í útjaðri Brusselborgar. Jan er reyndar sölumaður í fullu starfi en býr samhliða sínu starfi með 30 holdakýr af kyninu Belgian Blue. Reyndar eru gripirnir ekki hreinræktaðir Belgian Blue holdagripir, heldur tvínytjakyn með sama nafni. Hann mjólkar því nokkrar kýrnar í kálfana sína en meðalnyt þeirra er að hans sögn um 5.500–6.000 lítrar á ári. Hann er þó jafnt og þétt að auka hlutfall Belgian Blue holdakynsins í stofni sínum og er vaxtargeta gripa hans í dag nokkuð góð eða um 750 kíló á fæti eftir tvö ár með 65–68% fallþungahlutfall. Þetta er þó allnokkuð fjarri hreinræktuðum Belgian Blue holdanautum, en þau bestu geta náð þessum þunga á einungis 13 mánuðum. Verðið sem hann fær fyrir fallið er 365–380 þúsund krónur eða um 750 krónur á kílóið. 
 
Í fjölbreyttri framleiðslu
 
Jan er með þónokkurt land undir og miklu meira en hann þarf fyrir holdanautabúskap sinn og ræktar hann því bæði kartöflur, gulrætur og sykurrófur á hluta af þessum 55 hekturum sínum. Sem fóður fyrir gripina ræktar hann bæði gras, maís og fóðurrófur, en munurinn á fóðurrófum og sykurrófum felst í sykurhlutfalli hvorrar gerðar fyrir sig. Þannig er sykurhlutfallið í sykurrófum um 18–19% við uppskeru en 14% í fóðurrófum en uppskerumagnið af hektaranum er þó svipað hjá báðum gerðum eða um 70–75 tonn. Sykurframleiðslan af hektaranum er því um 15 tonn, þ.e. með sykurrófunum.
 
60–65 tonn af hektaranum
 
Aðspurður um kartöfluframleiðsluna þá sagði Jan að vænta mætti 60–65 tonna uppskeru af hektaranum, en hann ræktar kartöflur í 10 hekturum, en að verðið sem hann fengi fyrir uppskeruna væri afar breytilegt á milli ára. Hann gerir því samninga fyrirfram um fast verð fyrir þriðjunginn af uppskerunni og tryggir sér þannig tekjur sem standa undir mikilvægasta kostnaðinum. Þetta er líklega eins gott enda féll verðið síðasta vetur niður í 25 evrur á tonnið, en verðið fyrir fyrirfram umsömdu viðskiptin var 100 evrur. 
 
Rúllar kurlaðan maís
 
Verulega athygli hópsins vöktu rúllurnar hjá Jan en í þeim var kurlaður maís og mjög laus í sér.
Aðspurður um það hvernig hægt væri að koma lausu fóðri inn í rúllubindivél sagði Jan að notuð væri sérstök rúllubindivél í verkið sem hægt væri að moka eða dæla lausu fóðri beint ofan í, enda gæti engin sópvinda tekið upp laust fóður. Ef kornið væri of þurrt, næst ekki að rúlla það og þá er oft bætt vatni út í til þess að það nái að rúllast. Virkar áhugavert fyrir t.d. kornbændur á Íslandi.
 
Snorri Sigurðsson
Ráðgjafi hjá Seges P/S
sns@seges.dk

7 myndir:

Norðlenskir bændur verðlaunaðir
Fréttir 1. maí 2024

Norðlenskir bændur verðlaunaðir

Bændur á þremur bæjum voru verðlaunaðir á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar ...

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði
Fréttir 1. maí 2024

Rekstrarbati hjá Norðlenska Kjarnafæði

Hagnaður Kjarnafæðis Norð­lenska var 385,5 milljónir króna á síðasta ári fyrir s...

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...

Vanræksla kærð til lögreglunnar
Fréttir 30. apríl 2024

Vanræksla kærð til lögreglunnar

Matvælastofnun tilkynnti þann 9. apríl sl. að stofnunin hefði kært til lögreglu ...

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra
Fréttir 30. apríl 2024

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra

Orkugerðin ehf. í Flóanum stefnir að því innan fárra mánaða að breyta framleiðsl...

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður
Fréttir 29. apríl 2024

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður

Breytingar hafa orðið á stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...