Fréttir 13. mars 2019

Sérstaða íslensks landbúnaðar í brennidepli

TB

„Hver er sérstaða íslensks land­búnaðar?“ er yfirskrift opinnar ráðstefnu sem haldin verður í kjölfar ársfundar Bændasamtakanna á Hótel Örk í Hveragerði, föstu­daginn 15. mars milli klukkan 13 og 16. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, mun ávarpa ráðstefnuna og um kvöldið verður Bændahátíð á Örkinni.


Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, ávarpar ráðstefnu bænda.

Fjölbreyttir fyrirlestrar

Á ráðstefnunni mun Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítalanum, ræða um einstaka stöðu íslensks landbúnaðar er varðar smitsjúkdóma og sýklalyfjaónæmi. Á eftir honum kemur Eiríkur Már Guðleifsson, viðskiptastjóri á auglýsingastofunni Hvíta húsinu, sem fjallar um það hvernig talað er um lýðheilsu og matvælaframleiðslu.

Eygló Björk Ólafsdóttir, formaður VOR, félags framleiðenda í lífrænum búskap, fjallar um hvert lífræn framleiðsla er að stefna en á eftir henni koma þrír bændur og segja frá nýsköpun sem gengur út að markaðssetja sérstöðu okkar. Það eru þau Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli, sem framleiðir meðal annars repjuolíu og hafra og Hulda Brynjólfsdóttir, bóndi og eigandi smáspunaverksmiðjunnar Uppspuna. Í lokin mun Oddný Anna Björnsdóttir, ráðgjafi og bóndi í Gautavík, segja frá hvernig hefur gengið að selja búvörur beint til neytenda undir merkjum REKO.

Tímarit Bændablaðsins

Samhliða ársfundi BÍ gefa samtökin út Tímarit Bændablaðsins. Því er dreift til allra bænda í landinu og annarra áskrifenda í 8 þúsund eintökum. Í ritinu er fjallað um fjölbreytt mál sem tengjast landbúnaði, viðtöl, kynningar og annað efni.

Bændahátíð um kvöldið

Um kvöldið verður haldin bændahátíð þar sem íslenskar búvörur verða í öndvegi og dansað fram á nótt. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og heimamaður í Hveragerði, stýrir veislunni en meðal skemmtikrafta eru Sólmundur Hólm og Hjörtur Benediktsson. Feðginin Dagný Halla Björnsdóttir og Björn Þórarinsson taka lagið og hljómsveitin Allt í einu leikur fyrir dansi. Hátíðin hefst kl. 20.00 en þeir sem eiga eftir að útvega sér miða eru beðnir að hafa hraðar hendur og skrá sig á vefsíðunni bondi.is eða hringja í síma 563-0300.  


Sóli Hólm mun kitla hláturtaugar bænda á Hótel Örk.