Mynd/MÞÞ Matarstígur Helga magra hyggst efna til bændamarkaðar reglulega í sumar. Biðla aðstandendur Matarstígsins nú til Eyfirðinga um að rækta matjurtir sem boðnar yrðu til sölu á markaðnum.
Fréttir 14. maí 2020

Biðlar til sveitunga að auka grænmetisræktun

Margrét Þóra Þórsdóttir

Matarstígur Helga magra, verkefni sem stofnað var til í byrjun mars, hefur biðlað til sveitunga sinna í Eyjafjarðarsveit um að kortleggja möguleika á því að rækta matjurtir á komandi sumri í tengslum við bændamarkaði sem Matarstígurinn hyggst efna til reglulega. Unnið er af kappi við að koma upp Matarstígnum en verkefnið mun m.a. standa fyrir bændamörkuðum í sumar.

Karl Jónsson, verkefnastjóri Matarstígsins, segir að verið sé að kanna meðal landeigenda í Eyjafjarðarsveit hvort þeir hafi land aflögu til að rækta á grænmeti og hafi áhuga fyrir slíkri ræktun. Eins kemur til greina að lána land til þeirra sem áhuga hafa á ræktun.

„Við teljum að auka megi matvælaframleiðslu í sveitinni allnokkuð með þessu móti, auk þess sem þetta gæti gefið smá aur í aðra hönd fyrir viðkomandi. Matarstígurinn opnar tækifæri til að koma uppskerunni í verð og tækifæri til að glæða samfélagið lífi,“ segir Karl. Að auki sé möguleiki á að selja afurðir til veitingahúsa og jafnvel að framleiða sérstaklega fyrir þá matjurtir sem þeir óska eftir. Bendir Karl á að nú sé ekki úr vegi að dusta rykið af vannýttum gróðurhúsum og hefja þar ræktun á nytjajurtum og berjum jafnvel og nýta bændamarkaðina sem söluvettvang.

Frá garðyrkjustöðinni á Grísará í Eyjafjarðarsveit.  Mynd / HKr.

Þá má nefna að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur samþykkt að útbúa matjurtagarða fyrir íbúa sveitarfélagsins nú á komandi sumri. Garðarnir verða í landi Grísarár norðan Bakkatraðar. Hver reitur verður um það bil 15m2 og leigan nemur 4 þúsund krónum fyrir hvern reit á árinu 2020. Kostnaður sveitarfélagsins verður um 100 þúsund krónur.

Tíu komnir á skrá

Alls eru nú tíu aðilar á skrá hjá Matarstígnum, einkum matvæla­framleiðendur og kaffi/gistihús.
„Ég geri ráð fyrir að þegar líður að því að við bjóðum upp á fyrsta bændamarkaðinn muni örframleiðendur sjá tækifæri á að skrá sig til leiks og vera með,“ segir Karl. Skólaeldhús Hrafnagilsskóla verður til afnota fyrir örframleiðendur til að framleiða sínar vörur en sú aðstaða hefur starfsleyfi heilbrigðiseftirlits. Eftir sem áður þurfa örframleiðendur að hafa starfsleyfi en þurfa ekki að koma sér upp löglegri aðstöðu sjálfir. Matarstígurinn mun síðan hafa söluleyfi fyrir markaðina „og því er þetta lágmarksfyrirhöfn fyrir örframleiðendur að taka þátt,“ segir Karl.

Hringferð í boði

Karl segir að viðræður standi yfir við ferðaskipuleggjendur á svæðinu um að bjóða upp á hringferð um Matarstíginn og þá með vistvænu farartæki, t.d. rafbíl.

„Það yrði verkefni sem hentaði slíkum bílum vel og ætti þátt í jákvæðri ímyndaruppbyggingu Matarstígsins.  Sú ferð væri eina opinbera hringferðin inn á Matarstíginn þ.e. sem hefði nafn hans og merki í sinni markaðssetningu,“ segir Karl. Ferðaskrifstofur sem þjónusta skemmtiferðaskip hafa  líka áhuga á því að bjóða slíka ferð til sölu árið 2021.

Styrkur frá Matarauði

Karl Jónsson, verkefnastjóri Matarstígs Helga magra.

Matarstígurinn fékk nýverið 5 milljón króna styrk frá Matarauði Íslands sem opnar á nýja mörguleika varðandi markaðssetningu og starfsemi Matarstígsins. Karl segir að unnið sé að ýmsum verkefnum, m.a. hafi verið haft samband við Heilbrigðiseftirlit og MAST varðandi leyfisvinnustofu þar sem fólk getur komið og fengið aðstoð við að sækja um leyfi. Vel hafi verið tekið í hugmyndina sem verður framkvæmd þegar þeim takmörkunum sem nú gilda vegna heimsfaraldurs, Covid 19 lýkur.

Styrkurinn gerir Matarstígnum líka kleift að vinna að markaðs- og hönnunarmálum með fagfólki og voru það Kapall markaðsráðgjöf í Reykjavík og DuoDot grafísk hönnun á Akureyri sem mynda markaðs- og hönnunarteymið ásamt verkefnastjóra Matarstígsins. Unnið er með persónuna Helga magra en marga skemmtilega vinkla er hægt að fá á verkefnið með því.

Vistvæn dreifileið

Þá nefnir Karl að verið sé að kanna möguleika á framkvæmd verkefnisins Vistvæn dreifileið sem snýst um vistvæna dreifingu matvæla á milli aðila í Eyjafjarðarsveit og frá framleiðendum þar til kaupenda utan sveitar.

„Við erum að þróa þetta verkefni núna og hugmyndin er sú að vistvæn bifreið, líklega rafbíll, muni verða nýttur til að sækja vörur frá matvæla­framleiðendum í sveitinni og koma til skila til kaupenda. Hann kæmi þá í stað einkabíla sem hver og einn væri að aka um sveitina til að sækja og senda vörur.

Karl segir að einnig sé fyrir hendi áhugi á að bjóða kvenfélögum sveitarinnar aðgang að Matarstígnum fyrir sína góðgerðarstarfsemi og gæti þá mögulega verið í formi fjáröflunar á vettvangi bændamarkaðanna.

„Kvenfélög eru hornsteinn góðgerðarstarfs í hverju samfélagi og eru þekkt fyrir bakkelsi og kruðerí og það væri gaman að geta lagt þeim til vettvang til að sinna góðgerðarmálunum,“ segir hann.

Förum eftir öllum reglum

Forsvarsmenn Matarstígsins fóru yfir starfsáætlun sína varðandi sumarið með tilliti til Covid 19 faraldursins og segir Karl að eins og staðan er nú verði hægt að halda áætlun varðandi bændamarkaði, pop-up viðburði, Matarhátíð Helga magra í ágúst og Local Food sýninguna í Hofi í október, nema bakslag komi í baráttunni.

„Við munum að sjálfsögðu hlíta öllum reglum sem í gildi eru á okkar viðburðum,“ segir Karl.