Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Á bænum Krossum í Dalvíkurbyggð er frjósemin í fjárstofninum greinilega í góðu lagi. Þar hafa tvær ær borið fjórum lömbum og hér er önnur þeirra. Þá voru þrjár þrílembur búnar að bera.
Á bænum Krossum í Dalvíkurbyggð er frjósemin í fjárstofninum greinilega í góðu lagi. Þar hafa tvær ær borið fjórum lömbum og hér er önnur þeirra. Þá voru þrjár þrílembur búnar að bera.
Mynd / Brynja S. Lúðvíksdóttir
Fréttir 15. maí 2017

Ágætis frjósemi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það er góður gangur í þessu og allt hefur gengið að óskum,“ segir Snorri Snorrason, bóndi á Krossum í Dalvíkurbyggð.  Hann og Brynja Lúðvíksdóttir, kona hans, reka sauðfjárbú með tæplega 380 kindur og voru hátt í hundr­að þeirra bornar í byrjun síðustu viku.
 
„Hér er allt á fullu en nær hámarki nú næstu daga,“ segir Snorri. Fjárhús Snorra og Brynju eru á Stóru-Hámundarstöðum, skammt utan við Krossa.
 
Það hefur borið til tíðinda  að tvær kindur hafa borið fjórum lömbum, hin fyrri um miðja síðustu viku og hin á sunnudag. Þá eru þrjár ær þrílembdar. Allt eru þetta sæðingarlömb að sögn Snorra, en hann segir að árangur af sæðingum virðist ætla að verða góður þetta vorið.
 
Snjóléttur vetur að baki
 
Utanverður Eyjafjörður er ekki beint snjóléttasta svæði landsins og því er Snorri afar kátur með veðrið sem í boði hefur verið undanfarið, þar sem sólskin og hiti hafa verið í aðalhlutverki. 
 
Vanalega hefur snjór verið yfir svæðinu á þessum árstíma. „Það skiptir verulegu máli, veður af þessu tagi gerir að verkum að flestar ærnar bera úti, það er þægilegra fyrir alla, bæði menn og skepnur,“ segir hann og bætir við að hægur vandi sé að koma fénu inn við versnandi veður svo sem spá gerir ráð fyrir. 
 
„Kindurnar hafa verið meira og minna úti í allan vetur, hér hefur verið opið, enda óvenju góður og snjóléttur vetur að baki.“