Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Margrét Gísladóttir, tengiliður kúabænda hjá Bændasamtökum Íslands
Margrét Gísladóttir, tengiliður kúabænda hjá Bændasamtökum Íslands
Fréttir 13. ágúst 2021

Afurðatekjur standa ekki undir framleiðslukostnaði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur sent frá sér skýrsla um rekstur og afkomu í nautaeldi fyrir árin 2017–2019.


Verkefnið var unnið veturinn 2020–2021 á grunni gagna frá 20 búum. Samkvæmt skýrslunni ná afurðatekjur af nautaeldi ekki að standa undir framleiðslukostnaði.

Sumarið 2020 vaknaði sú hugmynd að rýna í afkomu nautakjötsframleiðenda enda hafði þá afurðaverð til þeirra lækkað og biðlistar í slátrun voru farnir að myndast. Þá var í gangi verkefni sem tengdist rekstri á kúabúum auk verkefnis tengt afkomuvöktun á sauðfjárbúum og því eðlilegt og nauðsynlegt að skoða einnig stöðu nautakjötsframleiðenda.

Aðföng hafa hækkað

Margrét Gísladóttir, tengiliður kúabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir að skýrslan sýni að á árunum 2017 til 2019 hafi staðan hjá nautakjötsframleiðendum verið orðin slæm. „Í framhaldi af því árið 2020 koma svo í tvígang töluverðar lækkanir á afurðaverði til bænda frá afurðastöðvum. Helstu skýringarnar á þeim lækkunum samkvæmt upplýsingum frá afurðastöðvunum eru aukinn innflutningur á nautakjöti á lægra verði og mikil birgðastaða á hakki.“ Margrét segir að á sama tíma hafi aðföng, svo sem olía og kjarnfóður, hækkað í verði. „Auk þess sem almennar launahækkanir hafi haft áhrif. Laun hafa hækkað hjá afurðastöðvunum eins og öðrum undanfarin ár og það hafði m.a. áhrif til lækkunar á verði til bænda. Lægra verð til bænda hefur þó ekki skilað sér til neytenda heldur þvert á móti hefur vísitala nautakjöts hækkað um tæp 4% frá ársbyrjun 2020. Verð á nautakjöti hefur því farið hækkandi til neytenda á sama tíma og bændur eru að fá lægra verð fyrir afurðirnar.“

Í framhaldi af skýrslunni hafa Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands unnið að greiningu hennar og verkefnum sem tengjast því að auka sölu á íslensku nautakjöti. Sambandið hefur frá því um mitt ár lagt þunga áherslu á aukna gagnaöflun og stöðugreiningar á nautakjötsmarkaðnum ásamt beinum átaksverkefnum. Meðal þess er nýja vörumerkið Íslenskt gæðanaut, sem leit dagsins ljós fyrr í sumar og er ætlað að auka sýnileika íslensks uppruna kjötsins.

Margrét segir að sláturálag fyrir gripi sem slátrað var árið 2020 og náðu ákveðnum gæðum hafi verið hækkað um 30% til að viðhalda framleiðsluhvata bænda til að ala úrvalsgripi þrátt fyrir niðursveiflu afurðaverðs. Auk þess komu 243 milljónir til nautgripabænda frá ríkinu til að mæta áhrifum Covid á íslenskan landbúnað á árinu 2020.

„Forsvarsmenn bænda hafa einnig ítrekað bent á alvarleg áhrif tollasamningsins við ESB á íslenska nautakjöts- og landbúnaðarframleiðslu, enda fól samningurinn í sér tæplega sjöföldun á tollkvótum fyrir innflutt nautakjöt. Aukningin var hröð og lokaskrefið var svo tekið um síðustu áramót. Þar að auki hefur útganga Bretlands úr ESB haft þau áhrif að tollkvótar þaðan koma sem hrein viðbót ofan á nú þegar mjög mikla kvóta. Að mati deildar kúabænda er auk þess mikilvægt að sláturleyfishafar fái það svigrúm sem þarf til að hagræða betur innan sinna raða, enda erum við í beinni samkeppni við margfalt stærri einingar erlendis þar sem slátur- og vinnslukostnaður er mun lægri en hérlendis.“

Gögn frá 20 búum

Verkefnið var unnið veturinn 2020 til 2021 á grunni gagna frá 20 búum. Ellefu búanna voru á Norðurlandi og níu á Suður- og Vesturlandi og breytileg að samsetningu. Sum í mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt, ferðaþjónustu eða vélaverktöku samhliða nautaeldi. Ellefu búanna selja afurðir sínar að einhverju eða miklu leyti beint til neytenda, önnur leggja allt sitt inn í afurðastöð.

Greiningarvinnan var unnin út frá skýrsluhaldsupplýsingum og bókhaldi þátttökubúa. Lagt var upp með að þátttökubúin gætu borið saman rekstrarafkomu sína við önnur bú sem tóku þátt í verkefninu með eins skýrum hætti og gagnasafnið bauð upp á.

Afurðaverðslækkanir og aðfangahækkanir

Niðurstaða verkefnisins er í takt við það sem nautgripabændur hafa rætt sín á milli undanfarin misseri. Afurðatekjur af nautaeldi ná ekki einar og sér að standa undir framleiðslukostnaði. Afurðaverðslækkanir og aðfangahækkanir hafa komið mjög illa við búgreinina á sama tíma og bændur eru að ná auknum árangri í framleiðslu gæðagripa.

Jafnframt sýnir verkefnið að það er mjög mikilvægt að halda úti raunvöktun á afkomu nautgripabænda og stefnan er að vinna að því áfram og fá fleiri bændur að borðinu til að renna styrkari stoðum undir það.

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Gerum okkur dagamun
12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun