Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Samkvæmt tölum Manneldisráðs áttum við Íslendingar Norðurlandamet í mjólkurneyslu um aldamótin 2000.
Samkvæmt tölum Manneldisráðs áttum við Íslendingar Norðurlandamet í mjólkurneyslu um aldamótin 2000.
Líf&Starf 20. desember 2021

Möblur, sjókólaðe og jafnvel þegnskyld kartöfluræktun...

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Á dögunum lagðist greinarhöfundur í lestur á hinu merka riti Gunnars Þórs Bjarnasonar, Þegar siðmenningin fór fjandans til – og svo hinni sískemmtilegu bók, Íslenskir þjóðhættir, þar sem ávallt má finna áhugaverðan fróðleik. Ekki var hægt annað en að miðla aðeins eftir lesninguna og krydda með aðstoð vefsíðunnar timarit.is. Þannig var að í kringum aldamótin 1900 breyttust neysluvenjur Íslendinga – m.a. vegna ört vaxandi utanlandsverslunar og innflutnings og verður sagan rakin að örlitlu leyti hér á eftir.

Áður höfðu takmarkanir sett svip sinn á íslensku þjóðina sem var vönust því að skammta sér naumt, en um þessar mundir tók bændaþjóðfélagið að víkja fyrir borgarsamfélagi. Verslunum fjölgaði og þótti hvað mest móðins að deildaskipta þeim með hið danska Magasin du Nord að fyrirmynd.

Sú verslun er bar hvað hæst var Thomsens Magasin, sem upphaflega var stofnað árið 1837 af Ditlev Thomsen eldri – er svo var kallaður – en á þessum tíma rak verslunina þriðji ættliður hans, Ditlev Thomsen yngri.

Gósentíð Thomsens Magasin

Samkvæmt texta frá Borgar- skjalasafni Reykjavíkur kemur fram að Thomsens Magasin var stærsta verslun landsins árið 1907. Á þessari gósentíð skiptist verslunin í margar deildir. Til að mynda basardeild þar sem selt var ýmiss konar fínerí, stássgripir, gull og silfurvörur, barnaleikföng og fleira, ferðamannadeild, húsgagnadeild, járn- og leirvörudeild, karlmannafatadeild, kvenfata- og vefnaðarvörudeild auk kvenhattadeildar. Þar var nú aldeilis mikið um að vera þegar kom að saumaskap, enda rúm tylft saumakvenna að störfum.

Svipaður fjöldi hins kynsins sat reyndar við sauma hjá karlmannafatadeildinni en hún auglýsti m.a. að þar gætu karlmenn „breyst frá hvirfli til ilja og orðið nýir menn á svipstundu“. Svo mátti finna kjallaradeild, matvörudeild, nýlendudeild, pakkhúsdeild, skófatnaðardeild, strandferðadeild, vindladeild og skrifstofudeild ... en á vegum Thomsens Magasin var einnig rekin kjólasaumastofa, gosdrykkjaverksmiðja, skraddara- verkstæði, trésmíðaverkstæði, sláturhús, svínabú, reykingarofn, niðursuða, veitinga- og biljarðstofa, vindlaverksmiðja, þar sem vindla­kassar náðu upp undir loft, og loks brjóstsykursverksmiðja, sem var fræg fyrir gómsætan brjóstsykur. Umsvifin voru mikil og veltan stórkostleg.

Spegepylsur, kveiti og annað gómsæti

Áhugavert er að rýna í auglýsingar frá þessum tíma, en meðal annars auglýsir Thomsens Magasinið Roquefort osta, danska mysuosta og annað með eilítið framandi stafsetningu. „Pilsburi kveitið góða“ er vinsælt, „Picles“ og „Lipton teið fræga“, „spegepylsur“ og jafnvel „möblur“ sem staðsettar voru þá í húsgagnadeildinni. Thomsens Magasin fór mikinn í auglýsingaherferðum og má finna margar auglýsingar verslunarinnar í hverju dagblaði.

Aðrir kaupmenn, örlítið minni í umsvifum og hógværari, bjóða upp á „marg-eftirspurðan kandís“, lyfjavötn, þvottavötn og hárvötn auk þess sem sjókólaðe-tegundir voru afar vinsælar og auglýstar víða. Auglýsing ein sem birtist í Kvennablaðinu árið 1903 frá hinni „Konunglegu Hirð-Verksmiðju“ vekur sérstaka athygli. Þar er því komið á framfæri að: „Bræðurnir Cloetta mæla með sínum viðurkendu Sjókólaðe tegundum, sem eingöngu eru búnar til úr fínasta Kakaó, sykri og Vanille. Ennfremur kakaópúlver af beztu tegund.“ Niðurlag auglýsingarinnar er á þá leið að varan fái ágæta vitnisburði frá efnafræðirannsóknarstofum.

Áfengi og tóbak var þó nokkuð um, a.m.k. fram að árinu 1912 og kepptust kaupmenn um að selja slíkt á sem bestum prís. Ekki ber á öðru en í Reykjavík hafi þarna verið gnægtabrunnur góðæris og þó ekki væðu allir í velllystingum var íslenska þjóðin í heild sinni betur stödd en oft áður.

Viðskiptakreppa og vöruskortur

En svo hófst fyrri heimsstyrjöldin. Árin í kringum þann tíma kollvörpuðu því góðæri sem hafði verið við lýði. Vaxandi uggur var í fólki vegna stopulli siglinga til landsins og samkvæmt tölublaðinu Samvinnan, árgerð 1977, lagðist alþjóðleg viðskiptakreppa á árið 1907. Nokkrum árum síðar, árið 1915, leystist svo þriggja kynslóða Thomsen-veldið endanlega upp.

Var talið að vegna tengsla sinna við Þýskaland og í raun líka vegna þjóðernishyggju sem var á þessum árum nokkuð í tísku hjá Íslendingum, hafi Thomsen-ættin með sínar dönsku tengingar ekki átt upp á pallborðið hjá lánardrottnum en deildir Thomsens Magasin lokuðu hver á fætur annarri frá því að viðskiptakreppan hófst. Ditlev Thomsen fluttist í kjölfarið búferlum til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni og hélt þar áfram ferli sínum sem stórkaupmaður.

Þrengingar þjóðarinnar urðu til þess að líta varð sér nær. Samkvæmt grein í vikublaðinu Nirði á Ísafirði, í aprílmánuði árið 1917, er vöruskortur nokkur og vill greinarhöfundur meina að það sem kæmi til landsins færi mest allt til Reykvíkinga. Vestfirðingar sætu á hakanum og á meðan Reykvíkingar hefðu í sig af smjöri, sykri og mjólk kæmi lítið sem ekkert vestur. Greinarhöfundur kennir landstjórninni um og klykkir út með orðunum „Al svo önn fyrir Reykjavík að eigi afrækir þú Ísafjörð.“

Sandblandað rúgbrauð

En sykur og aðrar vörur voru þó ekki á hverju strái í henni Reykjavík. Seinna á árinu kemur tilkynning í Morgunblaðinu þar sem lýst er óförum rúgbrauðskaupanda. Viðkomandi hafði í tvígang fest kaup á slíku hnossgæti en í bæði skiptin reyndust brauðin óæt vegna þess að í þeim var sandur. Vill sá er tilkynninguna inn sendir vekja máls á þessu opinberlega, að nauðsyn sé á rannsókn, en sandurinn sé væntanlega í rúgmjölinu sem er innflutt frá Danmörku.

Í sama blaði er lítið um auglýsingar. Harðfiskur, tóbak og þvottasápa helst eitthvað sem gladdi augað enda næsta víst að lítið var um varning í matvöruverslunum. Vöruskömmtun hafði hafið innreið sína og skömmtunarseðlar litið dagsins ljós. Lá við slagsmálum þegar kom að úthlutunum þeirra því ekki voru allir svo heppnir að fá slíka seðla í sínar hendur. Sykurhneykslið mikla þegar lands­verslunin snarhækkaði kílóverð sykurs og ágreiningur og missætti vegna þyngdar brauðmetis auk kökugerðarbanns snerti almúgann illa þar sem dýrtíð og skortur var í brennidepli.

Kartöflurækt er allra hagur

En hvað var til bragðs að taka? – Jú, aftur, að líta sér nær. Hvað gátu þegnar landsins lagt sér til munns? Sátu þeir ef til vill á auðlind sem mátti klípa af? Greinahöfundar dagblaða á þessum tíma stinga ötullega upp á grænmetisræktun, tínslu fjallagrasa, fiskveiðum og þar fram eftir götunum, auk þess sem einhverjir hneykslast á því að innflutningur jarðepla tíðkist. Í Morgunblaðinu árið 1917 bentu þeir sem allra helst voru á móti innflutningnum, á, að nú þyrfti að taka duglega í taumana, ekkert hálfkák og jafnvel gera það að þegnskyldu að stunda kartöflurækt.

Í framhaldinu, í byrjun árs 1918, birtist grein í blaðinu Frey, (forvera Bændablaðsins) þess efnis að landstjórnin hafi ákveðið að koma á fót kartöflurækt í stórum stíl suður á Garðsskaga. Ráðinn hafi verið verkstjóri og landstjórn bæði samið um landleigu auk þess að fela Búnaðarfélagi Íslands alla stjórn og umsjón á þessu „kartöfluræktunarfyrirtæki“. Búnaðar- félagið tók málinu með mestu röggsemi og sendi á sveitarstjórnirnar bæklinga um matjurtarækt. Í höfuðborginni æstust menn enn frekar, bættu um betur og stofnuðu kartöfluræktunarfélagið Akur með myndarbrag.

Þó var það svo að uppskera kartöfluræktunar þetta ár varð afar léleg og þótti víst að hinum aðkeyptu útsæðiskartöflum væri um að kenna. Ekki var þetta nú á bætandi á fullveldisárið 1918 sem er eitt hið ótótlegasta í sögunni. Að auki við kartöflubágindin og slagsmálin um skömmtunarseðlana var mjólkurþurrð. Eða í raun ekki þurrð heldur þrúgandi verðlagning sem hafði verið hækkandi sl. ár og olli því að ekki gátu allir veitt sér þann munað sem mjólkursopinn er.

Hækkun mjólkurlítrans

Mikið hafði gengið á hjá almenningi skv. Morgunblaðinu í október 1916, enda lítil ánægja með ákvörðun Mjólkurfélagsins (samtök kúabænda) sem hækkaði lítrann í 36 aura, eða um rúma tíu frá því sem áður var. Verðlagsnefnd, sem átti að halda í taumana á slíku offorsi, úrskurðaði að hámarksverð á mjólk í Reykjavík yrði ekki hærra en 32 aurar – sem fékk þá kúabændur til að hóta því að hætta sölu mjólkur.

Að leikslokum stóðu málin þannig að verðlagsnefnd sagði af sér og mjólkurlítrinn falur á 35 aura. Mikill hiti var í málinu og einokun Mjólkurfélagsins víða nefnd. Ný verðlagsnefnd var sett á laggirnar árið 1917 en þó lækkaði mjólkurlítrinn alls ekkert heldur hækkaði bara aðeins vegna almenns vöruskorts í kjölfar fátíðra millilandasiglinga vegna heimsstyrjaldarinnar.

Í reykvíska blaðinu Höfuðstaðurinn, árið 1916, birtist grein á forsíðunni með titlinum „Mjólkur-kveinið“. Þar fer greinarhöfundur mikinn og bendir á að „… börn geti vel lifað af á hafraseyði með niðursoðinni mjólk, um tíma, meðan fram úr þessu er að rætast…“ Þetta var nú allt verr og miður en burtséð frá hungurþorsta málleysingja í mjólk er spurning um hvernig mjólkurleysi hafði áhrif á lundarfar almennings.

Í sama blaði árið eftir birtist nefnilega fræðandi grein um áhrif fæðunnar, og þar taldir upp kostir mjólkurmetis. „Neyti maður eingöngu eggja, mjólkur og kálfskjöts, hefir það sín áhrif bæði hið innra og ytra. Maður verður blíðlyndur og þolinmóður og hörundsliturinn verður bjartur og fagur, sem á ungri mey. Mjólk hefir, yfirleitt, góð áhrif á skapsmunina. Sauðamjólk, sem er fitumikil, gerir mann glaðan í skapi. Smjörið gerir mann rólyndan. Gamalostur hefir góð áhrif á starfsemi heilans, en sé hans neytt í óhófi, verður maður ömurlyndur.“

Í sömu grein eru reyndar ókostir grænmetisfæðis taldir upp sé þeirra neytt að staðaldri – „…gera mann þróttlausan, bæði andlega og líkamlega og leiðigjarnan.“

Áfram gakk

En nú er öldin önnur. Í dag erum við Íslendingar í ellefta sæti velmegunar á heimsvísu samkvæmt vefsíðunni www.prosperity.com/globe. Grænmetisát og neysla jurtamjólkur aldrei meiri og ferðir til og frá landsins í algleymingi – ef litið er til þess að Covid veiran sé á undanhaldi. Við getum þó verið stolt af elju okkar þjóðar þegar kemur að því að halda höfði í erfiðum aðstæðum og horft hnarreist fram á veginn.

En ef til vill er gott að líta næst á almennt matarræði hátíðanna og þrifnað á þessum tíma og framúr, því þó ekki hafi upplitið verið alltaf sem best á landsmönnum gengur víst undartekningarlaust jólahátíðin í garð.

Jól

Aðalreglan var víst sú að borða lélegt fiskmeti á degi heilags Þorláks. Samkvæmt vísindavefnum kemur fram að eðlilega væri misjafnt hvað flokkaðist sem lélegt á landsvísu. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn, jafnvel svokallaða megringa – en þá var harðfisktutlan soðin í hangikjötssoði til að af því fengist bragð. Frá Vopnafirði er svo þessi vísa til marks um mataræði þess landhluta:

Á Þorláksdag í matinn minn
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.

Um þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum. Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu. Nú fer sögunum af helsta meðlæti skötustöppunnar sem ef til vill ekki allir vita - má vinna meðfram sápugerð. Hér á eftir er uppskrift af vestfirskri hnoðmör svo og uppskrift af sápu. En úrgangsfita hnoðmarar er tilvalin til sápugerðar.

Hnoðmörs-og sápugerð

Í ársritinu Hlín, sem Sambands- fjelag Norðlenskra Kvenna gaf fyrst út árið 1917 (og var ritstýrt í heil 44 ár af frú Halldóru Bjarnadóttur,1873–1981 , kennara, skólastjóra og Kvennalistakonu) má finna ýmsar nytsamlegar uppskriftir til viðbótar við almennt fræðslu og skemmtiefni. Til dæmis af dýrindis vestfirsku mörfloti.

Mörflot. (Vestfirskt). Mörinn, viku eða hálfsmánaðar gamall, er malaður í stórri kjötkvörn eða fleðaður í þunnar fleður, svo hnoðaður með höndunum þangað til komin er velgja í hann og hann er hættur að loða við trogið. Hann er barinn saman eins og skaka (tafla) og þess gætt, að ekki sjeu í henni holur. Töflurnar eru hafðar 5 pund á þyngd. Þegar líður á veturinn, áður en vorhitar byrja, er gott að láta töflurnar í saltpækil, þeim hættir annars við að þrána, þegar hitnar. Mjer hefur fundist venjuleg tólg svo fitulítil, að ekki væri vanþörf á viðbiti með henni. Alt öðru máli er að gegna með mörflotið, það er, að dómi okkar Vestfirðinga, feitt og gott viðbit. Með blautfiski er það brætt sem venjuleg feiti, en ætli maður að hafa það með harðfiski, er það brætt, en látið storkna aftur og er þá ágætt viðbit.

Ágætir menn nútímans vilja benda á að gæta þess vel að mörinn blotni ekki þegar hann er tekinn af vömbinni og gott sé að láta hann hanga miðað við hina vanalegu sláturtíð eða út október. Athuga skuli fiðrun (myglumyndun) en hún er talin æskilegur bragðauki – varast skuli hinsvegar þráa. Fiðrun á sér stað þegar hitastigið er mátulegt svo einnig skuli hafa auga með því.

Jæja, í sama riti má einnig finna uppskrift af sápu sem þótti gefast ágætlega vel og þykja ....„sjerstaklega góð í suðuvatnið og þegar lagt er í bleyti...“ Þar er þess sérstaklega getið að í sápuna má nota hvers kyns úrgangsfitu, svo sem innan úr gærum, utan af vömbum og í raun hvað sem til féll. Bent er á með réttu að kalk hreinsar óhreinindin úr og þau setjast á botninn.

Til sápugerðarinnar þarf 15 lítra vatns, 5 pund eða rúmlega 2 kg af fitu, 3 pund eða tæp 1.5kg sóda, 1.5 pund eða u.þ.b. hálft kíló af leskjuðu kalki svo og 3 pela af salti. Næst skyldi láta helming vatnsins í pottinn ásamt sóda og kalki en fituna svo þegar vökvinn hitnaði. Þetta var soðið í 4 tíma við hægan eld og afgangi vatnsins (hitaður) smábætt út í á meðan.

Eftir þetta skyldi saltinu bætt við og áfram soðið í einn og hálfan klukkutíma.

Kleinur og önnur gleði

Þá ættu allir að geta orðið hreinir og fínir og belgt sig út af skötu með hinni bestu hnoðmör sem völ er á. Til að gleðja sig ennfremur voru nokkrir sem lögðu stund á það að steikja jólakleinurnar upp úr hnoðmörinni, en ekki er víst að aðrir en dyggir aðdáendur þess bræðings legðu slíkt í vana sinn. Þetta eru kleinur sem bragð er af og þykja bestar með rótsterku kaffi, þá til sérstakra hátíðabrigða með brennivínstári út í.

Brennivínið átti almúginn víst ekki alltaf í vasapelanum því 1.janúar árið 1912 gekk almennt áfengisbann í gildi á Íslandi og svo árið 1915 var tekið fyrir allar heimabrugganir samkvæmt nýsamþykktu Bannlagafrumvarpi. Eitthvað losnaði í reipunum varðandi bannið nokkrum árum síðar, en árið 1922, vegna viðskiptahagsmuna, náðist fram innflutningur léttvíns frá Spánverjum og öðrum þjóðum sem í staðinn keyptu af Íslendingum saltfisk. Svo var það ekki fyrr en í febrúar árið 1935 að bannið var afnumið fyrir flestar tegundir áfengis í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu ...nema áfengur bjór... en sú umræða er nú alveg kapítuli út af fyrir sig.

Segja má að Spánverjar hafi þarna átt hvað stærstan þátt í að knýja fram afléttingu varðandi áfengiskaupin, en í viðskiptum þeirra við Íslendinga hótuðu þeir að setja tolla á fiskinn ef ekki væru versluð af þeim léttvín í staðinn – og reið sú hótun baggamuninn.

En nóg um það. Kleinur, líkt og skatan hefur alla tíð verið stór hluti af hátíðamat Íslendinga, svo og auðvitað jólagrauturinn sem flestir þekkja – að minnsta kosti síðan um aldamótin 1900. Misjafnt hefur verið hvað sett er út í grautinn - allt frá smjörklípu, slátri, saftsósu eða kanil – en alltaf hefur hann farið vel í munni.

Og nú er kannski rétt að fara að huga að honum, etv. þörf á að æfa grautargerðina fyrir jólin.

Skylt efni: Mannlíf | Aldamótin

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...