Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Sá vængjaði / Megaptera. Fullorðnir hnúfubakar eru 14–16 metrar að lengd, tvöfalt lengri en þetta myndverk Ingu Lísu Middleton er í raun.
Sá vængjaði / Megaptera. Fullorðnir hnúfubakar eru 14–16 metrar að lengd, tvöfalt lengri en þetta myndverk Ingu Lísu Middleton er í raun.
Menning 19. júní 2023

Hafið á öld mannsins

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hvalir og svifþörungar eru viðfangsefni myndlistar- og kvikmyndagerðarmannsins Ingu Lísu Middleton, sem opnaði sýningu á verkum sínum í Listasafninu á Akureyri 2. júní.

Svifþörungar eru smæstu lífverur hafsins. Þeir framleiða allt að 50% alls súrefnis auk þess að binda um 40% af öllum koltvísýringi sem leystur er úr læðingi. Þar sem hvalir fyrirfinnast er einnig að finna þéttustu breiður svifþörunga því úrgangur hvala inniheldur það járn og nítrat sem þörungarnir þrífast á. Þetta merkilega samspil á milli smæstu og stærstu lífvera jarðar er ein af aðferðum náttúrunnar til að viðhalda jafnvægi og leggur nú lóð á vogarskálar í baráttunni við loftslagsvána.

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á umhverfismálum og þá sérstaklega á áhrifum mengunar og loftslagsbreytinganna á lífið á jörðinni. Þetta hefur fléttast inn í myndlist mína og kvikmyndagerð,“ segir Inga Lísa, aðspurð hvaðan hugmyndin að fjalla um hvali og svifþörunga spretti. Hún er fædd árið 1964 og stundaði nám í ljósmyndun og kvikmyndagerð við University for the Creative Arts og Royal College of Art í Bretlandi, þar sem hún hefur verið búsett undanfarna áratugi. Ljósmyndaverk hennar hafa verið sýnd víða á síðustu árum, þar á meðal í London, París, Tókýó, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Hún hefur skrifað, leikstýrt og framleitt sjónvarpsþætti, stuttmyndir, auglýsingar og myndbönd.

Svifþörungar eru agnarsmáir einfrumungar. 9,5 milljónir af þessum agnarlitlu verum kæmust fyrir í litlum gosflöskutappa.

Form og mynstur

Fyrir utan að vera öflugir súrefnisframleiðendur hafa svifþörungar, og þá sérstaklega kísilþörungar, að geyma undraverðan fjölbreytileika rúmfræðilegra forma og samhverfra mynstra. „Ég rakst einu sinni á ríkulega myndskreytta bók, Art forms in nature, eftir þýska fjölfræðinginn og prófessorinn Ernst Haeckel en bókin var fyrst gefin út árið 1899. Þessar teikningar heilluðu mig þó svo ég vissi ekki mikið um tilgang svifþörunga í hafinu og hverslags ofurhetjur þeir eru.

Nýlega enduruppgötvaði ég svifþörungana þegar ég kynntist sjávarlíffræðingnum Chiöru Lapucci sem stundar rannsóknir á þeim í Miðjarðarhafinu, fyrir ítölsku hafrannsóknastofnunina LaMMA Consortium og hefur hún verið ráðgjafi við þetta verkefni.

Inga Lísa fékk leyfi til að nota smásjármyndir teknar af Rick Van Enden og teymi hans hjá The Australian Antartic Division. Þörungarnir eru á stanslausri hreyfingu og vegna ljóstillífunar er erfitt að ná skýrum myndum af skelinni. „Þau hjá Australian Antartic þurrfrystu sýnin og tóku myndirnar með smásjá sem kallast Field Emission Scanning Electron Microscope (FESEM) en innbyggður geisli skannar einfrumunginn og byggir upp þessar myndir í hárri upplausn,“ segir hún. Einnig hefur hún verið í samstarfi. við Hafrannsóknastofnun Íslands og Gísla Pálsson mannfræðing.

Samruni lista og vísinda og vistfræðileg listsköpun er að sögn Ingu Lísu í miklum vexti og það sé mikið til að þakka auknu samstarfi milli listamanna og vísindafólks og stofnana. Hún vitnar í orð tónlistarmannsins Brians Eno sem sagði: „Rétt eins og við þurfum á loftslagsvísindamönnum að halda til að kynna okkur staðreyndir, þurfum við listir og menningu til að hjálpa okkur að hugsa, finna fyrir og tala um loftslagsvána. Þetta samtal þarfnast vísindamanna – jafnt sem listamanna. Vísindin uppgötva, listir melta.“

Lífverur fullar af plasti

Eftir að Inga Lísa hafði einbeitt sér að minnstu lífverum sjávar beindist athyglin að þeim stærstu: hvölunum sem gegna einnig mikilvægu hlutverki í vistkerfi hafsins.

„Eitt stórhveli bindur ekki einungis allt að 33 tonn af kolefni á lífsleiðinni heldur finnast þéttustu breiður svifþörunga þar sem hvalir halda sig því úrgangur þeirra inniheldur járn og nítrat sem þörungarnir þrífast á,“ bendir hún á.

„Síðan er það plastið. Um átta milljónir tonna af plasti enda árlega í hafinu. Það hefur skaðleg áhrif á meðal annars hvali sem gleypa það í æ meira magni,“ segir Inga Lísa. Sem dæmi nefnir hún að fundist hafi nýlega 40 kg af plastpokum í iðrum 7 metra langs gáshnalls (svínhvals) sem rak á land á Filippseyjum. Fréttir berist æ oftar af hvölum sem reki á land nær dauða en lífi með allt að 150 kg af plasti, netadræsum og öðru rusli í iðrunum. „Örplast getur hamlað ljóstillífun og vexti þörunga. Ef þörungar og hvalir hverfa, þá er hætt við að mannkynið hverfi líka,“ segir Inga Lísa og jafnframt að hún hafi fullan hug á að vinna áfram að verkefnum sem tengjast sjálfbærni og líffræðilegum fjölbreytileika í samvinnu við vísindafólk, með sérstakri áherslu á hafið. „Ég er byrjuð að taka smásjármyndir á mismunandi smásjár, af þangi og öðrum sjávargróðri, og er að gera tilraunir með gamlar formúlur að ljósnæmum upplausnum til að skapa ný myndverk.“

Inga Lísa segir mikinn heiður að fá að sýna í hinu stórkostlega Listasafni á Akureyri, í heimabæ móður sinnar heitinnar, Þorbjargar Jónsdóttur. Sýningin, sem ber heitið Hafið á öld mannsins, stendur til 13. ágúst. Auk mynda af svifþörungum og hnúfubak er sýnt myndbandsverk um samspil svifþörunga, hvala og plastmengunar og til glöggvunar eru 40 kíló af hvítu plasti á miðju gólfi í sýningarrýminu.

Verk Ingu Lísu má m.a. skoða á vefnum ingalisamiddleton.com.

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...