Réttað í Hruna- og Skeiðaréttum
Hrunaréttir við Flúðir voru haldnar föstudaginn 8. september og gengu vel þrátt fyrir töluverða rigningu. Bændur og búalið létu það ekki slá sig út af laginu og gengu réttarstörf og rekstur heim eins og í sögu. Um 3.500 fjár voru í réttunum. Skeiðaréttir voru svo haldnar daginn eftir, eða 9. september, í blíðskaparveðri. Þar voru um 5.000 fjár í réttunum og mikill mannfjöldi. Allt gekk mjög vel fyrir sig. Magnús Hlynur Hreiðarsson var í báðum réttunum og fangaði stemninguna með meðfylgjandi ljósmyndum.